Morgunblaðið - 02.12.2011, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 02.12.2011, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. DESEMBER 2011 ✝ Noëlle Naudotfæddist í París 1. mars 1952. Hún lést á heimili sínu í Etiolles í Frakk- landi 24. nóvember 2011. Hún var dótt- ir hjónanna Jeann- ine, f. 3.3. 1925 og Jean Naudot, f. 12.12. 1925, sem nú eru bæði látin. Bróðir Noëlle er Didier Naudot, f. 2.3. 1957. Árið 1979 giftist Noëlle Ein- ari Kjartanssyni, f. 20.9. 1955 og eignuðust þau tvo syni, Jóhann Sébastian, f. 28.10. 1981, d. 12.12. 1992 og Grégory Einar, f. 20.5. 1984. Einar er sonur hjónanna Helgu Einarsdóttur, f. 26.5. 1931 og Kjart- ans V. Guðmunds- sonar, f. 30.11. 1931. Systkini Ein- ars eru Garðar, f. 25.3. 1951, Vil- hjálmur, f. 30.5. 1952, Guðmundur, f. 7.11. 1958 og Sjöfn, f. 6.10. 1965. Fyrstu tvö ár sam- búðar sinnar bjuggu Noëlle og Einar á Íslandi en fluttust til Frakklands sama ár og þau giftu sig og bjuggu þar síðan. Útför Noëlle fer fram í Etiol- les í Frakklandi í dag, 2. desem- ber 2011. Í dag kveðjum við, hér í Etiol- les í Frakklandi, elskulega tengdadóttur og mágkonu Noëlle Kjartansson, fædda Naudot. No- ëlle varð bráðkvödd á heimili sínu þann 24.11. sl. Noëlle ólst upp hjá foreldrum sínum með yngri bróður sínum Didier, í París, síðar í Evry og að lokum í Soisy. Noëlle var nýj- ungagjörn og opinn persónuleiki sem vildi kynnast öðrum löndum og siðum og var því dugleg að ferðast. Hún hitti Einar bróður okkar á einu slíku ferðalagi í Grikklandi og unga parið felldi hugi saman. Okkur fjölskyldunni þótti það ákaflega merkilegt og spennandi þegar Einar sagði okkur að hann hefði kynnst franskri stúlku, enda var það ekki algengt á þess- um árum að ungir piltar ferðuð- ust um heiminn eins og hann gerði á þessum árum. Þegar Ein- ar kom með Noëlle með sér til Ís- lands má segja að hún hafi orðið meðlimur Hvassaleitisfjölskyld- unnar á svipstundu. Hvernig var annað hægt; þessi hægláta og yndislega stúlka bauð af sér slík- an þokka að fólk hændist mjög auðveldlega að henni. Það var líka hreint með ólíkindum hversu fljótt hún lærði íslensku og áður en við vissum var hún farin að leiðrétta málfræðivillur okkar Ís- lendinganna. Einar og Noëlle eignuðust tvo yndislega drengi, þá Jóhann Sé- bastian og Grégory Einar, sem voru augasteinar þeirra hjóna. En sorgin barði grimmilega að dyrum þegar Jóhann var aðeins 10 ára gamall og fór það svo að hann lést úr krabbameini, þá að- eins nýorðinn 11 ára. Ekki er hægt að hugsa sér neitt hræði- legra en að missa barnið sitt svo ungt að árum, en Noëlle og Einar sýndu ótrúlegan styrk og þrek í þeim aðstæðum. Noëlle og Einar hafa alla tíð haldið mikilli tryggð við fjöl- skyldu og vini á Íslandi og rækt- að þau sambönd vel. Noëlle var mikill unnandi íslenskrar náttúru og ferðuðust hún og Einar reglu- lega um landið og eru fáir staðir á Íslandi sem þau hafa ekki heim- sótt. Eins höfum við í fjölskyld- unni alla tíð verið velkomin á þeirra heimili og hafa foreldrar okkar verið tíðir