Læknablaðið - 15.01.2007, Page 41
UMRÆÐA & FRÉTTIR / MINNINGAR HÉRAÐSLÆKNIS
Síðan var ferðinni haldið áfram fet fyrir fet, Elín
á undan, ég á eftir. Þóttist ég nú vita, að Merkigilið
væri ekki langt undan og sá brátt móta óljóst fyrir
því framundan. Ég hafði heyrt sögur af þessu gili.
Guðmundur Hagalín hafði þá fyrir nokkru gefið
út bók sína um Móníku og dætur hennar og lýst
gilinu sem hrikalegum farartálma. Þar hafði að
minnsta kosti einn maður hrapað til dauðs og talin
mikil mildi að þeir skyldu ekki vera fleiri. Og svo
nálguðumst við gilið. Elín stýrði ferðinni, beygði
upp með gilinu og nálgaðist brúnina æ meir.
Mér varð litið fram af og sá lítið annað en svart,
botnlaust myrkur. Þó glampaði á eitthvað, vatn
eða ís, óralangt fyrir neðan. Mér fannst ég vera
staddur á barmi hengiflugs. Loks fór Elín alveg
fram á brúnina og fór að þræða sig eftir örmjóum
sneiðingi utaní snarbrattri skriðu. Það var hörsl
í troðningnum. Ég minntist uppákomunnar með
hrossið rétt áður og líðan mín fór heldur versnandi.
Ég fór af baki og teymdi, en Elín sat uppi á sínu
hrossi, eins og henni kæmi þetta ekkert við. Loks
varð sneiðingurinn svo tæpur, að mig langaði mest
til að fara á fjóra fætur og skríða. En Elín sat.
Það er erfitt að lýsa þeim áhrifum, sem þessi
augnablik höfðu á mig. Tröllslegt og geigvænlegt
umhverfi, glottandi lífsháskinn í öllum áttum og
leiðsögumanneskja, sem var svo ósnortin af þess-
um háska, að það var nánast ómennskt. Rólegheit
þessarar konu voru svo gjörsamlega úr öllu sam-
hengi við aðstæður að það var með ólíkindum og
vakti mér geig.
Mér tókst þó að láta ekki á neinu bera og fetaði
mig áfram einstigið hokinn í hnjánum og forðaðist
að líta niður í gilið. Mér fannst ég svífa í lausu lofti.
Loks fór Elín af baki og teymdi það yfir gilið. Það
gekk allt slysalaust. Mér varð ekki eins mikið um
að fara upp sunnan megin, þó að einstigið sé þar
sýnu glæfralegra, liggur fram á klettasnösum. Það
er alltaf skárra að fara upp en niður í svona tilvik-
um. A einum stað bað Elín mig að fara varlega. Þar
lá gatan tæpt á snös, en þverhnípt bjarg fyrir ofan.
Þegar upp var komið, var stigið á bak og riðið
heim að Merkigili, en það er ekki löng leið. Var þá
áliðið nætur. Mér var vísað í allstórt herbergi, sem
sennilega hefur verið borðstofa. Þar var langborð
með öðrum vegg. Þar sat Mónika húsfreyja fyrir
enda, en dætur hennar til beggja handa. Lýsing var
fremur dauf í herberginu, og hefur það sennilega
verið þess vegna að mér fannst þessar konur meiri
um sig og hærri í sæti en þær konur, sem ég hafði
áður séð. Það má og vera að þar hafi komið til
áhrif frá ferðalaginu eins og það, að ég hafði heyrt
mikið látið af afrekum þessara kvenna.
Ég fékk höfðinglegar móttökur hjá Móniku
húsfreyju. Ég skoðaði sjúklinginn, og reyndist
sjúkdómur hennar ekki eins alvarlegur og óttast
var. Ég gat leyst úr vandanum með lyfjum, sem ég
hafði tekið með mér. Eftir að ég hafði þegið rausn-
arlegar veitingar, var lagt af stað sömu leið til baka.
Sú ferð gekk áfallalaust. Þá var farið að birta af
degi og ég orðinn ögn öruggari með mig. Ég frétti
síðar að sjúklingnum hefði reitt vel af.
Þessi ferð hefur orðið mér minnisstæð. Ég
kom að Gilsbakka 35 árum síðar og hitti þá fyrir
Hjörleif Kristinsson sem bjó þar og var orðinn ein-
setumaður. Við minntumst þá þessarar ferðar og
sagði hann mér að hún hefði verið talsvert umtöl-
uð þar í sveit árin á eftir. Kannske hefur það þótt
nokkrum tíðindum sæta að fara yfir Merkigilið í
hálku og náttmyrkri.
r
Viltu bæta
heilsuna?
Vertu hjartanlega velkomin(n) á
fyrirlestra um tengsl mataræðis
og blóðþrýstings, fyrsta fimmtu-
dag hvers mánaðar (sjá bakhlið)
kl.18 í sal World Class - Laugum,
2. hæð.
Lagðar verða fram tillögur um
matseðla og veitt aðstoð við val
á mataræði.
Næringarfræðingarnir og ráð-
gjafarnir Helga Sigurðardóttir
og Ólafur Sæmundsson sjá um
fræðsluna.
Fyrirlestrarnir eru í boði Novartis.
Aðgangur er ókeypis og
öllum opinn.
Læknablaðið 2007/93 41