SunnudagsMogginn - 08.04.2012, Blaðsíða 37

SunnudagsMogginn - 08.04.2012, Blaðsíða 37
8. apríl 2012 37 Þegar síðustu bátarnir voru farnir fóru farþegar að kasta sér fyrir borð. Svo slokknuðu ljósin í skipinu, það brotnaði í tvennt, skutur þess reis í vatninu og síðan hvarf skipið í hafið með þá farþega sem höfðu ekki yfirgefið það. Dauðavein þeirra heyrðust greinilega. Hundruð manns voru í sjónum, allflestir í björg- unarvesti. Fólkið í björgunarbátunum, sem reru frá Titanic, heyrðu óp farþeg- anna sem börðust fyrir lífi sínu í sjónum. Enginn sem heyrði þau vein gleymdi þeim nokkurn tíma. Einn farþegi af öðru far- rými, Albert Caldwell, sem var 26 ára þegar slysið varð, komst í björgunarbát. Seinna sagði hann oft frá slysinu og þá án nokkurrar depurðar. Einn dag spurði frænka hans hann um nokkuð sem hann hafði aldrei talað um í sambandi við slys- ið, sem var dauðavein fólksins í sjónum. Myrkur svipur færðist yfir andlit Cald- wells. „Maður verður að gleyma vein- unum, maður verður að gleyma þeim því annars myndi maður missa vitið,“ sagði hann hljóðlega. Eina von farþeganna í sjónum var að komast að björgunarflekum. Synir Rhodu Abbott saumakonu, 13 ára og 16 ára, fóru í sjóinn með henni, þeim tókst að ýta henni upp í björgunarfleka og héldu sér sjálfir í brún hans en tak þeirra varð æ veikara. Móðirin horfði síðan á þegar annar þeirra hvarf í sjóinn og síðan hinn. Deyjandi í sjónum Kuldinn var svo mikill að lítil von var til að lifa lengur en hálftíma í sjónum og smám saman þögnuðu vein fólksins. Björgunarbátar höfðu ekki snúið við til að bjarga fólki heldur haldið leiðar sinnar. Í einum björgunarbát bað kona um að bátnum yrði snúið við til að bjarga fólki en því var neitað með rökunum: Þetta snýst um okkar líf eða þeirra. Henni var sagt að þeir sem væru í sjónum myndu hvolfa bátnum í örvæntingarfullri tilraun til að komast í hann. Þetta voru fráleit rök því kuldinn í sjónum var svo mikill að fólkið hefði ekki haft nokkurn mátt til þess. Í einum þessara björgunarbáta var kvikmyndastjarnan Dorothy Gibson. Við stjórnina var George Hogg og þar sem báturinn var ekki fullmannaður vildi hann snúa við og bjarga farþegum sem voru í sjónum Farþegarnir í bátnum, þar á meðal kvikmyndastjarnan, lögðust ein- dregið gegn því. Einungis einn björgunarbátur sneri aft- ur, en þá of seint. Harold Lowe sem var við stjórnvölinn í einum björgunarbát- anna kom farþegum sínum í annan bát og sneri síðan við í leit að eftirlifendum. Hann reyndi að koma auga á lifandi veru innan um fljótandi lík og tókst að finna fjóra menn á lífi, en einn þeirra lést í bátnum. Skipið Carpathia kom á vettvang og bjargaði rúmlega 700 farþegum sem voru í björgunarbátum og flutti til New York. Kyn farþega á Titanic skipti meira máli varðandi lífslíkur en þjóðfélagsstaða. 74,3 prósent af kvenfarþegum lifðu slysið af og 20 prósent karlmanna. Lífslíkur kvenna á fyrsta farrými voru þó meiri en kvenna á öðru og þriðja farrými. Einungis fjórar konur af 143 konum á fyrsta farrými lét- ust, 15 prósent kvenna á öðru farrými fór- ust og 53 prósent kvenna á þriðja farrými. Nær allir karlmenn á öðru farrými lét- ust, 154 af 168 en ástæðan fyrir þessum mikla fjölda látinna er meðal annars talin sú að þarna voru breskir karlmenn í meirihluta en þeir höfðu alist upp við að bíða þolinmóðir í röð og troðast ekki fram fyrir aðra. Þeirri reglu fylgdu þeir sam- viskusamlega þótt líf þeirra lægi við – og fórust. Á þriðja farrými lést 381 karlmaður af 456. Meirihluti 900 manna áhafnar var frá Southampton og af þeim létust tæp- lega 700. Frægir bræður Litlu drengirnir, Michel og Edmond Navratil, sem höfðu misst föður sinn í slysinu töluðu einungis frönsku og enginn bar kennsl á þá. Um borð í Carpathia var kona, Margaret Hays, sem talaði frönsku, og hún tók drengina að sér. Í viðtali við New York Times sagði hún frá drengj- unum sem urðu samstundis frægir og myndir af þeim birtust í helstu blöðum í Ameríku. Fjölmargir buðust til að ættleiða þá. Móðir drengjanna, hin 21 árs Marcelle Navrail, hafði hafið mikla leit að drengj- unum sínum og sú leit bar fljótlega árang- ur vegna hinnar skyndilega frægðar barnanna. Það var sönn gleði þegar móðir og synir hittust í New York. Sá eldri, Mic- hel, varð kennari í heimspeki og sá yngri, Edmond, varð arkitekt og lést árið 1953, 43 ára gamall. Michel varð 92 ára og lést árið 2001. Hann gleymdi aldrei Titanic- slysinu og sagði á efri árum: „Ég dó fjög- urra ára gamall.“ Kvikmyndastjarnan Dorothy Gibson lék skömmu eftir björgun sína í myndinni Saved from the Titanic sem var sýnd ein- ungis fjórum vikum eftir slysið. Leik- konan lék sjálfa sig og var í sama kjól og hún klæddist kvöldið sem skipið sökk. Dorothy átti nokkuð ævintýralega ævi. Eftir slysið flutti hún til Parísar og um- gekkst listamenn á borð við Colette, H.G. Wells og James Joyce. Í seinna stríði sat hún um tíma í ítölskum fangabúðum en tókst að flýja. Hún lést árið 1946. Yngsti farþegi Titanic var tveggja mán- aða gömul stúlka, Millvina. Hún missti föður sinn en móðir hennar komst af. Þótt Milvina myndi skiljanlega ekkert eftir slysinu naut hún töluverðrar frægðar vegna veru sinnar á skipinu. Hún var oft viðtölum en hafði svosem ekki margt að segja þar sem móðir hennar hafði nær aldrei talað um harmleikinn. Millvina dó síðust allra farþega Titanic, árið 2009, 97 ára gömul. Navratil-bræðurnir urðu eftirlæti Bandaríkjamanna eftir slysið. Dorothy Gibson var um borð í Titanic og lék í fyrstu kvikmyndinni um slysið.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.