gestir hjá þeim í gegnum árin. Því miður var Noëlle ekki allt- af við fulla heilsu og barðist hún m.a. við nýrnasjúkdóm í mörg ár, en aldrei heyrði maður hana kveinka sér, hún var alltaf að hugsa um hvort allir aðrir hefðu það ekki örugglega gott. Hún studdi dyggilega við bakið á Ein- ari í hans erfiðu veikindum fyrr á þessu ári, sem hann hefur nú von- andi sigrast á, þó að hún hefði svo sannarlega nóg með sín. Allir ganga í gegnum erfiðleika einhverntíma á lífsleiðinni, en manni reynist erfitt að skilja hvers vegna sumir þurfa að ganga í gegnum endalausar þrautir eins og Einar og hans fólk hefur þurft að glíma við í gegnum tíðina. Það er skylda fjölskyld- unnar og vina að styðja við þau í þessum erfiðleikum. Það er með sárum söknuði sem við kveðjum okkar kæru vinkonu sem gerði líf okkar svo miklu rík- ara en erum um leið þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Fyrir hönd foreldra okkar og systkina, Guðmundur Kjartansson. Oft og mörgum sinnum hef ég þakkað fyrir það að hafa kynnst henni Noëlle mágkonu minni og að hafa átt hana að allt frá því að ég var 13 ára. Hún hefur alla tíð spilað stórt hlutverk í mínu lífi og kennt mér ótal ótal marga góða hluti sem hafa mótað mig sem einstakling. Noëlle var einstaklega hlý og góð manneskja. Mér fannst auð- velt að kynnast henni, þrátt fyrir að í byrjun hafi hún ekki talað ís- lensku og ég ekki frönsku og þrátt fyrir nokkurn aldursmun. Hún var bara einstaklega aðlað- andi manneskja. Fljótlega eftir að þau Einar stofnuðu heimili hér á Íslandi fyrir ríflega 30 ár- um fór ég að venja komur mínar til þeirra á Nönnugötuna, þar sem hún kenndi mér að lesa og tala frönsku og þar sem hún kenndi mér að elda spaghetti með tómatasósu og eggi. Einfalt, ódýrt og dásamlega gott. Noëlle kenndi okkur í fjöl- skyldunni að meta allskonar nýj- ungar í matargerð löngu áður en þær bárust til Íslands og að njóta samverustunda yfir góðum mat eins og þekkist í hennar heima- landi. Hún kenndi okkur að nota allskonar grænmeti og krydd- jurtir, olíur og Dijon-sinnep, quiche og sítrónubökur, hrísgrjónasalöt, cous-cous, tún- fiskbrauð, ólífur og bagettur. Hjá henni kynntumst við endalausum dásamlegum sultum og framandi ávöxtum, ostrum og sniglum og skelfiski – að ógleymdum frönsku ostunum og dásamlegum léttvínum. Kampavín, Kir, Pastis eða Orangina – já það eru ófáar stundirnar sem við höfum notið hjá þeim yfir fordrykk í stofunni í Etiolles eða úti á veröndinni, þar sem við glöddumst yfir að vera saman, fjölskylda og vinir. Tók- um okkur góðan tíma í að spjalla saman áður en dásamlegur mat- ur var borinn á borð. Noëlle gaf okkur ótal dýrmæt- ar minningar og okkur finnst sem hún hafi opnað fyrir okkur nýjan heim á sínum tíma og gert líf okkar ríkara svo um munar. Ég veit ekki hvað oft ég heim- sótti þau til Frakklands sem ung stúlka og oft var ég að draga vin- konur mínar með mér til að kynna þær fyrir þessum ævin- týraheimi sem hafði opnast fyrir mér í gegnum Noëlle og Einar. Að fara út í garð hjá Jeannine í Soisy, tína