Morgunblaðið - 31.12.2012, Qupperneq 12
12 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 31. DESEMBER 2012
Parki býður upp á
fjölbreyttar lausnir
í loftakerfum
Mono hjóðísogsloftin frá Rockfon eru án
allra sýnilegra samskeyta og gefa rýminu
stílhreint yfirbragð. Einnig býður Parki upp
á hefðbundin kerfisloft af ýmsum gerðum.
Loftin eru ofnæmisprófuð með 15 ára
ábyrgð.
Láttu drauminn rætast hjá okkur.
Dalvegi 10-14 ▪ 201 Kópavogur ▪ Sími: 595 0570 ▪ parki.is
Eldur kom upp í langferðabifreið í
gærmorgun þegar hún var á ferð
um Reykjanesbraut til móts við Ás-
velli á leið til Keflavíkurflugvallar.
Að sögn vaktmanns slökkviliðsins
logaði talsverður eldur og stóðu
eldtungur aftan úr bifreiðinni þegar
ökumaður hennar varð eldsins var.
Í bifreiðinni voru á milli 50 og 60
farþegar að sögn framkvæmda-
stjóra Kynnisferða, eiganda bif-
reiðarinnar.
Að sögn Friðjóns Daníelssonar,
varðstjóra slökkviliðsins, komust
farþegar fljótt út úr rútunni og
stafaði þeim ekki mikil hætta af
eldinum. „Þetta er dísilbíll og það
var lítil hætta á sprengingu. Auð-
vitað er alltaf einhver hætta þegar
eldur kemur upp en hún var til-
tölulega lítil í þessu tilfelli,“ segir
Friðjón.
Agnar Daníelsson, framkvæmda-
stjóri Kynnisferða, segir að ekki
liggi fyrir hversu mikið tjón hlaust
af eldinum. „Við vitum þó að það
eru engar eld- eða reykskemmdir í
farþegarými rútunnar. Vélarrúmið
er hins vegar meira og minna
ónýtt,“ segir Agnar.
Farþegar urðu fyrir minniháttar
óþægindum og voru fluttir stuttu
síðar með annarri langferðabifreið
á Keflavíkurflugvöll.
Að sögn Agnars reyndi öku-
maðurinn sjálfur að slökkva eldinn,
en eftir að tvö slökkvitæki voru
tæmd var ekki um annað að ræða
en að fá liðsinni slökkviliðsins.
Slökkvistarf gekk greiðlega eftir að
slökkvilið kom á staðinn.
vidar@mbl.is
Eldur
kviknaði
í rútu
Í logum Mikill eldur logaði í bifreið-
inni í gærmorgun.
Allir farþegarnir í
bifreiðinni sluppu
ómeiddir
Ljósmynd/Þorsteinn
Vilborg Arna
Gissurardóttir
hefur nú lokið 42
af áætlaðri 50
daga göngu sinni
á suðurpólinn.
Að óbreyttu er
útlit fyrir að
áætlun hennar
muni standast. Í
gærmorgun var
hún stödd í um
2.050 metra hæð. Þá var enn eftir
700 metra hækkun upp að hæsta
punkti. Gerði hún í upphafi ráð fyrir
því að ferðast um 22 kílómetra á dag
en þegar hún lýkur ferðinni mun
hún hafa ferðast 1.140 kílómetra frá
Hercules Inlet þar sem ferðin hófst.
Í færslu á bloggi sínu frá því á
laugardag segir hún frá því að loka-
hækkunin sé framundan. Veður hafi
verið kalt og hún sé lúin. Hún minnir
á áheitasöfnun fyrir LÍF, styrktar-
félag kvennadeildar Landspítalans.
vidar@mbl.is
Vilborg
nálgast loka-
takmarkið
Vilborg Arna
Gissurardóttir
VIÐTAL
Guðrún Sóley Gestsdóttir
gudrunsoley@mbl.is
„Maður tekur stundum eitt skref
áfram og síðan tvö skref aftur á bak,
það er lítið við því að gera,“ segir Þor-
geir Ingólfsson sem lenti í alvarlegu
slysi 19. október í fyrra. Keyrt var á
Þorgeir þar sem hann hjólaði
framhjá Sorpu við Dalveg með þeim
afleiðingum að fjarlægja þurfti
vinstri fótlegg hans, ofan við mitt
læri. Þorgeir hlaut þar að auki marg-
falt beinbrot, þar á meðal brotna
mjaðmagrind.
