Læknablaðið - 15.01.2007, Page 23
UMRÆÐA & FRÉTTIR / AF SJÓNARHÓLI STJÓRNAR LÍ
Götótt sjúkratrygging og
mismunun sjúklinga?
Þeir sem njóta sjúkratrygginga á íslandi eiga rétt á
bestu heilbrigðisþjónustu hverju sinni samkvæmt
lögum. Inntak þessarar sjúkratryggingar er þó
óljóst, breytilegt og háð dutllungum stjórnmála-
manna. Þeir hafa tekið sér það hlutverk að deila
út peningum til heilbrigðismála gegnum fjárlög
en tryggingahugtakið hefur á sama tíma vikið.
Jafnræði sjúklinga og hverjir njóta tryggingar pr
því háð ákvörðunum stjórnmálamanna fremur en
því hvort viðkomandi sjúklingur borgar iðgjald
með sköttum sínum. Því vekur athygli vaxandi
fjöldi einstaklinga sem er algerlega án sjúkratrygg-
ingar þó þeir borgi skatta hérlendis. Töluverð
umræða varð síðastliðið vor um hvort hér á landi
væri að skapast tvöfalt heilbrigðiskerfi. Mörgum
sýndist það vera í burðarliðnum, m.a. með tilvís-
anakerfi sem sett var á hjartasjúklinga en enga
aðra sjúklingahópa.
Hvað er átt við með tvöföldu heilbrigðiskerfi?
I mínum huga þýðir það að sjúklingar eru á ein-
hvern hátt ekki jafnir innan heilbrigðiskerfisins.
Einhverjir fá betri þjónustu en aðrir. Aðrir fá
samskonar þjónustu en verða að leggja út meira
fé fyrir henni, eða borga hana að fullu. Ójöfnuður-
inn getur verið eftir búsetu, efnahag, hvaða líffæri
er sjúkt, kynhneigð, húðlit, kyni, þjóðfélagshóp,
trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum
viðlíka þáttum.
En er fólki mismunað í heilbrigðiskerfinu?
Svarið er því miður já. Nefnum nokkur dæmi:
Fólki er mismunað eftir búsetu. Landsbyggðarfólk,
sem þarf til læknis í Reykjavík oftar en tvisvar
á ári, greiðir frá og með þriðju ferðinni sjálft
ferðakostnaðinn. Sé um flugferðir að ræða
getur það verið stór hluti sjúkrakostnaðar.
Á sjúkrahúsum og læknastofum er langur
biðlisti eftir sumum læknisaðgerðum, en lítill
eða enginn eftir öðrum. Á sjúkrahúsunum eru
sumir svo heppnir að fá að liggja á sjúkrastofu
á meðan aðrir verða að gera sér að góðu að
liggja á ganginum. Á lyflækningadeildum eru
gangainnlagnir viðvarandi ástand en aðrar deildir
þurfa aldrei að leggja á ganga sína. Gangainnlagnir
eru ekki aðeins hættulegar út frá brunavarna- og
endurlífgunarsjónarmiðum heldur líka óþægilegar
og geta verið niðurlægjandi. Sjúklingunum er því
mismunað eftir því hvað hrjáir þá.
Hópurinn sem ekki nýtur heilbrigðisþjónustu
innan almannatryggingakerfisins fer stækkandi
hér á landi. Að stórum hluta vegna vaxandi fjölda
sem er algerlega án sjúkratrygginga, í hálft ár eða
Iengur, eftir búferlaflutninga til landsins. Gildir þá
einu hvort um útlenda eða íslenska ríkisborgara er
að ræða. Sé landið sem viðkomandi flytur frá ekki
tilbúið að borga reikninginn, eða hafi samning við
íslenska ríkið, er viðkomandi einstaklingur á eigin
ábyrgð eða háður því að kaupa sér eigin tryggingu.
Gallinn er bara sá að sumir sjúkdómar og aðstæð-
ur eru undanþegnir slíkum einkatryggingum, t.d.
áður þekktir sjúkdómar eða þungun og fæðing.
Sumir hafa heldur ekki ráð á að kaupa sér slíka
tryggingu. Þá verður viðkomandi að borga spít-
alareikninginn að fullu komi eitthvað uppá. Fólk
af erlendu bergi brotið, sem er við störf hérlendis
greiðir yfir 6 milljarða í skatta árlega skv. nýlegum
fréttum. Kostnaður Landspítala vegna fólks án
sjúkratryggingar er 150-200 milljónir króna. Það er
lág upphæð miðað við 6 milljarða skattagreiðslur.
Að þessi hópur skuli ekki njóta opinberrar sjúkra-
tryggingar er óeðlilegt, óréttlátt og siðferðilega
rangt. Þeir eru búnir að borga fyrir sig með þessum
sköttum og sumir jafnvel að auki með lífi sínu eða
heilsu við störf hér á landi.
Það er óréttlátt hvernig heilbrigðiskerfið fer
með ófædd börn fólks sem er nýflutt til landsins.
Mæðravernd og fæðingarhjálp eru ekki síst til að
vernda ófætt barnið. Sé móðir barns sjúkratryggð
á Islandi getur faðirinn verið frá Mars, mæðra-
skoðanir og fæðingarhjálp eru samt greiddar
af almannatryggingum. Sé faðirinn hins vegar
sjúkratryggður en móðirin ekki er barnið rétt-
laust með öllu. Hér kristallast ójafnrétti kynjanna,
körlum í óhag. Séu báðir foreldrar nýlega flutt til
landsins eru bæði þau og barnið líka réttlaus. Vart
er það góð byrjun í nýju landi fyrir nýbakaða, fæð-
ingarorlofslausa móður að skulda hálfa til eina
milljón króna vegna fæðingar og eiga auk þess að
greiða hér skatta og fóta sig í nýju landi. Hverslags
réttlæti er það? Barni sem verður fyrir skaða á
meðgöngu eða í fæðingu vegna ónógrar þjónustu
má í mínum huga líkja við útburði fyrri alda. Auk
þess getur fötlun slíks barns kostað þjóðfélagið
stærri fjárhæðir en sparast með núverandi kerfi.
Almannatryggingakerfið var skapað til að
koma í veg fyrir að ákveðnir hópar þjóðfélags-
ins væru ósjúkratryggðir. Ákveðin afturför hvað
þetta varðar virðist hafa átt sér stað hin síðari ár.
Eg hygg að þverpólitísk samstaða sé um að þetta
sé ekki eftirsóknarverð þróun. Grunnspurningin
er sú sama og við upphaf almannatrygginga fyrir
70 árum: Viljum við almannatryggingakerfi þar
sem þörfin fyrir þjónustu ræður því hvort hún er
veitt, fremur en efnahagur, þjóðerni, búseta eða
slíkir þættir? Nýverið skipaði stjórn Læknafélags
íslands starfshóp sem var falið að skoða inntak
sjúkratrygginga landsmanna og stöðu trygging-
anna í þjóðfélaginu. Það er að mínu viti tímabært
og þarft framtak.
Þórarinn
Guðnason
tlwrgudna@landspitali.is
Höfundur er hjartalæknir á
Landspítala og situr í stjórn
Læknafélags íslands.
I pistlunun Af sjónarhóli
stjórnar birta stjórnarmenn LÍ
sínar eigin skoðanir en ekki
félagsins.
Læknablaðið 2007/93 23