Tímarit Máls og menningar - 01.05.1980, Blaðsíða 120
Tímarit Máls og menningar
Orð Shakespeares „af mannúð sprottin“ (“humanely taken”) eru viðlíka
tvíræð. Hægt er að leggja í þau mjög þrönga merkingu, svo að þau þýði ekki
mikið umfram „sprottin af hjartagæzku minni.“ En út úr þeim má einnig lesa
fulla nýjunartíma-merkingu latneska orðsins „humanitas". í mínum augum er á
þessum tveimur orðasamböndum, „pour l’amour de l’humanité“ hjá Moliere,
og “humanely taken” hjá Shakespeare, sama snilldar-markið.
Ef veraldarsagan hefur verið sviðsett á eyju Prosperós, þá er saga Kalíbans
kafli úr sögu mannkynsins. Þegar Ofviðrið er lesið á þann veg, verða þrjár sýnur
sérlega markverðar. Sú fyrsta þeirra verður í lok annars þáttar. Stefanó hefur þá
þegar gert Kalíban ölvaðan. Tilræðið hefur verið afráðið. Hið „hrausta skoffin“
vísar sinum nýja herra veg. Þá er það, að Kalíban syngur í fyrsta sinn.
Drykkjuvísan sú endar á óvæntu viðlagi:
Frelsi! húrra! húrra! frelsi! frelsi! húrra! frelsi!
I fyrstu sýnu leiksins var það Aríel sem bað um frelsi. Nú endurtekur
Shakespeare sama atburð með hrottalegu háði. Og ekki aðeins einu sinni, heldur
tvisvar. I þriðja þætti er drykkjurútur, fífl, og vesalt skrímsl að hefjast handa um
valdsteypu. Þeir eru á leiðinni til að myrða Prosperó. I þetta sinn er það Stefanó
sem syngur:
Brjótum og berjum, og hótum og herjum!
hugur frjáls!
„Hugur frjáls!" — syngur drykkjusvolinn. „Hugur frjáls!" — endurtekur fíflið.
Aðeins Kalíban veitir því eftirtekt, að skyndilega hefur skipt um lag. A þessu
andartaki birtist Aríel með „trumbu og flautu“, og ruglar laginu. „Þetta erekki
lagið“ —grenjar Kalíban. Kalíban hefur heyrt til Aríels.
Þetta er kjarninn í þeim skrípa-harmleik Shakespeares, sem skaut forn-
menntasinnum skelk í bringu með groddalegu sniði sínu, en rómantíkursinnar
hylltu sem stefnu nýrra leikbókmennta. En þeim var um megn að ná tóninum
frá Shakespeare. I stað skrípa-harmleikja sömdu þeir tilfmningaleiki eins og
leikrit Victors Hugos. Hjá Shakespeare blandast skrípaleikur og harmleikur og
rennur saman í eitt, eins og drykkjusöngur Stefanós og Trinkúlós er allt í einu
orðinn að tónlist Aríels.
Stefanó og Trinkúló eru einungis skrípa -persónur, en Kalíban er bæði skrípa-
og harmpersóna. Hann er drottnari, skrímsl og maður. Hann er skrípilegur í