Morgunblaðið - 16.12.2014, Síða 44

Morgunblaðið - 16.12.2014, Síða 44
44 MENNING MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. DESEMBER 2014 Haustið 1949 hóf StyrmirGunnarsson nám í ellefuára bekk í Laugarnes-skóla. Þar og næstu ár- in, þegar leiðin lá í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólann í Reykjavík, eignaðist hann nokkra vini, sem hafa haldið sambandi síð- an. Þeirra á meðal eru Halldór Blöndal, síðar ráðherra og forseti Alþingis, Ragnar Arnalds, síðar formaður Alþýðubandalagsins, Jón Baldvin Hannibalsson, síðar for- maður Alþýðuflokksins, Sveinn R. Eyjólfsson útgefandi, Atli Heimir Sveinsson tónskáld, Brynja Bene- diktsdóttir leik- kona og Bryndís Schram sjón- varpskona. Þessi vinaklíka var af kynslóð kalda stríðsins, og þátt- töku sinni í því lýsir Styrmir í fróðlegri nýrri bók, Í köldu stríði. Fyrr um vorið hafði verið barist á Austurvelli um aðild að Atl- antshafsbandalaginu, sumarið á eft- ir skall Kóreustríðið á, og vorið 1951 steig bandarískur her á land. Flestir í klíkunni létu sig stjórnmál varða og voru vinstrisinnaðir, jafn- vel Halldór Blöndal á þeim árum, þótt hann skipti síðar um skoðun. Sjálfur var Styrmir um skeið á báð- um áttum. Hann hafði alist upp við stækan andkommúnisma á heimili sínu, en líka andúð á hinum eng- ilsaxneska frjálshyggjuarfi. Faðir hans og margir frændur höfðu ver- ið nasistar fyrir stríð og hliðhollir Þjóðverjum í stríðinu. En ekki leið á löngu, uns Styrmir gekk í Sjálf- stæðisflokkinn, aðallega fyrir orð góðs vinar, Harðar Einarssonar, sem þó taldist aldrei til klíkunnar úr Laugarnesskóla. Styrmir veltir því fyrir sér, hvað hafi gert föður sinn og frændur að nasistum. Hann nefnir ýmsar skýr- ingar, sem virðast sennilegar. Ein er, að mörgum fannst farið illa með Þjóðverja í Versalasamningnum, og eitt helsta markmið Hitlers var að ógilda þá. Hvers vegna voru þrjár milljónir þýskumælandi manna, sem höfðu búið kynslóð fram af kynslóð í Súdetahéruðum Bæheims, til dæmis neyddar inn í Tékkóslóv- akíu 1918, þótt þær vildu miklu frekar búa í Þýskalandi eða Aust- urríki? Saga Hitlers fyrstu fimm árin eftir valdatökuna 1933 virtist líka vera samfelld sigurganga og vel til þess fallin að vekja hrifningu ungra manna. Önnur skýring er, að þessir ungu Íslendingar voru um- fram allt þjóðernissinnar, sem höfn- uðu stéttabaráttu, og um þetta áttu þeir samleið með þýskum nasistum. Þessir áköfu ungu menn uppi á Ís- landi vissu lítið sem ekkert um gyð- ingahatur þýskra nasista og því síð- ur um gyðingaofsóknirnar, sem hófust af alvöru í stríðinu og breytt- ust í hina hræðilegu og einstæðu helför. Þriðja skýringin er, að öfgar geta ósjaldan af sér öfgar. Ein- kennisbúnir kommúnistar þrömm- uðu í upphafi fjórða áratugar um götur Reykjavíkur og sveifluðu bar- eflum, og sumum ungum mönnum þótti linlega tekið á þeim. Hart yrði að mæta hörðu. Því má ekki gleyma, að um tuttugu Íslendingar sóttu þjálfunarbúðir bylting- armanna í Moskvu, þar sem þeir fengu tilsögn í vopnaburði, skipu- lagningu götuóeirða, ólöglegum fjarskiptum og fölsun vegabréfa og auðvitað líka í marxískum fræðum. Styrmir