Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.05.1992, Page 9

Læknablaðið - 15.05.1992, Page 9
LÆKNABLAÐIÐ 167 Höfundum er ekki kunnugt um að sambærileg rannsókn hafi verið gerð hér á landi og lítið er vitað um áhrif íhlutunar sem þessarar á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma starfsfólks á vinnustöðum. Oft er vitnað til umfangsmikillar rannsóknar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (11-14) í þessu samhengi, en þar voru könnuð áhrif íhlutunar á áhættuþætti kransæðasjúkdóma meðal 63.732 starfsmanna 88 verksmiðja í fimm löndum í Evrópu. Meðallækkun á kólesteróli var aðeins 0,9% eftir tvö ár og 2,2% eftir fjögur ár, en nokkuð mismunandi eftir löndum. í rannsókninni var íhlutunin eingöngu fólgin í fræðslu og svo virðist sem slík íhlutun beri ekki nógu góðan árangur ein sér. I okkar rannsókn var hins vegar veitt fræðsla auk sannanlegrar breytingar á fæðusamsetningu á vinnustað. Þegar rætt er um aðgerðir gagnvart hárri blóðfitu er oftast reynt að ná til þeirra sem hafa hæstu gildin (»high risk strategy«). Hins vegar er vitað að mun fleiri kransæðasjúklingar hafa miðlungshá kólesterólgildi og því þjóðfélagslega séð, árangursríkast að lækka kólesteról hjá öllum (»low risk strategy«) (15). Þessi rannsókn hefur þá sérstöðu að báðum aðferðum var beitt, þ.e. íhlutun var beitt á allan hópinn, en þeir sem höfðu hæstu gildin fengu meira aðhald en hinir. Þar eð tilgangur rannsóknarinnar var fyrst og fremst að sýna fram á árangur íhlutunar á áhættuþættina, en ekki sjúkdóma, þótti ekki ástæða til að skipta niðurstöðum eftir kyni. Kólesteról lækkaði marktækt í öllum hópum í þessari rannsókn, í réttu hlutfalli við upphafsgildin, þ.e. mest lækkun varð í hópi D, en minnst í hópi A. Heildarlækkun var 7,6% sem, ef viðvarandi, ætti að minnka líkur á dauða af völdum kransæðasjúkdóma um 15% (16). Þess ber þó að geta að í þeim hópum sem mældir voru árlega á tímabilinu, gætir tilhneigingar til hækkunar á kólesteróli á seinna árinu. Háþéttni fituprótínið HDL er talið vera vemdandi þáttur blóðfitu með tilliti til kransæðasjúkdóma (17). Það er því athyglisvert að HDL hækkaði á tímabilinu í þeim hópum sem það var mælt í, einkum á seinna árinu. Nam sú hækkun um eða yfir helming þeirrar heildarhækkunar kólesteróls sem varð seinna árið. Slík síðkomin hækkun hefur einnig komið fram í annarri rannsókn á áhrifum breytts mataræðis á blóðfitu (18). Hækkun þessi var marktæk í hópum B og C en ekki í D. Hækkun þessi er athyglisverð, ekki síst fyrir þá sök að ekki varð nein umtalsverð breyting á ýmsum þeim þáttum sem tengjast breytingum á HDL, svo sem reykingum, hreyfingu, líkamsþyngd eða gildi þríglýseríða í blóði. Kannski má skýra þessa hækkun með því að breyting verði á samsetningu blóðfitunnar af völdum breyttrar fitunotkunar í mataræði starfsmanna. í samræmi við þessar niðurstöður varð lækkun á kólesteról/HDL hlutfallinu í hópunum þremur með meðalgildi 4,5, 5,0 og 5,3 í hópum B, C og D eftir tvö ár. Þetta hlutfall hefur verið notað svipað og LDL/HDL hlutfallið við að meta hvaða meðferð á að velja fyrir einstaklinga með há blóðfitugildi og er talið æskilegt að gildið sé lægra en 5. LDL/HDL hlutfallið lækkaði í hópi C úr 3,8 í 3,3 og í D úr 5,2 í 3,7 á 20 mánaða íhlutunartímabili, en æskilegt gildi er talið vera lægra en 4 (19-21). I þessari rannsókn var ekki stuðst við viðmiðunarhóp án íhlutunar. Vegna eðlis rannsóknarinnar hefði slíkt reynst ógerlegt á þessum vinnustað. Þar sem viðmiðunarhópinn skorti ber að hafa í huga hvort kólesteróllækkunin hafi raunverulega verið vegna þeirra aðgerða sem gripið var til eða annarra orsaka svo sem »tilfærslu að miðjunni« (»regression toward the mean«) (22). Við teljum að íhlutunin hafi átt stærstan þátt í árangrinum, og má benda á að mest breyting varð á almennu mataræði einstaklinga í hópi D þar sem íhlutunin var mest, en einnig nokkur í hópum B og C. Hækkunin á HDL og lækkun á hlutföllum kólesteról/HDL og LDL/HDL styrkir einnig þá túlkun að raunverulegur ávinningur hafi verið af íhlutuninni. Sennilega hefur mataræði á vinnustöðum ekki verið gefinn nægilegur gaumur í baráttunni gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að rhlutun um mataræði á vinnustöðum sé ekki einungis æskileg heldur mjög gagnleg. ÞAKKIR Þakkir eru færðar Islenska Járnblendifélaginu fyrir að gera þessa rannsókn mögulega.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.