Tímarit Máls og menningar - 01.03.1981, Side 78
Guðbergur Bergsson
Myndgerð ljóðsins
Líklega er ljóðið sprottið af einhverjum dularfullum bögglingi í sálinni. Það
sprettur á þeim stað þar sem þögnin og hljóðið berjast fyrir tilverurétti sínum. í
hinum innri talfærum mannsins, langt að baki tungunnar og málsins, fer fram
og á sér stað sífellt tuldur sem er áþekkt hljóðskrafi eða muldri.
Þegar sálin virðist hafa tuldrað nóg í sinni frjóu einveru, þá brýst ljóðið fram
á talfærin að mestu fullsprottið. Þegar ljóðið lýstur tunguna er það fullsprottið
hvað hugsun áhrærir, en í formi þess eru jafnan einhverjir þverbrestir, sem
skáldið lagfærir með lærdómi sínum, þekkingu og rökvísi. Formið er ævinlega
mótað af eins konar fylgispekt skáldsins við reglur. Það er eftirgefanlegt við
hefðina. Alger formbylting er ekki til.
Þótt auðsætt sé hvaðan ljóðið kemur og hvert það fer: frá höfundi til
lesandans, þá hvílir ævinlega sama leynd yfir eðli þess og uppruna. Það stafar af
því að öll ljóð eru margræð, eins og maðurinn. Það er engu auðveldara að lesa
ljóð en að lesa mann eða í sál hans.
Ljóðið er þeim eiginleikum gætt að möguleikar þess tæmast aldrei. Eðli þess
er eilíft enda þótt formið, Ijóðformið, sé hægt að tæma og draga af því
niðurstöðu á sama hátt og reikningsdæmi. Hægt er að svipta hulunni af
ljóðforminu, bragarhættinum.
Lærdómur, þekking og rökvísi hafa tilhneigingu til að ganga sér til húðar.
Þau verða úrelt, og eins geta bragarhættir hlotið sömu örlög. En hið frumstæða
eðli gætir sín, það forðar sér frá því að verða vitinu að bráð, það leikur stöðugt á
vitið með sinni frelsisþrá, og þess vegna sest það á bekk með hinu sígilda.
Vísindarit verða úrelt. Ævi þeirra er stutt ef vísindin eru stunduð af einhverri
íþrótt. En þótt maðurinn hafi ort um svipað efni: hann sjálfan og náttúruna,
verða ljóðin ekki úrelt sökum nýrrar þekkingar. Ný þekking gæðir ljóðið nýju
lífi.
En hvernig verður ljóðið til?
Flest skáld eru að einhverju leyti frelsarar ljóðsins. Skáldin leyfa ljóðinu að
koma til sín. Aðrir menn banna því það, en samt kemur ljóðið til sérhvers
manns á einhvern hátt þótt hann verði þess ekki var. Hins vegar, ef kallað er á
64