fékk þjóðernisstefnu og andkommúnisma í veganesti úr föð- urgarði, en skildi þar eftir alla and- stöðu við engilsaxnesku stórveldin. Gerðist hann eindreginn stuðnings- maður Bandaríkjanna í kalda stríð- inu, sem geisaði frá valdaráni kommúnista í Tékkóslóvakíu í febr- úar 1948 til hruns Berlínarmúrsins í nóvember 1989. Erfitt er að út- skýra kalda stríðið fyrir ungu fólki, sem telur frelsið á Vesturlöndum sjálfsagt og fyrirhafnarlaust. Gam- all vinur minn úr Hoover-stofn- uninni í Stanford-háskóla, prófessor Sidney Hook, sagði eitt sinn um- búðalaust, um hvað þetta stríð snerist: að Gúlageyjaklasinn (eins og vinnubúðanet Stalíns var kallað) næði ekki um allan heim. Hvar- vetna þar sem kommúnistar brut- ust til valda skutu þeir andstæðinga sína eða sendu í þrælkunarbúðir, stofnuðu leynilögreglu, sem fylgdist með fólki og barði jafnóðum niður alla andstöðu, sviptu menn frelsi og eignum. Talið er, að Stalín hafi svelt um sex milljónir bænda til bana árin 1932-1933, þegar þeir vildu ekki taka upp samyrkjubú- skap. Maó gekk enn harðar fram: líklega týndu fjörutíu milljónir manna lífi í „Stökkinu mikla“, sem hann hleypti af stað 1958. Má lesa um allt þetta í Svartbók kommún- ismans, sem komið hefur út á ís- lensku. Og kommúnistar stefndu að heimsyfirráðum. Þeir lögðu eftir stríð undir sig Mið- og Austur- Evrópu og Indó-Kína. Atlantshafs- bandalagið átti að veita þeim við- nám. Það voru þó umfram allt Bandaríkjamenn með hin öflugu kjarnorkuvopn sín og mörg hundr- uð þúsund manna herlið í Evrópu, sem sáu um varnir Vesturlanda. Birtir úr skýrslum sínum Þótt ótrúlegt megi virðast störfuðu víða á Vesturlöndum flokkar, sem studdu Stalín og Maó dyggilega. Kommúnistar voru að vísu áhrifa- litlir í grannlöndum okkar, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada, en öðru máli gegndi á Íslandi, þar sem þeir voru öflugir í verkalýðshreyfing- unni og meðal menntamanna. Hér hafði starfað kommúnistaflokkur 1930-1938. Honum tókst að kljúfa Alþýðuflokkinn, og var þá Sósíal- istaflokkurinn stofnaður og varð stærri en Alþýðuflokkurinn. Enn tókst að kljúfa Alþýðuflokkinn 1956, og bauð þá Sósíalistaflokkur- inn fram með nokkrum jafn- aðarmönnum undir nafni Alþýðu- bandalagsins. Valdakjarninn í Sósíalistaflokknum var í góðu sam- bandi við valdhafa kommúnistaríkj- anna, ráðgaðist iðulega við þá og þáði af þeim rausnarlega fjárhags- aðstoð. Árið 1961, þegar Styrmir Gunnarsson var aðeins 23 ára að aldri, fól Eyjólfur Konráð Jónsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins og ein- dreginn andkommúnisti, honum það verkefni að fylgjast með Sósíalistaflokknum. Hafði ónefndur flokksmaður misst trúna á málstað- inn og var fús til að veita Morg- unblaðinu upplýsingar. Styrmir hitti þennan uppljóstrara reglulega allt til 1968, skrifaði eftir honum skýrslur og greiddi honum fé fyrir ómak sitt. Hann vissi það eitt, að þessar skýrslur bárust Bjarna Benediktssyni og Geir Hallgríms- syni, sem voru einörðustu andstæð- ingar kommúnista í Sjálfstæð- isflokknum, en Styrmi grunaði líka, að bandaríska sendiráðið kæmi eitt- hvað að málinu. Oft notaði Styrmir