Tímarit Máls og menningar - 01.03.1978, Qupperneq 20
Tímarit Máls og menningar
skynsemi séS að annað hafi vakað fyrir ríkisstjórninni en styrkleikaátök við
verkalýðshreyfinguna. Ríkisstjórnin vill ekki að kosningarnar í júní snúist um
það hvernig stjórn landsins var undanfarin ár, því þar stendur hún höllum fæti
— þann slag óttast hún. Henni er kappsmál að flýta kosningunum og láta kjósa
um það hver stjórni landinu — hún eða verkalýðshreyfingin. Til þess að svo
geti orðið þarf að egna verkalýðshreyfinguna til verknaðar sem réttlætir þing-
rof. Efnahagslögin voru því ekkert annað en pólitísk hólmgöngukvaðning.
Eftir þessa stríðsyfirlýsingu þarf verkalýðshreyfingin að þaulhugsa sinn gang,
því hér er alltof mikið í húfi. Tapi hún þessari orustu er hinn pólitíski eftir-
leikur glataður, en hann er að mynda ríkisstjórn vinveitta verkalýðshreyfing-
unni, sem hafi þau þjóðfélagslegu völd að geta umskapað efnalegan grundvöll
þjóðarbúsins. En sú aðgerð ein er forsenda bættra lífskjara.
Að mati þess sem þetta skrifar er með stéttaátökum þeim sem nú eru að
hefjast að upphefjast meiriháttar uppskipti í íslensku þjóðfélagi. Þau eru próf-
steinn á valdahlutföll milli stéttanna um næsta árabil.
Allt frá stríðsbyrjun, þegar bændastéttin leið undir lok sem valdamesta stétt
íslenska samfélagsins, hefur komist á eins konar valdajafnvægi stéttanna. í reynd
má rekja marga megindrætti samfélagsþróunar þessa tímabils til ofangreinds
valdajafnvægis, m. a. verðbólguna. Þegar á reyndi hefur ekki reynst gerlegt að
stjórna landinu í andstöðu við annaðhvort verkalýð eða auðvald. Nýsköpunar-
stjórnin var undirskrift beggja aðila undir þessi nýju og breyttu valdahlutföll
í landinu.
Hins vegar mistókust báðar vinstri stjórnirnar þrátt fyrir mörg merk mál-
efni sem náðust fram, báðar urðu þær að leggja árar í bát áður en kjörtímabili
þeirra lauk. Ástæðurnar voru ekki þær að viljaleysi mætti um kenna, heldur
rákust þær á þá óþyrmilegu staðreynd, að þjóðfélagslegt vald borgarastéttarinn-
ar var þyngra á metunum en þingrceðislegt vald ríkisstjórnanna.
Þjóðfélagslegt vald Framsóknarflokksins er einfaldlega of veikt til að standast
ágjöf frá hægri. Það nægir til að halda uppi kaupmætti í fáein ár, gera smá-
vægilegar réttindabreytingar hér og þar, en síðan ekki söguna meir.
Verkefnin framundan eru verkalýðsstéttinni of mikilvæg til að fara í stjórn
með veikum bandamanni. Sú uppskrift, sem notuð var við myndun tveggja
vinstri stjórna, hefur gengið sér til húðar. Slík andvana tilraun leiðir ekki til
neins annars en efasemda um stjórnmálaþroska verkalýðshreyfingarinnar og
skapar eftirvæntingu sem bregst.
Viðreisnarárin voru velmektartímabil borgarastéttarinnar. Henni hefur aldrei
tekist að móta þjóðfélagið betur að hugmyndum sínum, enda studdist hún þá
við verkalýðsflokk sem veikti baráttumátt verkalýðsins. Næsta ólíklegt er að sú
stjórn rísi endurnýjuð, til þess er Alþýðuflokkurinn þjóðfélagslega of veikur og
því gagnslaus í pólitískum stórátökum.
10