Bókasafnið - 01.06.2010, Side 28
28
bókasafnið 34. árg. 2010
því safnið notar Danska Dewey sem er töluvert frábrugðinn
öðrum útgáfum sem notaðar eru hér á landi. Sérfræðibókasöfn
nota oftast óstyttu bandarísku útgáfuna og íslenska útgáfu um
séríslenskt efni. Umfangsmesta og nákvæmasta flokkunin hér
á landi fer fram á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
sem er langstærsta safn landsins. Safnið hefur samkvæmt
lögum leiðandi hlutverki að gegna á sviði bókasafns- og
upplýsingamála en í 7. grein Laga um Landsbókasafn Íslands
– Háskólabókasafn (1994) segir í 15. málsgrein að eitt af
hlutverkum safnsins sé: „Að stuðla að samræmingu starfshátta
í íslenskum bókasöfnum, veita þeim faglega ráðgjöf og eiga
við þau sem víðtækast samstarf.“ Safnið gefur til dæmis út
Íslenska útgáfuskrá (áður Íslensk bókaskrá). Í skránni, sem gefin
er út á vefnum, eru töluyfirlit samkvæmt Dewey-kerfinu og
hægt er að leita eftir einstökum flokkstölum en mjög væri til
bóta ef hægt væri að velja þær úr flettilista.
Sérstaða Borgarbókasafns
Eins og drepið var á hér að ofan hefur Borgarbókasafn
Reykjavíkur algera sérstöðu. Þar er notað danskt afbrigði af
Dewey-kerfinu, Decimalklassedeling, DK. Helgast það af því
að fyrsti borgarbókavörðurinn, Sigurgeir Friðriksson, lærði
sín bókasafnsfræði í Danmörku og tók upp danska afbrigði
kerfisins við stofnun safnsins árið 1923. Hann var jafnframt
fyrsti Íslendingurinn til að ljúka námi í bókasafnsfræði og
útskrifaðist árið 1921 (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Nú er notuð
5. endurskoðaða útgáfan frá 2007, DK 5. Kerfið hefur ekki verið
þýtt á íslensku heldur er danska útgáfan notuð en gerðar hafa
verið nokkrar breytingar á henni við flokkun í safninu. Danska
afbrigði kerfisins er frábrugðið bandarísku útgáfunni bæði
hvað varðar form og innihald.
Samanburður á Dewey-kerfinu og DK
Á töflunni hér að neðan sést samanburður á nokkrum flokkum
í Danska Dewey og bandarísku útgáfu Dewey-kerfisins.
Danski Dewey Bandarísk útgáfa Dewey
110 Rökfræði
130 Sálfræði
140 Yfirskilvitleg fyrirbæri
150 Siðfræði
400 Landafræði og ferðir
890 Tungumál
910 Tímabilsskiptingar sögu
920 Saga Frakklands
990 Ævisögur
110 Frumspeki
130 Yfirskilvitleg fyrirbæri
140 Tilteknar heimspekistefnur
150 Sálfræði
400 Tungumál
890 Bókmenntir annarra tungumála
910 Landafræði og ferðir
920 Ævisögur
990 Aðrir heimshlutar (saga)
Verulegar breytingar og tilfærslur hafa verið gerðar á
Dewey-kerfinu í dönsku útfærslunni. Danski Dewey er aðallega
hugsaður fyrir almenningsbókasöfn. Í dönsku útgáfu Dewey-
kerfisins er reynt að vega upp á móti þeim göllum sem kerfið
þykir almennt hafa. Kerfið hefur til dæmis verið gagnrýnt fyrir
að þrír aðalflokkar eru á milli tungumála og bókmennta og að
landafræðin klýfur sagnfræðiflokkinn.
Aðalmunurinn á bandarísku útgáfu Dewey og þeirri
dönsku er að 400 flokkurinn, tungumál, hefur verið fluttur
yfir í bókmenntaflokkinn og er þar undirflokkur, það er
890, þannig að 500, 600 og 700 flokkarnir eru ekki á milli.
Ennfremur hefur landafræðin verið flutt úr 910 þar sem
þröngt er um hana (undirflokkur sem fær einn tug) auk
þess sem hún klýfur sagnfræðiflokkinn. Fær landafræðin
heilan aðalflokk í staðinn (hundrað), það er einn tíunda
hluta kerfisins (400) í stað eins hundraðasta (910) eins og er
í bandarísku útgáfunni. Hugmyndafræðin á bak við þetta var
meðal annars að almenningsbókasöfn ættu meira efni um
landafræði en tungumál og því þyrfti hún meira pláss í kerfinu
en tungumálin.
Breytingar á flokkstölum í DK
Í Danska Dewey hafa einnig hafa verið gerðar breytingar
á formi flokkstalna. Punkturinn í marktölunni (á íslensku
lesið sem komma) sem í bandarísku útgáfunni er eftir þriðja
staf er eftir öðrum staf í Danska Dewey og ekki er fyllt upp
með núllum þannig að flokkstalan sé alltaf þriggja stafa að
lágmarki. Á Borgarbókasafni Reykjavíkur er ekki farið eftir
þessu heldur eftir almennum reglum kerfisins og punkturinn
hafður eftir þriðja tölustaf. Á Borgarbókasafni er þannig notað
sérstakt íslenskt afbrigði Danska Dewey.
Í gegnum tíðina hefur oft verið rætt meðal starfsmanna
bókasafna af hverju Borgarbókasafn Reykjavíkur noti Danska
Dewey og taki ekki upp almennu útgáfuna eins og önnur
bókasöfn landsins. Endurflokkun var skoðuð og metin
sérstaklega áður en Borgarbókasafn gerðist aðili að nýja
Gegni, samskrár, íslenskra bókasafna, í apríl 2004 (Gegnir var
opnaður á vefnum þann 19. maí 2003, www.gegnir.is). Í ljós
kom að endurflokka þyrfti mikinn hluta safnkostsins eða allt
að 80% sem er bæði dýrt og tímafrekt. Önnur rök voru að
engin samræming er á flokkun í bókasafnskerfinu Gegni hvort
sem er þannig að hvert aðildarsafn um sig getur flokkað eins
og hentar best í heimasafni þannig að sama safngagn hefur
margar mismunandi flokkstölur í Gegni þó bandaríska útgáfan
sé notuð (Þóra Sigurbjörnsdóttir, tölvupóstur, 19. febrúar 2009).
Engin áform eru heldur uppi um að samræma flokkun í Gegni
heldur er eingöngu litið á flokkstölur sem staðsetningartákn
viðkomandi safns. Aftur á móti má geta þess að í Gegni er
öflugt samræmingarstarf í gangi hvað varðar skráningu og
lyklun og bæði skráningarráð og efnisorðaráð starfandi sem
hafa mikilvægu samræmingar- og gæðastjórnunarhlutverki
að gegna hvort á sínu sviði. Handbók skrásetjara Gegnis
(2009) er aðgengileg á vefnum til að auðvelda aðgengi að
sameiginlegum reglum. Af þessu leiðir að í Gegni koma
flokkstölur ekki fram í fullri færslu heldur í tengslum við hvert
eintak fyrir sig og eru notaðar sem staðsetningartákn eins og
áður segir. Hægt er að leita eftir flokkstölum í ítarlegri leit og
með skipanaleit sem búast má við að allur þorri notenda geti
ekki nýtt sér að fullu nema með fulltingi aðila sem hefur leitir
í kerfinu fullkomlega á valdi sínu. Flokkstölur koma ekki fram í
flettilistum eða stiklutexta (e. hypertext) í fullri færslu.