Bændablaðið - 12.12.2013, Page 49

Bændablaðið - 12.12.2013, Page 49
50 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. desember 2013 Utan úr heimi Hægt að framleiða viskí hvar sem er! Þeir sem ferðast um Skotland komast vart hjá því að taka hús á viskíframleiðanda enda er slíka að finna nánast á hverju strái. Aðspurðir segja Skotarnir að skýringuna sé meðal annars að finna í því að uppskerumagnið af korni af hverjum hektara hafi á árum áður verið svo lítið að það borgaði sig ekki að gefa skepnum kornið né að brugga úr því bjór. Að nýta það til viskígerðar var sú aðgerð sem skilaði bændunum mestri framlegð af hektaranum. Í dag er viskí framleitt víða um heim og reglulega berast fréttir af nýjum tegundum. Hér á landi eru að minnsta kosti tvö fyrirtæki á þessu sviði og jafnvel fleiri í startholunum. Fyrir nokkrum árum voru Danir í svipuðum sporum og Íslendingar, að hefja framleiðslu á viskí. Nú hafa þeir öðlast nokkra reynslu á þessu sviði og raunar náð afar góðum árangri á stuttum tíma. 8 ára saga Eitt af þessum fyrirtækjum í Danmörku heitir Stauning Whisky en það hefur náð einkar góðum árangri í framleiðslu á viskíi og hefur m.a. fengið afar góða umsögn í „Viskí- biblíunni“ sem er víðlesið fagrit um nánast allt viskí sem er framleitt í heiminum. Fyrirtækið er enn ungt en það var stofnað árið 2005 af 9 áhugasömum mönnum sem vildu gjarnan prófa að framleiða sitt eigið viskí. Alex Højrup Munch er einn af þessum mönnum og er í dag framkvæmdastjóri fyrirtækisins: „Þetta byrjaði þannig að við vorum saman í helgarferð þar sem skoskt viskí var m.a. með í för. Við undruðumst að ekki væri til danskt viskí enda allar forsendur til staðar eins og veðurfar, gott bygg og hreint vatn. Við ákváðum bara að prófa að framleiða fyrir okkur og eitt leiddi svo af öðru eiginlega óvart.“ Lítið í fyrstu Þeir félagarnir ákváðu strax að gera allt sjálfir, enda átti þetta að vera áhugamál. Einn í hópnum var slátrari og í aðstöðu hans var komið upp bæði aðstöðu til möltunar á bygginu, þ.e. spírun, og einnig suðugræjum. Fyrir svona litla framleiðslu eins og þeir sáu fyrir sér, voru suðukatlarnir sér- pantaðir frá Spáni en annar þeirra tók 400 lítra og hinn 200 lítra. Þetta töldu þeir miklu meira en nóg fyrir upp- haflegu hugmyndir þeirra en nú, átta árum síðar, standa þessir suðukatlar í sýningarsal fyrirtækisins. Þó svo að þetta hafi í upphafi byggst á áhugamennsku var mikil fagmennska hjá þessum félögum og strax í upphafi ákváðu þeir að leita ráða hjá helstu sérfræðingum heims í gerð á viskíi og fengu þannig góðan bakgrunn til framleiðslunnar enda margir boðnir og búnir til þess að hjálpa við að koma á fót fyrstu viskígerðinni í Danmörku. 6-8 þúsund lítrar á ári Strax eftir fyrstu framleiðsluna kom í ljós að þeir voru á kórréttri leið og í ljósi einstakra viðbragða ótal sérfræðinga á þessu sviði ákváðu félagarnir að fara í framleiðslu af fullum krafti. Tveimur árum síðar keyptu þeir eyðibýli í nágrenni bæjarins Stauning á Vestur-Jótlandi. Bú þetta, sem áður var kúabú, var með góðar en gamlar byggingar og hentaði afar vel fyrir framleiðsluna. „Við völdum einnig þetta bú þar sem það er alllangt frá næstu húsum enda er mikill eldsmatur í þúsundum lítra af viskíi á tunnum,“ sagði Alex og bætti við: „Svo tóku við ótal vinnustundir við að gera aðstöðuna tilbúna og fór nánast allur frítími okkar næstu tvö árin í að gera þetta sem best úr garði og í mars árið 2009 vorum við tilbúnir að hefja framleiðslu af alvöru og var stefnan sett á að framleiða 6-8 þúsund lítra af viskíi árlega.