Bókasafnið - 01.06.2010, Page 11
bókasafnið 34. árg. 2010
Í nýja safninu hefur átthagadeild verið gefið meira rými en
áður, en deildin hefur það að markmiði að varðveita útgefið
efni sem varðar Akranes og Vesturland. Gögn í átthagadeild
eru einungis lánuð til afnota á bókasafninu.
Haraldssafn er deild í Bókasafni Akraness. Safnið er
einkabókasafn dr. phil. Haraldar Sigurðssonar (1908-1995)
og Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og telur um 4000 bindi.
Akraneskaupstaður keypti safnið árið 1994. Þess má geta að
kortabókasafn Haraldar er í Þjóðarbókhlöðu. Upphaflega
stóð til að í nýja safninu væru glerskápar í útlánasal er sýndu
bækur úr Haraldssafni, en vegna niðurskurðar varð að fresta
þeim kaupum og er allt safnið í geymslu. Bækurnar eru að
nær allar skráðar í Gegni og eingöngu lánaðar á lesstofu.
Í Haraldssafni er mikið safn íslenskra þjóðsagna, nær öll
tímarit í frumútgáfu frá því að útgáfa þeirra hófst og fram
yfir miðja 19. öld og þau helstu eftir þann tíma. Einnig er
þar mjög merkt safn fornrita, til dæmis gamlar útgáfur af
Eddunum og flestar útgáfur Heimskringlu og Sturlungu.
Haraldur Sigurðsson safnaði öllum útgáfum ritverka
einstakra rithöfunda. Merkust eru ritverk Halldórs Laxness.
Bókasafnið
Við val á nýjum bókasafnsbúnaði var fengin ráðgjöf frá
Þjónustumiðstöð bókasafna, sem einnig gerði tillögu
að uppsetningu búnaðar. Valinn var hillubúnaður í nýrri
Softline línu, sýningarbúnaður, bókavagnar og bókabíll í
barnadeildina. Eldri hillubúnaður (Softline) var fluttur með og
nýttur eins og hægt var.
Barnadeildin er í sérrými, sem að hluta til er stúkað af frá
útlánasal með glerhurðum og glervegg. Hér eru bækur fyrir
yngstu börnin og hægt að skapa gott næði til að taka á móti
leikskólahópum.
Námsverið Svöfusalur er einnig í sérrými. Þar er
fjarfundabúnaður og möguleiki fyrir nemendur að stunda
fjarnám frá Háskólanum á Akureyri eða sitja námskeið sem
Símenntunarmiðstöð Vesturlands býður upp á í gegnum
slíkan búnað. Einnig er námsverið nýtt af háskólanemum
og fræðimönnum til náms og lestrar þegar salurinn er ekki í
notkun vegna fjarkennslu eða funda. Nemendur í háskólanámi
geta fengið aðgangskort að salnum til að nýta sér aðstöðuna
utan hefðbundins afgreiðslutíma.
11
Mynd frá útlánasal. Við afgreiðsluborðið. Ljósmynd: Halldóra Jónsdóttir.
Starfsfólk Bókasafns Akraness. F. v.: Hafdís Daníelsdóttir bókavörður, Sigríður Beinteinsdóttir bókavörður, Helgi Steindal bókavörður og nemi í
bókasafns- og upplýsingafræðum, Auður Sigurðardóttir bókavörður, Nanna Þóra Áskelsdóttir deildarstjóri og Halldóra Jónsdóttir bæjarbókavörður.
Á myndina vantar Gerði J. Jóhannsdóttur skrifstofustjóra í Héraðsskjala- og Ljósmyndasafni. Ljósmynd: Ágústa Friðriksdóttir.
Úr skjala- og bókageymslunum. Ljósmynd: Halldóra Jónsdóttir.