tómata og annað grænmeti, setja í körfuna sem hékk í bandi niður af svölunum, fara svo upp og hífa það upp á svalirnar og færa meistara- kokknum í eldhúsinu, þetta fannst mér bara stórkostlegt og dásamlegt. Noëlle var mjög gáfuð kona, hún var ótrúlega vel að sér á fjöl- mörgum sviðum, vel menntuð og talaði ensku, þýsku og íslensku auk móðurmálsins. Hún hafði góðan húmor og það var gaman að vera með henni og heyra dill- andi hláturinn af minnsta tilefni. Hún var einstakur dýravinur og laðaði að sér hunda og ketti hvar sem hún fór. Nánast alla tíð hafa verið hundar og/eða kettir á heimili þeirra Einars. Noëlle var gjafmild á margan hátt, hún gleymdi aldrei afmæl- isdögum og var einstaklega áhugasöm um hvað fólk tók sér fyrir hendur. Hún gaf okkur tíma sinn og umhyggju. Það er sárt að þurfa að kveðja svo yndislega vinkonu. En ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Söknuðurinn er óendanlegur og minningin lifir. Sjöfn. Noëlle Kjartans- son Naudot HINSTA KVEÐJA Hver skilur lífsins hulda heljardóm er haustsins nepja deyðir fegurst blóm, að báturinn sem berst um reiðan sjá brotna fyrst í lendingunni má. Að einn má hlýða á óma af gleðisöng, annar sorgarinnar líkaböng. (Guðrún Jóhannsdóttir.) Blessuð sé minning þín. Vilhjálmur og Elísabet. ✝ ValgerðurJónsdóttir fæddist í Mið- húsum, Hrútafirði, 30. maí 1917. Hún lést á Hrafnistu, Reykjavík, 23. nóv. síðastliðinn. Foreldrar henn- ar voru Guðrún Grímsdóttir, f. 11.7. 1894, d. 11.2. 1956 og Jón Magnússon, f. 15.5. 1891, d. 28.7. 1956. Val- gerður átti 7 systkini þau eru: Matthildur, f. 15.7. 1919, d. 21.8. 2008, Þorgeir, f. 20.10. 1920, d. 13.9. 1945, Þorbjörg, f. 17.11. 1923, Sigfríður, f. 14.8. 1926, Hildur, f. 29.8. 1929, Ingibjörg, f. 30.10. 1931, d. 5.8. 1932, Magnea Ólöf, f. 8.6. 1941. Valgerður gift- ist 14.11. 1953 Kjartani Jóhann- essyni frá Herjólfsstöðum, f. 17.7. 1913, d. 30.8. 1990, skrif- stofumanni í Reykjavík. For- eldrar hans voru Jóhannes Guð- mundsson og Þuríður Pálsdóttir. Kjörbörn Valgerðar og Kjartans eru Þorgeir Rúnar sagnfræð- ingur, f. 26.11. 1955, d. 6.11. 1998, sambýliskona hans var Rúna K. Tetzschner íslensku- fræðingur, og Kristrún Harpa, f. 20.9. 1960. Eig- inmaður Kristrúnar er Ingvar Pét- ursson vélvirki, f. 29.4. 1958. Börn Kristrúnar eru Guðjón Kjartan Viggósson, f. 15.4. 1978, d. 14.10. 1996, Jerry Dwayne Williams, f. 18.9. 1981, d. 8.1. 2007, Róbert Ómar Willi- ams, f. 13.5. 1986, d. 13.5.1986. Valgerður ólst upp á Kirkjubóli Steingrímsfirði til 8 ára aldurs, síðan í Skálholtsvík í Hrútafirði. Hún fór í Kvennaskólann á Blönduósi og flutti síðan til Reykjavíkur um tvítugt, hún vann ýmis störf, var til dæmis ráðskona í vegavinnu, við saumaskap en lengst vann hún í Úra- og skartgripaverslun Magnúsar Sigurjónssonar við Laugaveg, síðast vann hún í húsi aldraðra við Lönguhlíð. Val- gerður og Kjartan bjuggu yfir 40 ár í Karfavogi 34. Eftir að Kjart- an lést flutti hún á Kleppsveg 62 og síðan yfir á Hrafnistu. Valgerður verður jarðsungin frá Áskirkju í dag, föstudaginn 