SunnudagsMogginn - 13.11.2011, Blaðsíða 13
13. nóvember 2011 13
Áhöfnin á gríska fraktskipinuCaptain Theo rak upp stór augufyrir nákvæmlega hálfri öldþegar hún sigldi óvænt fram á
ellefu ára gamla stúlku á pínulítilli kork-
fleytu á Providence-sundi suður af Flór-
ída. Stúlkan, Terry Jo Duperrault, var með
meðvitund en verulega af henni dregið
eftir fjóra sólarhringa á floti í sjónum. Hún
var umsvifalaust hífð um borð en skip-
verjum og síðar lögreglu varð ekki um sel
þegar stúlkan rakti hræðilega sögu sína.
Hún var á þessa leið: 8. nóvember 1961
leigði faðir Terry Jo, dr. Arthur Duperrault
sjónglerjafræðingur frá Green Bay, Wis-
concin, seglskútuna Bluebelle í Fort Lau-
derdale, Flórída, ásamt eiginkonu sinni,
Jean, og þremur börnum, Brian fjórtán
ára, Terry Jo ellefu ára og Renee átta ára,
til að sigla í frí á Barbados. Skipstjóri var
flughetja úr heimsstyrjöldinni síðari og
Kóreustríðinu, hinn 44 ára gamli Julian
Harvey. Einnig var um borð nýbökuð eig-
inkona hans, Mary Dene, tíu árum yngri.
Vaknaði við harmakvein
Allt gekk að óskum á leiðinni til Barbados
en á heimleiðinni varð fjandinn laus. Að-
faranótt 12. nóvember hrökk Terry Jo upp
við ægileg óhljóð í skútunni. Þegar hún fór
á fætur til að aðgæta hvað væri á seyði
skipaði Harvey skipstjóri henni að halda
sig í káetunni. Stúlkan gegndi því ekki og
þegar hún gægðist upp á þilfarið blasti við
henni skelfileg sjón: Móðir hennar og
bróðir lágu þar hreyfingalaus í blóði sínu.
Terry Jo lagði saman tvo og tvo og gerði
ráð fyrir að Harvey myndi ráðast á sig líka.
Hann var í miðjum klíðum að sökkva
skipinu þegar Terry Jo skaust framhjá
honum, leysti pínulitla korkleytu og henti
sér fyrir borð. Harvey brá sér frá, líklega
til að sækja hníf, en á meðan tókst Terry Jo
að komast undan. Ekki er ljóst hvers
vegna hann myrti hana ekki líkt og for-
eldra hennar og bróður en sennilega hefur
hann talið að hún myndi drukkna þegar
skútan sykki.
Önnur kenning er sú að Terry Jo hafi
óvart losað taugina á björgunarbáti skút-
unnar, sem Harvey ætlaði að nota til að
bjarga eigin skinni, og hann í framhaldinu
stokkið beint um borð af ótta við að bát-
urinn flyti á brott án hans.
Sjálf man Terry Jo atburðarásina ekki
nákvæmlega enda undir gríðarlegu álagi,
aðeins ellefu ára gömul.
Skipstjórinn fannst daginn eftir ásamt
líki yngri Duperrault-systurinnar, Renee.
Gaf hann lögreglu þá skýringu að eldur
hefði komið upp í skútunni og hann einn
bjargast. Hann hefði séð Renee á grúfu í
sjónum og reynt að blása í hana lífi – án
árangurs. Krufning leiddi í ljós að Renee
hafði drukknað.
Á þeim tímapunkti voru engar for-
sendur til að rengja frásögn Harveys enda
þótt einhverjum hafi eflaust þótt skrýtið
að skipstjórinn einn kæmist lífs af.
Án vatns og matar
Terry Jo barst með straumnum í fjóra sól-
arhringa án vatns og matar á hafsvæði, þar
sem krökt er af hákörlum. Hún mátti þola
steikjandi hita á daginn en nístingskulda á
næturna. Þegar áhöfnin á Captain Theo
fann hana hallaði hún sér stíf aftur í kork-
fleytunni með hendur á hnakka. Fæturnir
stóðu fram úr. Skjannahvítt hárið, sem
glóði í sólinni, var í hróplegu ósamræmi
við illa sólbrennt andlitið. Einn skipverja
tók mynd af Terry Jo á korkfleytunni og
fór hún eins og eldur í sinu um heiminn.