líka upplýsingar heimildarmanns síns í fréttir í Morgunblaðinu af Sósíalistaflokknum, og olli það jafn- an uppnámi innan flokksins. Styrmir birtir ýmislegt úr skýrslum sínum, og sýna þær, að Sósíalistaflokkurinn lék á reiði- skjálfi árin 1961-1968. Deilurnar voru á yfirborðinu um, hvort flokk- urinn ætti að starfa áfram sem sjálfstæður flokkur eða hvort leggja ætti hann niður og breyta Alþýðubandalaginu úr kosninga- bandalagi í sérstakan flokk, en und- ir niðri virðast átökin aðallega hafa verið um tvennt annað: í fyrsta lagi var um að ræða valdabaráttu þeirra Einars Olgeirssonar og Lúðvíks Jósepssonar, og í annan stað var deilt um afstöðuna til komm- únistaríkjanna, sem sumir vildu fylgja skilyrðislaust, en aðrir gagn- rýna, þegar þurfa þætti, í anda Tí- tós í Júgóslavíu. Voru þeir Einar og Lúðvík þó báðir sammála um, að halda ætti sambandi við kommún- istaríkin, Einar af hugsjón og Lúð- vík af hagsýni. Lýsingar Styrmis á ýmsum æsingafundum í Sósíalista- flokknum eru hinar spaugilegustu. Sumir hafa reynt að gera lítið úr upplýsingaöflun Styrmis og haldið því fram, að engin ógn hafi stafað af íslenskum kommúnistum, þegar hér var komið sögu. Þeir horfa þá fram hjá því, að þingmenn Sósíalistaflokksins fylgdu enn Ráðstjórnarríkjunum að málum. Þeir neituðu til dæmis að sam- þykkja þingsályktunartillögu þetta sama ár, 1961, þar sem kjarn- orkuvopnatilraunir Kremlverja í Norður-Íshafi voru fordæmdar. All- ir aðrir þingmenn samþykktu álykt- unina, þar á meðal samstarfsmenn sósíalista í Alþýðubandalaginu. Þjóðviljinn varði líka Berlínarmúr- inn, sem reistur var í sömu mund í því skyni að loka fólk inni í Austur- Þýskalandi. Kalda stríðið var háð í fullri alvöru. Vinir í hinum herbúðunum Jafnframt því sem Styrmir lýsir hinni takmörkuðu og tiltölulega sakleysislegu þátttöku sinni í kalda stríðinu fylgir hann eftir vinum sín- um í Laugarnesskólaklíkunni, og gerir það bókina skemmtilegri. Hann hefur þó sterka tilhneigingu til að hlífa vinum sínum. Hann birt- ir til dæmis athugasemdalaust þá fullyrðingu Ragnars Arnalds, að hann hafi aldrei verið í Sósíal- istaflokknum. En Ragnar var ung- ur í Æskulýðsfylkingunni, sem þá var hluti Sósíalistaflokksins. Hann sótti æskulýðsmót kommúnista í Varsjá 1955 og sat flokksþing Æskulýðsfylkingarinnar 1957. Hitt er annað mál, að eflaust var og er Ragnar frekar þjóðernissinni en sósíalisti. Um hann má segja hið sama og Magnús Jónsson guðfræ- ðidósent sagði um Ólaf Thors, þeg- ar hann var í framboði með miklu óvinsælli manni, Jóni Þorlákssyni, 1921: hann var beitan á ryðgaða önglinum. Styrmir segir líka, að formannstíð vinar síns, Jóns Bald- vins Hannibalssonar, í Alþýðu- flokknum hafi verið glæst. Um það verður ekki efast, að Jón Baldvin, sem gældi ungur við kommúnisma, snerist algerlega gegn honum og vann ötullega að því 1991 ásamt Davíð Oddssyni, sem þá var for- sætisráðherra, að Ísland endurnýj- aði viðurkenningu sína á Eystra- saltslöndunum, og var það hraustlega gert. En formannstíð Jóns Baldvins var síður en svo glæst. Flokkur hans klofnaði þá, og hann skildi við hann í rústum og skundaði til