Tímarit Máls og menningar - 01.03.1981, Síða 100
Tímarit Máls og menningar
Hvernig höfundur vinnur ljóð sitt, held ég að engum komi við, það skiptir
einfaldlega ekki máli. Hvort sem hann vinnur lengur eða skemur, mikið eða
lítið, verður alltaf það sama uppi á teningnum: Hann sendir frá sér ljóð sitt, og
það er aldrei nema hálfort. Viðtakandinn, lesandi eða hlustandi, fullvinnur
verkið. Það er hann sem ætlar að leiða ljóðið gegnum lífið, gæta þess, eiga með
því ánægjustundirnar. Og ljóð án lesanda verður aldrei annað en fóstur.
En hver er hann þá, lesandinn? Kannski er hann einhver einstaklingur sem
höfundi er kær, kannski heil þjóð. Og hvernig gengur honum? Það fara ekki
miklar fréttir af því. Enginn virðist þekkja til hans almennilega, og fátt heyrist
frá honum sjálfum. Kannski hefur enginn nennt að athuga hvað hann hefur til
málanna að leggja. Kannski hefur hann ekkert til málanna að leggja, getur ekki
klárað verkið.
Reyndar er til lesandi sem lætur frá sér heyra, það er Lesandinn. Ymislegt
verkar á hann. Nýlega voru það hefðbundnu, hálfbundnu og óbundnu
prósentin i ljóðinu.
Þegar ég nú ætla að senda frá mér mitt hálforta ljóð, fer ekki hjá því að ýmsar
spurningar vakni. Hvernig verður því tekið þegar það lendir hjá vandalausum?
Hvernig mun því ganga í skóla, eða úti í atvinnulífinu? Fær það blíðar mót-
tökur ef það lítur við á næturvaktinni í Hampiðjunni? Verður því kastað út ef
það skreppur á Café Mokka? Hvað verður úr því á netabát frá Sandgerði? Eða i
hanastélsveislu á Arnarnesi? Sleppur það inn í Hollywood? Hefur það sjens á
Halló? Verður ráðist á það i Hagkaup? Kemst það í sveit? Fer það í Háskólann?
Þýðir nokkuð að senda það í járnabindingar? Eða frystihús? Fær það inngöngu í
Dagsbrún eða Verslunarmannafélagið? Verður það gert að heiðursfélaga í
Kvartmíluklúbbnum?
Þannig mætti lengi spyrja. En fátt verður um svör, einsog þegar svara á til um
merkingu ljóðsins. Og í því sambandi mætti enn spyrja: Er ljóðið fatlað?
Hamlað? Þrífst það kannski ekki nema í vernduðu umhverfi; Timariti Máls og
menningar?
Síminn hringir og hringir, söng Svanhildur, en ekkert svar.
Ég held að full mikið sé búið að fjalla um það hvernig skáldið gengur frá
ljóðinu, alltof lítið vitað um hitt, hvernig lesandanum tekst að ljúka við það;
hver lesandinn er. Var einhver að nefna bókmenntaþjóð? Lágmenningu, há-
menningu?
Æ, þetta er allt svo erfitt.
Yrkjum við ekki bara alltof mikið í svefni?
Nei, ætli það sé ekki öfugt?
86