Aðdragandi slyssins var sá að
gámabíl var ekið gegn einstefnu-
merki á Þorgeir þar sem hann kom
hjólandi niður göngustíg samsíða
Dalvegi. Þorgeir sá bifreiðina og
gerði ráð fyrir að einstefna yrði virt.
Bíllinn ók á Þorgeir og hann lenti
undir bifreiðinni með fyrrgreindum
afleiðingum. Hjól Þorgeirs lenti yfir
honum og hlutar þess gengu inn í lík-
ama hans, þannig að klippa varð hjól-
ið utan af honum þegar sjúkraliðar
komu á vettvang. Þorgeir hélt með-
vitund allan tímann.
Bataferli í bylgjum
Eftir slysið gekkst hann undir
fjölda aðgerða, meðal annars var
gerð tilraun til að lagfæra mjaðma-
grindina og rétta hana af. 2-3 dögum
eftir að slysið átti sér stað varð ljóst
að fjarlægja varð fótlegginn fyrir of-
an mitt læri. Í kjölfarið tók við stíf
endurhæfing og hefur batinn verið
mjög góður.
„Ég útskrifaðist af Grensás í lok
júlí og síðan hef ég farið þangað einu
sinni til þrisvar í viku, en stundum
eru verkirnir of slæmir til að ég geti
mætt í endurhæfingu,“ segir Þorgeir.
„Bataferlið kemur í bylgjum og því er
hvergi nærri lokið,“ segir Þorgeir.
„Suma daga getur maður ótrúlega
mikið og fer þá stundum fram úr sér
sem aftur kallar á nokkur skref til
baka. Þetta er bara eðlilegur gangur
mála,“ segir Þorgeir.
Hann er smám saman að komast
upp á lag með að ganga með gervifót.
„Það er tímafrekt ferli. Þegar að-
stæður eru erfiðar, eins og núna þeg-
ar mikið slabb og snjór er á götunum,
er ómögulegt að fara út með fótinn.
Ég þarf að nota staf, en án hans verð
ég haltur og reyni mikið á mjöðmina,
en hún er illa brotin,“ segir hann.
Endurhæfingin heldur áfram næstu
misseri.
Hann hefur litla tilfinningu í kring-
um nárann og niður í stúfinn, en doð-
inn í taugunum getur framlengt verk-
ina. „Ég finn ekki verkina fyrr en
þeir eru komnir út í heilbrigðu vefina.
Þá er ég lengi að jafna mig því það
tekur boðin langan tíma að berast og
ég finn ekki sársaukann fyrr en svo
seint,“ segir Þorgeir.
Aðspurður segir hann brotin al-
mennt hafa gróið vel en mjöðmin sé
engu að síður skökk. ,,Skekkjan gerir
það að verkum að ég verð alltaf halt-
ur en læknarnir segja mér að of
áhættusamt sé að brjóta hana upp á
nýjan leik. Ekki er víst að nokkuð
batni með slíkri aðgerð,“ segir Þor-
geir. Hann fær enn verki í brotin, þá
sérstaklega þegar mikill raki er í
lofti.
Þorgeir æfði hlaup til margra ára,
lyfti og hjólaði og segist hafa búið að
þeirri líkamlegu hreysti þegar kom
að endurhæfingunni. „Það hefur
hjálpað mikið til, ég hef ekki trú á að
bataferlið hefði gengið jafn vel og
raun ber vitni ef ég hefði ekki haft
grunninn í hreyfingunni sem ég
stundaði fyrir slysið,“ segir hann.
