Tímarit Máls og menningar - 01.03.1981, Page 63
,,Hamar með nýjum munni“
honum að brúa það firringarbil sem skáldum þessarar aldar hefur reynst
óbrúanlegt. Nú er náttúrulýrikin fyrir alllöngu orðin æði náttúrulaus.
Skáldin standa utanvið náttúruna og skynja hana ekki sem annað en
myndefni og líkingabrunn.
Frá upphafi hefur náttúran verið ríkur ef ekki ríkasti þátturinn í
ljóðagerð Hannesar. Flest eru náttúruljóð hans landslagsmyndir, í eðli
sínu náskyldar því málverki sem vinsælast hefur orðið á Islandi. Ljóðið I
Tungusveit verður hér að nægja sem dæmi:
Döggin hnígur
af drúpandi strái.
Gamalt ljóð
syngur lækur með trega.
En hnjúkurinn blái
bústaður verðugur guðum
horfir sem áður
til himinvega.
(Innlönd, Kvceðasafn, bls. 188)
Skáldið stendur handanvið náttúruna og virðir hana fyrir sér. Hún er
hvorki í honum né hann í henni. Ekki heldur bregst hann við henni. Sýnin
nálgast að vera honum með öllu óviðkomandi. Og lesandinn freistast til
að spyrja hversvegna sé ort. Til þess eins að bregða upp snoturri mynd af
því sem hver og einn getur séð með eigin augum ef hann nennir útúr
stofunni heima hjá sér?
Gjöfulli eru þau ljóð þar sem Hannes grípur til náttúrunnar til að
varpa ljósi á firrtan mannheim. Eitt slíkt er Talað við laufgað tré:
Skáld verð ég ekki fyrr en ég finn að þú
ert fólgið í mínu blóði, ég orðinn þú:
laufgræn harpa í höndum myrkurs og birtu
himins og jarðar: samur þér, sem ert brú
er sól og moldir millum sín hafa reist
orðinn máttugt hljóðfæri í höndum lífsins
harpa lifandi strengja — éins og þú.
(í sumardölum, Kvæðasafn, bls. 78)
TMM 4
49