2. desember 2011, kl. 13. Það er eins og þúsund kórar syngi með þéttum hreim og alvaldið sé með og það er eins og klukknaveröld klingi við kátan draum sem nóttin hefur léð. Ég sakna þín og sólin hefur kvatt og sorgin býr við hjartastað í mér ég segi þér vina líka soldið satt: ég sef um nætur djúpt í brjósti þér. (Þorgeir Rúnar Kjartansson.) Ég vil kveðja hjartahlýja og ljúflynda konu, Valgerði Jóns- dóttur, með hinu fallega ljóði sonar hennar, einu af mörgum eftir hann sem hún var svo stolt af. Sextán ár eru liðin síðan Þor- geir Rúnar Kjartansson kynnti mig fyrir Valgerði, móður sinni. Hún tók mér opnum örmum og ávallt upp frá því umvafði hún mig sömu hlýju og ást og hún alltaf hafði umvafið son sinn. Við Valgerður tengdust gegn- um ást til Þorgeirs, hún sem móðir, ég sem unnusta. Síðar deildum við líka sorginni. Val- gerður mátti þola þungar raunir og missi náinna ástvina. Hún horfði upp á það sem öllum for- eldrum er sárast – sonur hennar dó langt fyrir aldur fram. Sjálf hélt hún samt áfram að vera lítil sól sem stafaði frá sér birtu. Hún vildi öllum vel; hóg- vær en þó ákveðin og seig. Við héldum tryggð við hvor aðra og Valgerður fylgdist af áhuga með hinum ýmsu tiltækjum mínum, ekki síst á sviði listarinnar þar sem ljóð og list sonar hennar komu mjög við sögu. Hún kom fram við mig eins og dóttur og studdi mig á margvíslegan hátt. Elsku Valgerður, ég þakka þér fyrir að reynast mér svo vel, fyrir tryggð þína, alúð og ljúf- mennsku. Dóttur þinni, Krist- rúnu, og öðrum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð. Rúna Knútsdóttir Tetzschner. Okkur systurnar langar að minnast Valgerðar elstu systur okkar með nokkrum orðum, en hún lést núna 23. nóvember 94 ára gömul. Hún var södd lífdaga og var tilbúin að yfirgefa þetta líf. Hún hélt sinni andlegu reisn alla tíð nema síðustu dagana, en heyrn og sjón voru farin að gefa sig og líkamleg hreyfigeta eins og gengur. Hún átti sín fyrstu æviár í Tungusveit, Steingrímsfirði, þar sem foreldrar okkar byrjuðu bú- skap og þaðan átti hún góðar minningar. Síðan flutti fjölskyld- an til Skálholtsvíkur í Hrútafirði, þar sem við ólumst upp. Sem elsta barnið varð hún að taka þátt í bústörfum strax og hún gat. Hún var dugleg og kjark- mikil og fylgdi föður okkar til allra útiverka og stjórnaði systk- inum sínum með harðri hendi. Hún gerðist kaupakona í sveit- inni og ráðskona í vegavinnu, þar sem hún eldaði á prímusi í tjaldi fyrir karlana. Á stríðsárunum var hún komin til Reykjavíkur og vann þar ýmis störf, mörg ár af- greiddi hún í úra- og skartgripa- verslun við Laugaveginn. Í Karfavoginum bjuggu þau sér framtíðarheimili hún og Kjartan maður hennar og þar bjuggu þau í yfir 40 ár. Þar var gott að koma í einskonar fjöl- skylduhús, Matta systir og Jens maður hennar með sína íbúð á efri hæðinni, oft glatt á hjalla og mannmargt. Hún Valla fór ekki varhluta af áföllum um ævina, þurfti að sjá á eftir eiginmanni, einkasyni og dóttursonunum tveimur, sem upp komust, á nokkrum árum, eftir stóðu þær tvær