“ Fljótlega kom þó í ljós að eftirspurnin var miklu meiri en svo og er framleiðslan í dag 15.000 lítrar á ári. Þrír starfsmenn Í maí 2009 hóf einn af þessum níu köppum fullt starf við fyrirtækið og síðan hafa tveir til viðbótar fengið fulla vinnu við framleiðsluna og næsta sumar stendur til að bæta fjórða starfsmanninum við enda mikið að gera á sumrin segir Alex: „Bóndabærinn er vel í sveit settur þar sem hér eru margir ferðamenn, aðallega frá Þýskalandi, sem bæði vilja sjá framleiðsluferilinn og auðvitað smakka afurðirnar hjá okkur. Við erum með opið hús tvisvar á dag, þrisvar í viku og það er töluvert álag sem fylgir því að fá hundruð gesta og því ætlum við að bæta við fólki næsta sumar.“ Súgþurrkað korn Til þess að geta búið til viskí þarf að láta kornið spíra og er miðað við spírunar hæfni upp á 90% í hinu aðkeypta korni. Þegar það kemur í hús er það fyrst látið spíra á gólfi þar sem það er úðað og hrært í því reglulega á meðan spírurnar eru að koma út. Tilgangur þessa ferils er að sögn Alex að fá kornið til þess að mynda hvata sem breyta sterkjunni í maltósa, sem svo síðar verður næringarefni gerlanna sem breyta honum í alkóhól. 100% dönsk framleiðsla Í framleiðsluna er alltaf notað danskt korn, aðallega notað bygg en rúgur hentar einnig í ákveðinn hluta fram- leiðslunnar. Ekki er þó sama hvaða afbrigði er notað segir Alex og það er byggtegundin Guinze sem þeir nota mest af en sú tegund er lág í próteini en há í sterkju. Þegar svo spírunin er komin nógu langt er hún stöðvuð með því að þurrka kornið með súgþurrkun í 2-3 daga eða þar til 95% þurrefni er náð. Við þann hluta framleiðslunnar er einnig hægt að bæta við reyk í súg- þurrkunina til þess að gefa viskíinu rétt bragð. Misjafnt er hvað notað er til reykinga á korni en Stauning Whisky notar bæði torf og lyng til þess að fá fram rétta bragðið. Malað korn í hitabaði Næst er kornið svo malað og sett í ker með vel heitu vatni og svo hrært í leginum í 90 mínútur. Helstu nær- ingarefni hins malaða korns blandast við vatnið og svo er hinum fljótandi hluta hellt í sérstök gerjunarker sem í eru settir sérstakir gerlar. Hratið sem eftir er, fer í þar til gert ílát sem starfs- mennirnir rúlla með út í gömlu hlöð- una sem notuð er sem grófvörulager í dag. Þangað kemur svo kúabóndi úr nágrenninu daglega og sækir hratið sem er úrvals fóður fyrir mjólkurkýr. Eftir þrjá daga er gerjuninni lokið og þá hefst sjálf suðan. Tvísoðinn spíri Spírinn til viskígerðar er tvísoðinn eins og áður segir en fyrsta suða er einskonar hreinsun og er spírinn sem kemur úr þessari suðu um 25% að styrkleika. Sá spíri er svo settur í næsta ketil sem svo raunverulega eimar spírann og út kemur spíri sem er 68-69% að styrkleika. Þessi tvísuða tryggir besta útkomu en þar með er ekki öll sagan sögð því á þessu stigi vandast málið! Hali, hjarta og haus „Vandamesta ferli framleiðslunnar er að vita hvaða spíra maður á að setja á tunnu og hvað á ekki að nota“ segir Alex og heldur áfram „við tölum um hala, hjarta og haus suðunnar en það er í raun tímaröð hennar. Þannig tökum við halann frá og nýtum svo hjarta suðunnar í miðjunni til viskígerðarinnar en hausinn er líka settur til hliðar.