Tímarit Máls og menningar - 01.03.1978, Blaðsíða 51
Um fínar bókmenntir og ófínar
greinar séu jafnréttháar, hvort sem er um að ræða epískar sögur, þráð-
leysur, Ijóð, útvarps- eða sjónvarpsleikrit, klámsögur, fyndnisögur, barna-
sögur eða aðrar sögur. Aftur á móti er hér ekki verið að mótmæla þeirri
ágætu kenningu að góðar bækur séu yfirleitt betri en vondar bækur.
Sagt er að átvögl og kringilvambar í Rómaborg fornu, sem höfðu melt-
ingarfærin fyrir guð, hafi látið bera fyrir sig hrúkuð föt með kólibrí-
tungum til að árétta að þeir væru löngu hundleiðir orðnir á venjulegum
alþýðumat, jafnvel sunnudagsmat. Margt er líkt með skyldum, segir mál-
tækið — eða klisjan — bókmenntasmekkur fagurkera hefur einkum á
síðustu áratugum fjarlægst smekk og venjur allrar alþýðu ekki síður en
kólibrítungnaát fornrómverskra sælkera; með tímanum kemur þetta náttúr-
lega niður á fagurkerunum en ekki alþýðunni.
A Islandi hafa glæpasögur löngum þótt sú lesning sem ekki hæfði öðrum
en ómenntuðum ruddum, og svo einstöku stressuðum gáfumanni, sýslumanni
eða prófessor. Það var fyrir tíð innhverfrar íhugunar sem gáfnaljós og
framámenn lásu léttmeti sér til hvíldar og þá væntanlega fínar bókmenntir
sér til þrautar; léttmeti er kurteist nafn á ófínum bókmenntum, sorpritum
og jafnvel klámi.
Hér hafa aldrei verið skrifaðar góðar bókmenntir ófínar, það er að segja
frambærilegar bókmenntir úr þeim greinum bókmennta, sem teljast ófín-
ar. Alminlegar íslenskar glæpasögur eða reyfara má telja á fingrum ann-
arrar handar, en orsök fátæktar þessarar bókmenntagreinar er fráleitt sú
að íslenskir glæpir og glæpamenn séu svo lítilfjörlegir að enginn nenni
um slíkt að fást, heldur miklu fremur að fá skáld hafa þorað að tengja
nafn sitt svo fyrirlitinni bókmenntagrein sem glæpasagnagerð. Þó hafa
nokkrir orðið til þess að skrifa glæpasögur, gamansögur, ástarsögur, vís-
indasögur og aðrar ófínar sögur undir dulnefnum, en slíkt er skammgóður
vermir í landi þar sem allir þekkja alla.
Það er raunar skiljanlegt að skáld séu ófús til að leggja nöfn sín við
þann hégóma sem ófínar bókmenntir, léttmeti ellegar afþreyingarbók-
menntir kallast. I besta falli selst afþreyingarbók sæmilega, það er að segja
nær þeim lesendahópi sem annars les ekki annað en þýddar afþreyingar-
bókmenntir, stjörnuspár og sorprit. Bókmenntaritin hundsa útkomu bókar-
innar; gagnrýnendur blaðanna birta stutta klausu í yfirlætislegum tón —
þyki þeim bókin sæmileg heitir það, að í henni séu liprir sprettir og ekki
laust við að hafa megi gaman af vissum köflum. Sjaldan er reynt að
skyggnast nánar eftir því hvað þarna sé á ferðum, heldur látið nægja að
39