Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.04.2013, Blaðsíða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.4. 2013
Menning
Þ
etta eru nýjar hugmyndir, ný stef og tilraunir,
út frá tengingum tónlistarinnar við upplifanir
mínar og hughrif,“ segir Stefán S. Stefánsson,
saxófónleikari og tónskáld. Stórsveit Reykjavík-
ur leikur á sunnudag klukkan 16 í Kaldalónssal
Hörpu heila efnisskrá nýrra verka hans undir yfirskriftinni
„Íslendingur í Alhambrahöll“. Stefán segir nálgun sína við
að semja og útsetja verkin ólíka því sem hann hefur áður
gert, en titillinn er sóttur í þá upplifun hans að vera
staddur í þrúgandi hita í hópi ferðamanna sem eru að
skoða merkar menningarminjar í Granada á Spáni.
„Stundum er eins og tilveran sé lagskipt; eitt lagið er
ferðamennirnir gólandi og takandi myndir, svo er það hit-
inn og aðstæðurnar og undir þeim lögum eru fornminj-
arnar og sagan. Mig langaði að setja þessa skynjun á
veruleikanum inn í tónlistina. Slík upplifun stýrði tónrænni
framvindu verkanna frekar en hefðbundinn tónlist-
ardrifkraftur. Ég gaf mér mikið frelsi innan þessarar
nálgunar.“
Stefán segir að vissulega sé þó ýmislegt í útfærslu
verkanna samkvæmt hefðinni. „Ég var ekki vísvitandi að
reyna að gera eitthvað alveg nýtt tónlistarlega heldur
langaði mig að vera með nýjungar við að nálgast músík-
ina. Við það spratt ýmislegt fram sem mig grunaði ekki
að væri til staðar – það var skemmtileg vegferð.“
Stærsti hluti efnisskrárinnar varð til á undanförnum
mánuðum, sérstaklega fyrir þetta verkefni.
Stórmerkileg saga
Stefán segir stórsveit vera gríðaröflugt og spennandi hljóð-
færi og að innan ólíkra stíla stórsveitartónlistar sé fjöl-
breytileg flóra.
„Þegar minnst er á stórsveitartónlist koma stórmeistarar
eins og Count Basie og Duke Ellington fyrst upp í hug-
ann, en þetta er gríðarlega mikil saga, eins og kom vel
fram á síðustu tónleikum Stórsveitarinnar sem Sigurður
Flosason stjórnaði, um sögu stórsveita,“ segir hann. „Þeg-
ar maður hefur spilað þessa tónlist lengi, hefur hlustað á
hana og reynt að tileinka sér stílana, þá skynjar maður
sífellt betur hvað þetta er stórmerkileg saga.“
Sem dæmi um fjölbreytileikann nefnir Stefán að fyrir
utan að leika gamla sem nýja stórsveitartónlist, hefur
Stórsveit Reykjavíkur leikið efnisskrár með tónlist Bjarkar
Guðmundsdóttur, Bubba Morthens, Eivarar Pálsdóttur og
Sálarinnar – það sé rými fyrir þetta allt.
Snillingurinn Gunnar Ormslev
Stefán byrjaði ungur að læra á þverflautu, svo tók við
saxófónnám hjá Gunnari Ormslev og nám við Berklee Col-
lege of Music í Boston. Hann hefur leikið með ýmsum
dans- og djasshljómsveitum, hefur samið fjölbreytilega tón-
list og útsett, auk þess að starfa sem kennari; hann er
skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar.
„Ég hef haft ánægju af þessu öllu saman, að svo miklu
leyti sem þetta er í jafnvægi,“ svarar hann þegar spurt er
hvað sé skemmtilegast, að spila, semja eða kenna. „Ef ég
spila mjög mikið, eða kenni mjög mikið, þá er eins og ég
fari yfir kvótann. Þetta er jafnvægislist. Ég vil heldur
ekki sitja einn alla daga við að semja og gera ekkert ann-
að.“
Hann segir það hafa verið mikla upplifun að læra hjá
saxófóngoðsögninni Gunnari Ormslev.