Washington-borgar, þar sem hann kom sjálfum sér og Íslendingum um leið út úr húsi. Eflaust hefur það flækt margt fyrir Styrmi, að í kalda stríðinu átti hann marga vini í hinum herbúð- unum. Honum var líka sá vandi á höndum, að snemma á sjöunda ára- tug tókust ástir með honum og Sig- rúnu Finnbogadóttur, sem varð eig- inkona hans. Hún er dóttir Finnboga Rúts Valdimarssonar, sem verið hafði ritstjóri Alþýðu- blaðsins, en gengið til liðs við sósí- alista 1949 og verið þingmaður þeirra (þó ekki flokksbundinn) allt til 1963. Finnbogi Rútur var bróðir Hannibals Valdimarssonar, sem klauf Alþýðuflokkinn 1956. Styrmir talar af mikilli virðingu um þessa menn í bók sinni, sérstaklega tengdaföður sinn, og er það skilj- anlegt. En hann gerir allt of mikið úr áhrifum þeirra bræðra á íslensk stjórnmál. Þeir voru óróaseggir frekar en örlagavaldar. Raunar missir Styrmir út úr sér á einum stað dæmi um þetta. Eitt sinn of- bauð samstarfsmanni hans á Morg- unblaðinu, Matthíasi Johannessen, málflutningur Finnboga Rúts á þingi, sneri sér að Bjarna Bene- diktssyni og spurði: „Hvernig getur þú litið á þennan mann sem vin þinn?“ Bjarni hló við og svaraði: „Hann meinar ekkert með þessu!“ Hvenær hefði einhver andstæð- ingur Bjarna sagt slíkt um hann? Bjarna Benediktssyni var full al- vara og það ekki að ástæðulausu. Hið sama er að segja um aðra þá, sem tóku forystu í baráttunni gegn kommúnismanum á Íslandi, til dæmis Valtý Stefánsson og Eyjólf Konráð Jónsson. Þeir Finnbogi Rútur og Hannibal Valdimarssynir voru vissulega engir kommúnistar. En þeir voru lengi meðreið- arsveinar kommúnista og fengu báðir fyrir þingmannssæti, Finn- bogi Rútur bankastjórastöðu og Hannibal forsetatign í Alþýðu- sambandi Íslands. Var ekki hlutur Stefáns Pjeturssonar og Stefáns Jóhanns Stefánssonar í Alþýðu- flokknum sýnu betri, en þeir tóku sömu afstöðu til kommúnista og aðrir norrænir jafnaðarmenn? Í þessari bók hvikar Styrmir Gunnarsson hvergi frá þeirri sann- færingu sinni, að hann hafi verið réttum megin í kalda stríðinu og gert það, sem þurfti að gera, en hann er mildur í dómum um sam- ferðamenn sína. Hann talar eins vel um andstæðinga sína og þeir tala illa um hann, og hafa sennilega hvorir tveggja þar rangt fyrir sér. En Styrmir getur með sanni tekið sér í munn orð postulans: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ Hann barðist góðu baráttunni Endurminningar Í köldu stríði – Vinátta og barátta á átakatímum bbbbb Eftir Styrmi Gunnarsson. Veröld, 2014. 287 bls. HANNES H. GISSURARSON BÆKUR Réttum megin Stór hluti Klíkunnar, eins og hópur æskuvina hefur verið nefndur, á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins í Kringlunni. Klíkan hefur hist öðru hvoru í áratugi. Frá vinstri: Jón Baldvin Hannibalsson, Halldór Blöndal, Sveinn R. Eyjólfsson, Ragnar Arnalds, Atli Heimir Sveinsson og Styrmir Gunnarsson. Höfundur segir að í bók sinni hviki Styrmir „hvergi frá þeirri sannfæringu sinni, að hann hafi verið réttum megin í kalda stríðinu og gert það, sem þurfti að gera, en hann er mildur í dómum um samferðamenn sína“.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.