hún og einkadóttirin búsettar hvor á sínu landshorninu. En þær studdu hvor aðra eftir bestu getu. Þá kom vel í ljós hverslags hörkutól hún var. Hún tók bíl- próf þegar hún var um sextugt og keypti sér bíl, keyrði um allar jarðir í mörg ár og lét ekkert stoppa sig. Kjartan keyrði aldrei bíl, hann var orðinn mjög lungnaveikur á þessum tíma þannig að þetta létti honum lífið. Þetta var orðin löng ævi og hún lifði tímana tvenna og gat sagt frá mörgu sem hún gerði oft. Hún hafði sérstaka hæfileika til að segja frá þannig að frá- sögnin varð alltaf spennandi og ævintýraleg. Hún skilur eftir sig tómarúm. Við systurnar og okkar fjöl- skyldur vottum Kristrúnu og Ingvari innilega samúð. Þau hafa gert allt sem þau hafa getað til að gera henni ævikvöldið sem létt- bærast og einnig naut hún frá- bærrar umönnunar á Hrafnistu sem ber að þakka. Þorbjörg, Sigfríður, Hildur og Magnea. Í dag kveðjum við systurnar Valgerði Jónsdóttur frá Skál- holtsvík í Hrútafirði. Hún var ein af uppáhaldsfrænkum okkar og því fyllumst við söknuði við frá- fall hennar og minningarnar hrannast upp. Valla var elst af sex systrum sem eru yfirleitt kallaðar Skál- holtsvíkursystur. Matthildur var ein systranna og er hún nú látin. Einn bróður áttu þær, Þorgeir, sem lést úr lömunarveiki aðeins 25 ára. Valla fæddist í torfbæ í Mið- húsum sem var lítið býli í fram- dalnum frá Skálholtsvík. Hún var nokkurra mánaða gömul frostaveturinn mikla og þá varð Guðrún móðir hennar að hafa hana meira og minna í rúminu hjá sér til að halda á henni hita, svo mikill var kuldinn. Síðar eignuðust foreldrar hennar jörð- ina Skálholtsvík og ólst Valla þar upp til fullorðinsára. Hún tengdist okkur systrum sterkum böndum allt frá fyrstu bernskuárum okkar. Þegar faðir okkar var vegavinnuverkstjóri við lagningu vegarins um Siglu- fjarðarskarð var Valla ráðskona þar ásamt móður okkar. Einnig bjó hún hjá foreldrum okkar á fyrstu árum sínum í Reykjavík. Við systurnar vorum allar um lengri eða skemmri tíma í Skál- holtsvík. Fyrst hjá Guðrúnu og Jóni foreldrum þeirra Skálholts- víkursystra og síðan hjá Sigfríði systur Völlu og Sigurjóni manni hennar sem tóku síðar við búinu. Nokkrir afkomendur okkar systra og voru þar einnig í sum- ardvöl. Þessi sveitavera hefur verið okkur öllum ómetanlegt veganesti í lífinu. Á þeim tíma var Valla farin að heiman. Það var alltaf hátíð í Skálholtsvík þegar hún kom heim í sumarfríunum sínum. Hún kom ávallt færandi hendi með ýmsan varning sem sjald- séður var í sveitinni. Hún hristi duglega upp í mannskapnum, hörkudugleg, stjórnsöm og ákveðin. Sérstaklega lét hún til sín taka ef henni þótti sumar- dvalarbörnin vera óstýrilát og stríðin hvert við annað. Þá stóð hún með þeim sem minna máttu sín. Allir hlýddu henni og borin var fyrir henni mikil virðing. Þegar Valla var ung stúlka gerðist hún stofustúlka hjá móð- ursystur okkar Guðbjörgu um tíma en Guðbjörg var gift Axel Andersen klæðskerameistara sem rak verkstæði og verslunina Andersen og Sön, Aðalstræti 16. Valla sagði okkur margar