„Hann var ekkert nema hógværðin. Þá var ég farinn að
spila svolítið og fannst hann hafa einstaklega gott viðhorf
til tónlistar. Við spjölluðum mikið um Stan Getz og sam-
eiginlegar hetjur. Svo kenndi hann mér nokkur trikk sem
ég nota ennþá, eins og við fingrasetningar á saxinn.
Ég held að menn hafi almennt ekki enn áttað sig á því
hvílíkur snillingur Ormslev var. Hann var stórkostlegur
spilari en menn áttuðu sig ekki á því hvað þeir höfðu í
höndunum á þeim tíma. Það voru margir frábærir tónlist-
armenn af kynslóð Gunnars Ormslev, og þeir bjuggu því
miður við annan veruleika en við í dag.“
Kynni Stefáns af djassi hófust þegar Bjarni bróðir hans,
núverandi sýslumaður á Blönduósi, fór að bera heim plöt-
ur á unglingsárum. „Þar á meðal voru plötur með Buddy
Rich-bandinu og Jimmy Smith orgelleikara með George
Benson á gítar. Ég komst í þessar plötur ellefu og tólf
ára gamall og varð hugfanginn af tónlistinni. Ég eignaðist
líka vini sem ánetjuðust þessari dellu líka; maður var svo-
lítið út úr kú sem unglingur, hlustandi á Coltrane,“ segir
hann og brosir.
Mikilvæg viðurkenning
Stefán byrjaði ungur að elta FÍH-bigbandið eins og
„trygglynd grúppía! Sjálfur spilaði ég fyrst í áhugamanna-
stórsveit og þegar ég fór að læra í Bandaríkjunum spilaði
ég í stórsveitum, meðal annars hjá mönnum sem höfðu
verið einleikarar í frægum hljómsveitum.“
Eftir að Stefán lauk námi hélt hann tónleika í Norræna
húsinu með „litlu bigbandi“ með frumsömdu efni, og þar
hófst sú vegferð. Í kjölfarið samdi hann og útsetti fyrir
Léttsveit Ríkisútvarpsins og síðar fyrir Stórsveit danska
útvarpsins. En nú semur hann fyrir „hina húshljómsveitina
í Hörpu“. Voru það ekki tímamót þegar Stórsveit Reykja-
víkur fékk þar inni?
„Það var mikilvæg viðurkenning á starfi hljómsveit-
arinnar og ekki síður viðurkenning á þessari tónlist, sem
er gríðarlega margbreytileg og krefjandi. Stórsveitin hefur
styrkst gríðarlega og er alveg hörkusveit, skipuð þrælgóð-
um músíköntum.“
Tónskáldið með hornið. „Það
var mikilvæg viðurkenning á
starfi hljómsveitarinnar og
ekki síður viðurkenning á
þessari tónlist, sem er gríð-
arlega margbreytileg og krefj-
andi,“ segir Stefán S. Stef-
ánsson um þau tímamót þegar
Stórsveit Reykjavíkur fékk inni
í Hörpu.
Morgunblaðið/Einar Falur
STÓRSVEIT REYKJAVÍKUR FLYTUR EFNISSKRÁ MEÐ NÝJUM VERKUM EFTIR STEFÁN S. STEFÁNSSON
Stórsveit er öflugt hljóðfæri
STEFÁN S. STEFÁNSSON BYGGÐI NÝ TÓNVERK Á SKYNJUN SINNI Á VERULEIKANUM OG FLYTUR STÓRSVEIT REYKJAVÍKUR ÞAU UNDIR HANS STJÓRN.
HANN FÉLL UNGUR FYRIR DJASSINUM. „MAÐUR VAR SVOLÍTIÐ ÚT ÚR KÚ SEM UNGLINGUR, HLUSTANDI Á COLTRANE,“ SEGIR STEFÁN.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
* Ég komst í þessar plöturellefu og tólf ára gamall ogvarð hugfanginn af tónlistinni.