Þorgeir hefur endurheimt fullan
styrk í höndum og nýtir sér þann
bata. „Ég fer og kaupi í matinn og
sinni daglegum verkum og það verð-
ur sífellt auðveldara. Ég bý að vísu á
þriðju hæð og þarf að fara upp 42
tröppur, og það er mikil æfing í að
fara upp og niður þann stiga,“ segir
Þorgeir. ,,Ég finn mikinn dagamun á
styrk og magni verkja, og tröppu-
ferðirnar eru góður mælikvarði á
dagsformið,“ segir hann.
Aðspurður segir hann andlegt
ástand líka sveiflast milli daga. „Mað-
ur tekur bara einn dag í einu. Ég fékk
gríðarlega hjálp í upphafi og henni
hefur verið viðhaldið. Ég get því tek-
ist á við andlegu áskorunina sem
þessu fylgir og hef náð að tækla hana
nokkuð vel,“ segir Þorgeir. „Verk-
irnir stýra þessu svolítið. Ég komst
til að mynda eitt sinn ekki út í tvo
daga vegna slæmra verkja. Óneit-
anlega verður maður daufari í svo-
leiðis ástandi og það tekur tíma að
rífa sig upp úr því,“ segir Þorgeir.
Bílstjórinn ber einn ábyrgð
„Maður þarf að gæta þess að ein-
angrast ekki, mér finnst nauðsynlegt
að fara reglulega út,“ segir Þorgeir.
Hann hefur fyrir reglu að fara dag-
lega út úr húsi. „Það er andleg nær-
ing í því. Ég fer einu sinni í viku í
vinnuna og hef gert það alveg frá því
að ég útskrifaðist af Borgarspít-
alanum. Ég fer þá og heilsa upp á
vinnufélagana, en er ekki enn orðinn
vinnufær,“ segir Þorgeir en hann
starfaði hjá Ölgerðinni fyrir slysið.
Bílstjóri gámabílsins tók eins og
fyrr segir ólöglega beygju, gegn ein-
stefnumerki, þegar hann ók yfir Þor-
geir. Lögreglan rannsakaði slysið í
kjölfarið en enn hefur ekki fengist
niðurstaða í málið. Aðalmeðferð þess
er lokið en dómur hefur enn ekki fall-
ið. Farið er fram á 2 ára fangelsi yfir
ökumanninum. Ábyrgð Sorpu í mál-
inu er því engin. „Mér finnst skrýtið
að bílstjórinn sé einn látinn bera alla
ábyrgð í þessu máli,“ segir Þorgeir. Í
málsmeðferðinni kom fram að Ís-
lenska gámafélagið hefði haft fyrir
vinnureglu að aka gegn einstefnunni
á þessu svæði, að sögn til að draga úr
hættu á slysum inni á stöðinni. Eftir
slysið var fallið frá þessu samkvæmt
upplýsingum frá fyrirtækinu. Áður
en slysið átti sér stað, árið 2010, voru
gerðar breytingar á umferðareyju við
innkeyrsluna, þannig að auðveldara
var að taka þessa ólöglegu beygju.
Kantar voru lækkaðir svo ökumenn
finna lítið fyrir því þegar þeir aka upp
á eyjuna. Engar aðvaranir eða merk-
ingar voru settar upp í kjölfarið. Því
fyrirkomulagi hefur ekki verið breytt
til fyrra horfs eftir slysið. „Það finnst
mér verst, því að ef merkingar hefðu
verið til staðar hefði slysið ekki átt
sér stað. Eins og staðan er í dag er
ekkert því til fyrirstöðu að þetta ger-
ist aftur,“ segir Þorgeir.
Mælir batann í tröppum
Þorgeir Ingólfsson er á góðum batavegi eftir alvarlegt hjólreiðaslys Vinstri
fótleggur fjarlægður Aðalmeðferð lokið en niðurstaða liggur ekki fyrir
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þolinmæði „Maður tekur bara einn dag í einu. Ég fékk gríðarlega hjálp í upphafi og henni hefur verið viðhaldið.
Ég get því tekist á við andlegu áskorunina sem þessu fylgir og hef náð að tækla hana nokkuð vel,“ segir Þorgeir.