Morgunblaðið - 30.03.2012, Blaðsíða 38
Ástsæl Sigurgeir og Nína Margrét koma fram á tónleikunum í dag.
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Nítjándu aldar tónskáldin Jóhannes
Brahms og Jules Massenet verða í
aðalhlutverkum á hádegistónleikum
sem bera yfirskriftina Klassík í há-
deginu og fram fara í Gerðubergi í
dag kl. 12.15 og á sunnudag kl. 13.15.
„Við munum annars vegar flytja
Sónötu í e-moll óp. 38 eftir Brahms
og hins vegar Meditation úr óp-
erunni Thaïs eftir Massenet. Það má
segja að þetta sé ástsæl rómantísk
tónlist sem rifjar upp horfna tíma og
gömul gildi,“ segir Nína Margrét
Grímsdóttir, píanóleikari og list-
rænn stjórnandi tónleikaraðarinnar,
en flytjandi með henni er Sigurgeir
Agnarsson sellóleikari.
„Hljóðfærin njóta mikils jafn-
ræðis í verki Brahms. Fyrsti kaflinn
er mjög lagrænn og blíður, svo kem-
ur menúett og tríó þar sem ríkir smá
barokkstemning. Brahms stúderaði
verk Bachs í þaula og í raun er þriðji
kaflinn nokkurs konar virðing-
arvottur við hann, en í kaflanum
byggir Brahms á fúguþema úr verk-
inu Kunst der Fuge eftir Bach. Kafl-
inn er nánast ein fúga út í gegn milli
hljóðfæranna sem er mjög sjaldgæft
í rómantískri sónötu,“ segir Nína
Margrét. Að hennar sögn er Thaïs
mjög ástsælt verk, en það er þekkt-
asta tónverk Massenets.
Öllum tónleikum í tónleikaröðinni
Klassík í hádeginu er fylgt úr hlaði
með kynningum flytjenda á höf-
undum og tilurð verkanna. „Mark-
miðið með þessu er að veita áheyr-
endum innsýn í heim klassískrar
tónlistar. Slík kynning gefur tónleik-
unum óformlegra yfirbragð sem mér
finnst gríðarlega mikilvægt og und-
irstrikar að tónlistin er bara partur
af okkar daglega lífi,“ segir Nína
Margrét. Aðspurð segir hún tón-
leikagesti vera á öllum aldri, allt frá
leikskólabörnum og upp úr, en stór
hluti þeirra sem mæta eru íbúar
hverfisins. „Aðgangur á tónleikana
er ókeypis, en tónleikarnir eru hluti
af starfsemi Gerðubergs og Reykja-
víkurborg styrkir þessa tónleikaröð.
Markmiðið er að auðga mannlífið og
nærumhverfi Gerðubergs. Það er
heilmikið um menningu og fallega
hluti sem kosta ekki neitt og þetta er
eitt af því,“ segir Nína Margrét.
Horfnir tímar
og gömul gildi
Klassík í hádeginu í Gerðubergi í dag
kl. 12.15 og nk. sunnudag kl. 13.15
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. MARS 2012
Mótun menningar
– Shaping Culture
afmælisrit til heiðurs
Gunnlaugi A. Jónssyni,
sextugum
Skráning á heillaóskaskrá
Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í
gamlatestamentisfræðum við guð-
fræði- og trúarbragðafræðideild
Háskóla Íslands, verður sextugur
þann 28. apríl, 2012. Af því tilefni
mun Hið íslenska bókmenntafélag
gefa út veglegt afmælisrit honum til
heiðurs með ritgerðum er tengjast
þeim fræðasviðum guðfræðinnar sem
hann hefur beint sjónum sínum hvað
mest að. Höfundur eru valinkunnir
innlendir og erlendir fræðimenn.