“ En af hverju að kalla þetta þessum nöfnum? „Þetta kemur frá Skotlandi og er skemmtileg nafngift á suðuferlinu en eðlilega er spírinn misjafn að gæðum eftir því hvort hann verður til í upphafi eða í lokin eða eins og við viljum til viskígerðarinnar í miðju ferlinu.“ Fyrsti og síðasti hlutinn fer þó ekki til spillis heldur er þessum vökva blandað saman við spírann frá fyrstu suðu og svo soðinn á ný og svo koll af kolli. Biðin mikla Eftir að spírinn er svo tilbúinn er hann þynntur niður í 64% og svo er hann settur á tunnur. Notaðar eru tvenns konar tunnur, nýjar og notaðar, en þroskaferli viskísins felst í því að tunnurnar anda og gefa frá sér, og taka til sín, bragð úr spíranum. Annars vegar eru nýjar tunnur af bandarískri hvíteik, en ekki er hægt að nota eik frá Evrópu þar sem þéttleiki viðarins er of mikill. Hins vegar er spírinn settur í notaðar tunnur frá Burburry- framleiðslu í Bandaríkjunum, en þær tunnur gefa minna af sér af bragði en hinar nýju svo í þær fer bara sá hluti framleiðslunnar sem ekki krefst þess. Stauning Whisky framleiðir í dag þrjár gerðir af viskíi: tvær úr byggi, þar af önnur reykt bygg, og sú þriðja úr rúgi, sem er afar sjaldgæf tegund af viskíi en í raun heppileg fyrir Dani enda þekktir fyrir rúgframleiðslu. Tunnurnar eru síðan settar á lager og svo er beðið – í þrjú ár! Sett á flöskur Loks þegar þrjú ár eru liðin er svo hægt að setja fyrsta viskíið á flöskur en auðvitað hefur lögurinn verið smakkaður reglulega á meðan á biðinni stóð til þess að tryggja að allt sé á réttri leið. Þó svo að framleiðslan sé 15.000 lítrar á ári nú er aðstaðan til töppunar afar frumstæð. Allt gert í höndunum og hægt að hella í þrjár flöskur í einu. „Þetta er nú ekki mikið mál, hér stöndum við eigendurnir einn laugardag og töppum á flöskur. Á góðum degi gætum við sjálfsagt séð um að setja allan lagerinn okkar á flöskur svo við þurfum nú ekki fullkomnari tæki í bili,“ segir Alex. Ekki flókið Aðspurður sagði Alex að það hafi vakið athygli margra hve opnir þeir félagar eru fyrir því að sýna framleiðsluna, framleiðsluferilinn og annað er að framleiðslunni snýr. „Málið er að það er alls ekki flókið að framleiða viskí og fyrst okkur tókst þetta með því að lesa okkur til í bókum þá geta aðrir það einnig. Við byggjum hins vegar framleiðsluna á sérstöðunni. Við notum eingöngu danskt hráefni og reykjum t.d. byggið með torfi og lyngi. Það gera ekki aðrir og þar er okkar sérstaða sem er að skila þessum góða árangri,“ sagði Alex að lokum. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Nautgriparæktardeild Þekkingarseturs landbúnaðarins í Danmörku. Hér er Alex í vinnslusalnum þar sem spírinn er soðinn í tvígang. Áður en viskí er sett á tunnur er það litlaus spíri eins og hér sést. Suðukatlarnir eru úr kopar og var búnaðurinn framleiddur sérstaklega fyrir Stauning viskí á Spáni.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.