skemmtilegar sögur frá þeim tíma þar sem hún upplifði gesta- móttökur og veisluhöld ólíkt því sem hún átti að venjast úr sveit- inni sinni. Valla var mjög stórbrotin kona, sjálfstæð, gjafmild og um- fram allt réttlát. Hún giftist Kjartani Jóhannessyni og eign- uðust þau tvö kjörbörn, Þorgeir Rúnar og Kristrúnu Hörpu sem þau ólu upp í miklu ástríki. Lífið var Völlu ekki alltaf auðvelt. Kjartan mann sinn missti hún ár- ið 1990. Þorgeir Rúnar dó úr krabbameini árið 1998 og dreng- irnir hennar Kristrúnar Hörpu, þeir Jerry og Guðjón, létust báð- ir ungir að árum. Síðustu árin dvaldi Valla á Hrafnistu. Hún naut þess að fá heimsóknir og fylgdist vel með öllu sínu fólki. Síðasta árið var henni erfitt, heilsunni hrakaði og hún var farin að þrá hvíldina. Við minnumst hennar með þakklæti og mikilli hlýju. Ástvin- um hennar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Sigríður, Pálína og Bára Sigurbergsdætur. Þá hefur hún Valla mín fengið hvíldina. Merkiskonan hún Valla og góðar minningar sækja á. Valla var gift föðurbróður mínum Kjartani Jóhannessyni, sem er látinn og bjuggu þau lengst af í Karfavogi 34 ásamt börnum sínum þeim Þorgeiri og Kristrúnu. Heimilið í Karfavoginum stóð ætíð opið stórfjölskyldunni og naut undirrituð þar oft skjóls, allt frá barnæsku er farið var ýmissa erinda til höfuðborgar- innar og til þess að fá að búa inni á heimilinu um tíma á mennta- skólaaldri. Þess tíma minnist ég með mikilli hlýju. Valla var í mínum huga heimskona. Hún var sannkölluð dama, hjartahlý, falleg og glett- in. Hún hafði þann eiginleika að ná vel til fólks, líka unga fólks- ins, því hún var eiginlega tíma- laus í hugsun. Fyrir að hafa þekkt hana og notið velvildar hennar, þakkar undirrituð á þessari stundu. Samband bræðranna Kjart- ans og Guðmundar föður míns var náið og sama má segja um samband allra föðursystkina minna og fjölskyldna þeirra. Ég gerði vart greinarmun á því, hvort Valla væri frænka mín eða Kjartan frændi. Hún var stólp- inn í sinni fjölskyldu. Ég minnist þess er Þorgeir (Toggi) sonur þeirra Kjartans, dvaldi hluta úr sumri í sveit heima á Hvanneyri við leik og störf aðeins 6-7 ára. Þá var það unun að fylgjast með þeim frændum og jafnöldrunum saman, honum og Jóhannesi bróður mínum. Þeir áttu báðir stutta jarðvist blessaðir en Þor- geir komst þó til fullorðinsára enda þótt hann létist langt fyrir aldur fram, mikill harmdauði fjölskyldu sinni og vinum. Já, Valla fékk sinn skerf af erfiðum verkefnum í lífinu en stóð ætíð eins og eikin, bognaði kannski aðeins á stundum en brotnaði aldrei. Sterk kona og víðsýn af Ströndum hún Valla. Ég er þess fullviss að Valla hefur átt góða heimkomu á æðra tilvistarsvið umvafin fólkinu sínu öllu sem þar er. Nú er aðeins Kristrún eftirlifandi af fjölskyld- unni í Karfavoginum og er hún búsett á Hornafirði. Ég og fjölskylda mín sendum henni og hennar fjölskyldu inni- legar samúðarkveðjur við fráfall elskulegrar móður. Jónína Guðmundsdóttir. Valgerður Jónsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.