Þeim sem vilja heiðra Gunnlaug á þessum tímamótum, og hafa
ekki enn skráð sig til þátttöku, er boðið að gerast áskrifendur
að ritinu og fá með því nafn sitt og maka skráð á heillaóska-
skrá – tabula gratulatoria, sem birt verður fremst í ritinu. Upp-
lýsingum um nafn/nöfn, kennitölu, heimili, kortanúmer eða
annan greiðslumáta má koma á framfæri í síma 588-9060,
á netfangið hib@islandia.is, eða í fax 581-4088.
hið íslenska bókmenntafélag
Skeifunni 3b – 108 Reykjavík
Manninum er eðlislægt aðskapa sér lífsskilyrðimeð því að reisa sérskjól – á því grundvall-
ast menningin. Flestum hérlendis
hefur líklega fundist sem þeir væru
skyndilega á staddir á bersvæði, og
vart vitað hvaðan á þá stæði veðrið
þegar efnahagshrunið varð haustið
2008. Sýningin Skjól, ljósmyndir
Einars Fals Ingólfssonar í Lista-
safni ASÍ, felur í sér viðbragð við
þessari afhjúpun. Þar er í sölum
safnsins að sjá þrjár raðir mynda
sem bera heitin Skjól, Griðastaðir og
Svörður, teknar víða um landið og
má segja að með þeim leitist lista-
maðurinn á vissan hátt við að treysta
stoðir tilverunnar og leita jafnframt
skjóls.
Hver eru hin raunverulegu verð-
mæti? Ekki úr vegi að byrja á und-
irstöðunni; sjálfri jörðinni sem við
byggjum. Þangað beinist sjónarhorn
myndasmiðsins Einars Fals í „nið-
urgröfnu“ rými Gryfjunnar þar sem
til sýnis eru nærmyndir af sverð-
inum, teknar á blaðfilmu á ólíkum
árstíðum. Gróðurþekjan er skjól í
sjálfri sér og ofan á hana leggst snjó-
breiðan og hlífir henni að vetri, jarð-
vegurinn og ræturnar bíða vorsins.
Verkin njóta sín vel í rýminu, í blæ-
brigðaríkri samræðu lita og áferðar
sem endurómar samspil þátta,
hreyfingu og aðlögun í hinu nátt-
úrulega ferli.
Í Arinstofu (og á ganginum) sést
hvar manngerð skýli, Skjól, rísa upp
úr landinu um leið og sjónarhornið
opnast í myndum Einars Fals. Um-
hyggja, fyrirhyggja og nægjusemi
er þarna í fyrirrúmi: afdrep úr
timbri og bárujárni, reist handa úti-
gangsskepnum, eru miðlæg á mynd-
fletinum þar sem þau kallast á
myndrænan hátt á við landslags-
form og sjónbauginn. Skjól þessi
lýsa hógværum samskiptum við
náttúruöflin og myndirnar end-
urspegla jafnframt mannlega af-
stöðu andspænis óendanleikanum;
skjólveggirnir mynda eins konar
skilrúm og viðmið í hinu náttúrulega
flæði. Í myndröðinni býr skemmti-
leg formræn hrynjandi, þarna hefur
Einar Falur með næmu auga fest á
filmu og opnað augu annarra fyrir
menningarverðmætum sem vert er
að gefa meiri gaum.
Uppi í Ásmundarsal, á annarri
hæð safnsins, er myndröðin Griða-
staðir. Mannabústaðir setja svip á
landslagið: fjallaskálar og hin svo-
köllu sæluhús, hjólhýsi, kirkjur,
sumarbústaðir, trjágróður eða önn-
ur ummerki mannsins. Í sumum
myndum fer ljósmyndarinn inn í
húsin og fangar þar hljóðláta helgi
griðastaða þar sem fólk kemur sam-
an eða sækir sér andlega næringu og
frið í einverunni. Náttúran er einnig
slíkur helgidómur: þetta undir-
strikar Einar Falur með landslags-
mynd frá hálendinu þar sem fjalla-
salir og himnafestingin umlykja
ferðalanginn. Líkt og í Gryfjunni og
Arinstofu er samspil myndanna líf-
legt í dýnamískri samræðu forma,
lína og litanotkunar í myndbyggingu
verkanna.
Sýningin Skjól er fallegur óður til
sambýlis manns og náttúru. Sú íhug-
un og tilfinning sem býr í verkunum
myndar hæga en áleitna stígandi í
safnrýminu. Í sýningunni felst hug-
vekja um mikilvægi þess að hlúa að
rótunum; halda hlífiskildi yfir nátt-
úrunni, ekki síst vegna þess að hún
er okkar skjól.
