Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.12.1987, Síða 38

Læknablaðið - 15.12.1987, Síða 38
446 LÆKNABLAÐIÐ fyrirlestrarformi, tók aldrei upp í tímum, en hafði þess í stað mörg munnleg skyndipróf sem allir tóku þátt í og sem nemendum var alltaf tilkynnt um með góðum fyrirvara. Kvikmyndir og skyggnur notaði ég sem hjálpargögn og ýmis konar gögn í eigu spítalans. Ég ákvað strax að láta kennsluna í þessum bóklegu greinum ná yfir nær allan námstímann, en á það atriði höfðu bæði forstöðufólk sjúkraliðanna svo og kennarar þeirra lagt mjög mikla áherslu. Kennslan byrjaði því í október og stóð fram í apríl, þrír tímar í viku að jafnaði og lauk kennslunni með skriflegu prófi í apríl. Eiginlega hafði ég ekki reiknað með öðru og meiru en að vera með i að skipuleggja sjúkraliðanámið og koma því af stað og kenna þennan vetur, sem ég var aðstoðarlæknir á spítalanum. En það fer margt öðruvísi en ætlað er, því ég kenndi í 7 ár samtals, þ.e. 1965 til 1972. Það var margt þess valdandi að ég kenndi þetta lengi, þó störf mín við augnlækningar yrðu æ tímafrekari. Þar ber að nefna að stjórnendur spitalans voru ákaflega uppörvandi og hvetjandi til dæmis gagnvart breytingum, sem alltaf verða einhverjar í allri kennslu. Og svo voru það nemendurnir, áhugasamari og elskulegri nemendur en þá sem ég hafði, get ég alls ekki hugsað mér. Því lít ég tilbaka til þessara ára með mikilli ánægju og mér finnst að þetta leiðbeiningarstarf mitt hafi verið með því áhugaverðasta og skemmtilegasta sem ég hefi fengist við. Mér hefur fundist hlýða að dvelja nokkuð við þessi allra fyrstu ár sjúkraliðakennslunnar á Landakoti, en að sjálfsögðu er það eingöngu þar sem ég gjörþekki hana og get skýrt frá henni af eigin reynslu. Kennslan við aðra spítala hlýtur að hafa verið eitthvað svipuð þeirri, sem hér hefur verið lýst. En því er sjálfsagt að skýra frá kennslunni fyrstu árin, því á þeim grunni hlýtur áframhaldandi kennsla að vera reist að miklu leyti. Nú er kominn sjúkraliðaskóli og námið orðið tvö ár. Auk þess er sjúkraliðanám einnig í öðrum skólum. Á tveimur árum á að vera hægt að koma miklum fróðleik til skila og veita góða verklega þjálfun, ef kennslan öll er vel skipulögð. Mér finnst við þó oft einblína um of á lengd ýmis konar náms sem mælikvarða á gæði þess. Gæði er líka hægt að auka með því að gjörnýta allan námstímann. Að því þarf vissulega að gefa gaum og meira en oft er gert. Á tímamótum sem þessum, þegar 20 ár eru liðin á þessu ári frá því að sjúkraliðanám hófst og á næsta ári 20 ár frá því fyrstu sjúkraliðarnir tóku til starfa, er vissulega ástæða til að líta um öxl og sjá hvað áunnist hefur. Var þetta ein leiðin til að ráða bót á hjúkrunarkvennaskortinum? Þessari spurningu varpaði ég fram fyrir tæpum aldarfjórðungi. Nú ætti að vera hægt að fá eitthvert svar við þeirri spurningu. Fyrir skömmu spurðist ég fyrir um það hjá hjúkrunarforstjóra Landakotsspítala, Guðrúnu Marteinsson, hve margir sjúkraliðar væru þar starfandi og hve margir hjúkrunarfræðingar. Svarið var: Það eru 83 sjúkraliðar og 86 hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun á legudeildum. Tiu hjúkrunarfræðingar eru þó starfandi þar til viðbótar en vinna við stjórnun kennslu og þess háttar. Þetta svar er nokkuð ótvirætt og gefur til kynna hve stóru hlutverki sjúkraliðar gegna í hjúkrun. í ljósi þessa kemur manni undarlega fyrir sjónir hve sjúkraliðanna er lítið getið og stundum alls ekkert, þegar rætt er um hjúkrunarmál. Mér kemur í huga útvarpsþáttur fyrr á þessu ári, en umræðuefnið var hjúkrunarmál m.a. skortur á hjúkrunarfólki. Viðmælendur stjórnanda þáttarins voru m.a. hjúkrunarforstjórar, fulltrúi úr heilbrigðismálaráðuneytinu, forystukonur hjúkrunarmála, svo að nokkrir séu nefndir. Þátturinn stóð talsvert á aðra klukkustund svo það var komið inn á býsna margt bæði fróðlegt og gagnlegt, eins og nærri má geta. Þar kom, að stjórnandi þáttarins varpaði fram spurningu um sjúkraliðana. Spyrjandinn fékk ekkert svar, alls ekkert, og hvað sem olli var spurningin ekki endurtekin og það var alls ekki síðar í þættinum minnst á sjúkraliðana eða hlutverk þeirra í hjúkrun frekar en þeir væru ekki til. En það að áhrifafólk í heilbrigðiskerfinu skuli geta rætt fram og aftur um hjúkrunarmál án þess að geta sjúkraliðanna að nokkru gegnir meir en furðu, svo vægt sé til orða tekið. Það er því augljóslega ekki að ófyrirsynju að Sjúkraliðafélag fslands efnir til ráðstefnu sem þessarar um menntun, starfssvið og stöðu sjúkraliða í heilbrigðiskerfinu. Það er mjög tímabært að því er virðist. Það væri líka mjög fróðlegt, að sjúkraliðar kynntu sér þessi mál annars staðar til samanburðar. Ég hef imprað á þvi við formann Sjúkraliðafélags fslands, frú Margréti S. Einarsdóttur, að hún taki sér ferð á hendur til Bandaríkjanna til að kynna sér starfsemi sjúkraliðafélaga þar í landi, menntun sjúkraliða

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.