Bókasafnið


Bókasafnið - 01.06.2010, Side 36

Bókasafnið - 01.06.2010, Side 36
36 Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn 1. desember 1994-2009 – 15 ára afmæli Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir Á þeim fimmtán árum sem liðin eru síðan Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn voru sameinuð við flutning í Þjóðarbókhlöðuna hefur sameinað safn eflst og fest sig í sessi. Það umhverfi sem safnið starfar í hefur breyst verulega á þessum tíma og tæknibreytingar í heiminum hafa verið gífurlegar. Í takt við þetta hefur rafræn þjónusta og stafræn miðlun orðið sífellt umfangsmeiri í starfsemi safnsins. Segja má að annað þjóðbókasafn sé að verða til í netheimum. Safnið starfar eftir lögum nr. 71/1994 með minniháttar breytingum sem orðið hafa vegna breytinga á öðrum lagabálkum, svo sem lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Safninu var sett reglugerð nr. 706/1998 sem enn er að mestu í gildi en þó breytt með reglugerð nr. 664/2003. Meginbreytingin fólst í að deildaskipting var lögð niður en safninu skipt í þrjú svið og að starfseiningar skuli að öðru leyti skilgreindar af landsbókaverði að fengnu samþykki stjórnar safnsins. Endurskoðuð lög um skylduskil til safna nr. 20/2002 tóku gildi 2003 og þau taka m.a. til söfnunar og varðveislu stafræns efnis. Í reglugerð um skylduskil til safna nr. 982/2003 er kveðið á um framkvæmd skylduskilanna en varðveislusöfn eru Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Amtsbókasafnið á Akureyri og Kvikmyndasafn Íslands. Lögin um safnið bera þess merki að verið var að sameina tvær stofnanir á þeim tíma sem þau voru sett og eru nokkurs konar stefnumótun til næstu ára. Gerðar hafa verið a.m.k. tvær tilraunir til að endurskoða lögin og haustið 2008 var lagt fram frumvarp á Alþingi, en það dagaði uppi í umróti bankakreppunnar og breyttu pólitísku landslagi. Safnið hefur hins vegar mótað sér stefnu og sett sér markmið með reglulegu millibili, árið 1999 undir heitinu Þekking, vísindi og menning við aldaskil, árið 2003 undir heitinu Þekkingarveita á norðurslóð og 2009 undir yfirskriftinni Þekkingarveita í allra þágu (sjá Bókasafnið 33. árg. 2009, bls. 34-37). Fyrsta skipurit safnsins var gert við sameininguna og var safninu þá skipt í sex deildir auk skrifstofu landsbókavarðar og kerfisþjónustu. Það var endurskoðað lítillega 1999 þar sem helsta breytingin var á sviði stoðþjónustu. Árið 2003 var ráðist í skipulagsbreytingar og nýtt skipurit var kynnt. Safninu var þá skipt í þrjú svið eins og áður segir og heyra þau beint undir landsbókavörð. Verkefni voru færð til innan safnsins og innri verkefnum og stoðþjónustu safnað undir Rekstrarsvið, en fagleg verkefni undir hin tvö sviðin, Varðveislusvið, sem ber ábyrgð á söfnun og varðveislu íslensks safnkosts, og Þjónustusvið, sem sinnir almennri notendaþjónustu með áherslu á háskólasamfélagið. Sviðsstjórar, aðstoðarlandsbókavörður og landsbókavörður mynda framkvæmdaráð sem hittist að jafnaði vikulega. Þar er upplýsingum miðlað, verkefni samhæfð og fjallað um rekstur safnsins. Þrír landsbókaverðir hafa starfað á þessu tímabili, Einar Sigurðsson 1994-2002, Sigrún Klara Hannesdóttir 2002- 2007 og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir frá 2007. Stjórnir safnsins eru skipaðar til fjögurra ára. Fyrsti stjórnarformaður var Jóhannes Nordal sem sat tvö tímabil, til 2002, en þá tók við Hörður Sigurgestsson sem er sitjandi stjórnarformaður. Í upphafi voru starfsmenn í rúmlega 85 stöðugildum og fjölgaði þeim nokkuð á næstu árum og urðu flest árið 1998 eða 99,31. Síðan hefur þeim fækkað og mest árin 2004 og 2005 í kjölfar skipulagsbreytinganna og vegna þess að starfseiningar voru lagðar niður. Fækkun stöðugilda hefur einnig verið möguleg vegna aukinnar nýtingar upplýsingatækni og breytts verklags, en um áramótin 2009-2010 voru 79,5 stöðugildi í safninu. Þess má til gamans geta að á undirbúningstíma safnsins gerðu áætlanir ráð fyrir 115 manna starfsliði miðað við fullan rekstur. Meginhluti safnsins og starfsemi þess er í Þjóðarbókhlöð- unni sem var opnuð 1994. Bókhlaðan er 13.000 m² en safnið er einnig með 450 m² geymslurými í Mjódd og 800 m² í Reykholti

x

Bókasafnið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.