Ljósmynd/Einar Falur Ingólfsson
Skjól í Flóanum „Í sýningunni felst hugvekja um mikilvægi þess að hlúa að
rótunum; halda hlífiskildi yfir náttúrunni,“ segir meðal annars í dómnum.
Athvarf treyst
Einar Falur Ingólfsson – Skjól
bbbbn
Til 1. apríl 2012. Opið þri.- sun. kl. 13-17.
Aðgangur ókeypis. Listasafni ASÍ,
Freyjugötu.
ANNA JÓA
MYNDLIST
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Mozart hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér.
Tónlistin hans er tímalaus en samtímis hefur hún yfir
sér ferskan blæ. Í raun má segja að tónlist hans sé
besta græðissmyrsl sem hugsast getur fyrir sálina,“
segir Mihaela Ursuleasa, en hún leikur einleik í Píanó-
konserti í C-dúr K. 467 eftir W.A. Mozart á tónleikum
Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu í kvöld kl. 19.30.
Aðspurð segist Ursuleasa margoft hafa leikið um-
ræddan píanókonsert síðan hún lék hann fyrst opin-
berlega aðeins 12 ár gömul fyrir rúmum tuttugu árum.
„Mér finnst ég alltaf vera að uppgötva nýja hluti í
þessum konserti í hvert einasta sinn sem ég leik hann,
enda er það galdur góðra tónverka og snjallra tón-
skálda,“ segir Ursuleasa sem hóf píanónám sitt aðeins
fimm ára gömul.
„Pabbi var djasspíanisti og mamma söngkona, þann-
ig að það lá alltaf beint við að ég færi í tónlist. Það var
engin pressa um það af þeirra hálfu, en þetta var það
sem mig langaði. Pabbi lagði alltaf mikla áherslu á að
það ætti að vera gaman að spila,“ segir Ursuleasa og
tekur fram að hún hafi ávallt síðan haft það að leið-
arljósi. „Ég get hins vegar alveg viðurkennt að mér
fannst ekki alltaf jafngaman að æfa mig þegar ég var
unglingur.“
Að sögn Ursuleasa finnst henni alltaf sérlega gaman
að leika fyrir börn. „Mér finnst mikilvægast að virkja
ímyndunaraflið þeirra í stað þess að einblína á hráar
nóturnar. Hraðinn í nútímasamfélaginu er hins vegar
orðinn svo mikill að það er raunveruleg hætta á því að
fólk gefi sér ekki lengur tíma til að hlusta gaumgæfi-
lega á tónlist og hugleiða hana.“
Aðspurð segist Ursuleasa hrífast mjög af Eldborgar-
sal Hörpu þar sem hljómburðurinn sé framúrskarandi.
„Það kom mér líka skemmtilega á óvart hvað flygillinn
er góður,“ segir Ursuleasa. Spurð hvort ekki geti verið
vandasamt að venja sig við nýja flygla í hvert sinn sem
hún leikur á nýjum stað svarar Ursuleasa því játandi,
en tekur fram að það sé bara skemmtileg áskorun.
„Svo er ég líka mjög gleymin þannig að kannski er
bara ágætt að ég þurfi ekki að ferðast með mitt eigið
hljóðfæri, því ég væri vís með að gleyma því,“ segir
Ursuleasa kímin.
Á efnisskránni eru auk píanókonsertsins tvö önnur
verk eftir Mozart, annars vegar forleikurinn úr Brúð-
kaupi Fígarós og hins vegar Júpíter-sinfónían. Stjórn-
andi tónleikanna í kvöld er Eivind Aadland, en hann er
einn af virtustu hljómsveitarstjórum Noregs.
Tónlist Mozarts tímalaus
Mihaela Ursuleasa leikur einleik í Píanókonserti í C-dúr
eftir W.A. Mozart á tónleikum SÍ í Hörpu í kvöld kl. 19.30
Morgunblaðið/Kristinn
Ímyndun Mihaelu Ursuleasa finnst sérlega gaman að
leika fyrir börn og reyna að virkja ímyndunarafl þeirra.