Tímarit Máls og menningar - 01.05.1980, Blaðsíða 74
Vésteinn Lúðvíksson
Hvörf í þorpi
Svona einu sinni í mánuði i þrjátíu ár drakk Gummi prúði sig fullan og
gekk í skrokk á Villu. Morguninn eftir gekk Villa á milli grannanna og
sýndi þeim bólgurnar og marblettina og grátþrútin augun. „Sona er
hann. Hvurnig á ég að geta búið við þetta lengur?“ Samt hélt hún áfram
að búa við þetta lengur. Og ef frá eru taldir sérvitringar, sem enginn tók
mark á, var samúð þorpsins með honum.
„Hún getur sjálfri sér um kennt,“ sögðu sumir. „Gerir hann arfavit-
lausan í afbrýðisemi, skýst ekki svo útí Kaupfélag að hún þurfi ekki að
býsnast yfir því allt kvöldið hvernig Maggi Klöru ætlaði bókstaflega að
góna sundur á henni brjóstin.“
„Sko maður einsog hann Gummi prúði sem aldrei svarar fyrir sig,“
sögðu aðrir, „hann getur ekki kyngt alveg endalaust, eða hvað?“
„Gummi prúði er vænn maður,“ sögðu allir.
Svo var það núna fyrir jólin að Gummi prúði brá útaf vananum.
Nýkominn heim úr frystihúsinu fékk hann æðiskast, bláedrú, snerti ekki
á Villu en réðst í staðinn á jólabakkelsið, tuttugu og sex tegundir af
rómaðri gæðavöru, sópaði öllu heila klabbinu útí skafl og tróð það undir
bússunum niðrí nýfallinn snjóinn. Villa beið ekki aldeilis til morguns,
samstundis rauk hún með tíðindin í næstu hús og um kvöldið hafði
þorpið myndað sér skoðun.
Ef frá eru taldir sérvitringar, sem enginn tekur mark á, er nú samúðin
með Villu í fyrsta skipti í þrjátíu ár.
„Hún Villa hefur sína galla einsog allir," segja sumir. „En jólabakk-
elsið! Nei takk.“
„Karlálftin hefði minnstakosti getað drukkið sig fullan,“ segja aðrir.
„Svona hagar sér ekki heilbrigt fólk.“
„Kannski hefur hann alltaf verið fantur innvið beinið,“ segja fleiri og
fleiri. „Minnstakosti er það ekki smátt sem hún Villa hefur fengið að líða
um dagana.“
Margt bendir til að Gummi missi viðurnefnið prúði.
64