Terry Jo varð á augabragði frægasta ellefu
ára stúlka í heimi.
Tvísýnt var um líf Terry Jo og henni
komið í ofboði á spítala í Miami. Hún
braggaðist fljótt. Strax kom á daginn að
sögum þeirra Harveys skipstjóra bar ekki
saman. Þeim síðarnefnda krossbrá líka
þegar hann frétti að Terry Jo hefði fundist
á lífi. Hélt hann rakleiðis á mótel í grennd-
inni, þar sem hann svipti sig lífi með rak-
vélarblaði.
Sannað þótti að hann hefði ráðið eig-
inkonu sinni og fjórum meðlimum Duper-
rault-fjölskyldunnar bana þessa örlaga-
ríku nótt á Bluebelle. Hvers vegna veit
enginn en lögreglu þótti líklegasta skýr-
ingin sú að Harvey hefði ætlað að myrða
eiginkonu sína til að hirða líftryggingu
hennar en einhver úr Duperrault-
fjölskyldunni staðið hann að verki. Fyrir
vikið hefði hann ætlað að losa sig við vitn-
in.
Þessi kenning verður aldrei sönnuð en
það þykir renna stoðum undir hana að
nokkrum árum áður hafði Harvey komist
á undraverðan hátt lífs af úr bílslysi, þar
sem fyrri eiginkona hans og móðir hennar
létust. Þá höfðu bæði snekkja og vélbátur í
hans eigu sokkið við dularfullar aðstæður
og hann hirt veglegar bætur. Harvey var
sexgiftur.
Sagði söguna fyrst í fyrra
Terry Jo kallar sig nú Tere Duperrault
Fassbender og er orðin 61 árs. Hún átti að
vonum erfitt uppdráttar eftir atvikið en
ættingjar tóku hana að sér. Hún hefur
lengst af lifað venjulegu lífi utan sviðs-
ljóssins.
Tere Duperrault Fassbinder tjáði sig
fyrst að nokkru marki um þessa hræðilegu
upplifun á síðasta ári í bók sem hún skrif-
aði í félagi við sálfræðinginn Richard Log-
an, Alone: Orphaned on the Ocean.
„Fólki var snemma sagt að ræða atburð-
inn ekki við mig og fyrir vikið gafst mér
aldrei ráðrúm til að tala um hann,“ sagði
hún í samtali við sjónvarpsþáttinn NBC
Today, þegar hún kynnti bókina. „Ég hef
aldrei hætt að hugsa um þetta.“
Spurð hvers vegna Harvey hafi þyrmt
henni svaraði hún því til að líklega hafi
hann talið að hún myndi sökkva í sæ með
skútunni. Sem fyrr segir lagði hann ekki
heldur til systur hennar.
Duperrault Fassbender kvaðst í samtal-
inu við Today ekki hafa verið skelkuð
meðan hana rak um hafið. „Ég var útivist-
arbarn og unni vatninu. Ég átti líka mína
trú, ég trúði á Guð og bað hann að vernda
mig. Ég býst við að ég hafi bara fylgt
straumnum.“
Áfallahjálp þekktist ekki á þessum tíma
og Duperrault Fassbender kveðst ekki hafa
fengið mikla sálfræðiaðstoð eftir atvikið. Á
hinn bóginn hafi ritun bókarinnar verið
ígildi bestu meðferðar. „Ég trúi að mér hafi
verið þyrmt af einhverri ástæðu og sú
ástæða er að ég eigi að hjálpa öðru fólki.
Vonandi verður bókin til þess að hjálpa
einhverjum – veita þeim innblástur.“
Litla stúlkan og hafið
Ellefu ára stúlka, Terry
Jo Duperrault, varð
heimsfræg á svipstundu
þegar hún fannst eftir
fjóra sólarhringa á
pínulítilli korkfleytu í
hafinu suður af Flórída
fyrir 50 árum. Hún
hafði sloppið úr klóm
óðs manns sem myrti
fjölskyldu hennar.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Tere Duperrault Fassbender í dag.
Morðinginn, Julian Harvey.
Myndin fræga sem skipverji
á Captain Theo tók af Terry Jo
á korkfleytunni sem
bjargaði lífi hennar.
Foreldrar og systkini Terry Jo sem féllu fyrir hendi Harveys.
Terry Jo öll að koma til á sjúkrahúsinu.
Terry Jo á sjúkrahúsinu í Miami.