Morgunblaðið - 14.04.2015, Blaðsíða 23
23
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. APRÍL 2015
Stíflugerð Eggert Sigurðsson, starfsmaður Hjallastefnuskólans, gerir stíflu í mýrinni við Öskjuhlíð. Börnunum á eflaust eftir að líka afraksturinn vel enda fátt skemmtilegra en að sulla úti.
Golli
Þótt erfðir skipti miklu þá segir
hið fornkveðna að fjórðungi bregði
til fósturs. Uppeldi og reynsla hafa
mikil áhrif á það hver við erum og
hvernig við bregðumst við hverju
augnabliki í okkar lífi, minna þegar
við erum kornung, meira þegar við
erum orðin hokin af reynslu. Það er
líka ljóst að augnablikin hafa hvert
fyrir sig töluverð og mismunandi
áhrif á það hvernig við skynjum fyrri
reynslu. Reynsluheimurinn fer
stundum skrýtnar leiðir til þess að
hafa áhrif á augnablikið og útkoman
getur orðið spaugileg eins og dæmin
sanna. Eitt af þeim má finna í sög-
unni sem er sögð af Jónasi Hall-
grímssyni þegar hann var á ferð úti
á landi og lenti í stórhríð og leitaði
skjóls í koti nokkru hjá fátækri
ekkju með fullt hús hungraðra
barna. Meðan hann dvaldi þar fauk
rjúpa inn um glugga á kotinu og hús-
freyjan sneri hana úr hálsliðnum og
eldaði handa börnunum. Náttúru-
fræðingurinn og þjóðskáldið brást
við þessu með því að yrkja tilfinn-
ingaþrungið ljóð um
dapurleg örlög rjúp-
unnar:
Ein er upp til fjalla
yli húsa fjær
út um hamrahjalla
hvít með loðnar tær,
brýst í bjargarleysi
ber því hyggju gljúpa,
á sér ekkert hreysi
útibarin rjúpa.
Jónas var stórkost-
legt ljóðskáld og það
leikur lítill vafi á því
að hann var manna næmastur fyrir
sínu umhverfi og hungur barnanna
og angist móðurinnar hefðu átt
greiðan aðgang að honum ef ekki
fyrir áhuga hans á íslenskri náttúru
sem byrgði honum sýn á það sem
hlyti að hafa skipt hann mestu máli
ef ekki fyrir rjúpuna.
Annað dæmi og miklu nær okkur
er að finna í yfirlýsingu forsætisráð-
herra um það hvernig hann vill að
við höldum upp á hundrað ára af-
mæli 1. desember 1918. Það á að
gera með því að ljúka við byggingu
húss yfir stofnun íslenskra fræða.
Hann hefur nefnilega
áhuga á byggingum og
skipulagsmálum eins og
Karl Bretaprins. Áhug-
ans vegna virðist honum
annaðhvort hafa
gleymst að 1. desember
1918 hlutum við Íslend-
ingar töluvert sjálfstæði
frá Dönum eða honum
hefur yfirsést að við er-
um að glata því aftur að
hluta. Og hvernig í
ósköpunum hefur það
gerst? Það hefur gerst
með því að jáeindaskannar hafa orð-
ið nauðsynleg tæki í nútíma lækn-
isfræði og Danir eiga slíkan en við
ekki. Á síðasta ári sendum við 100
sjúklinga til Kaupmannahafnar í já-
eindaskanna og í ár verða þeir að öll-
um líkindum 200. Við getum ekki
lengur sinnt sjúklingum okkar án
þess að leita á náðir Dana. Það er
með öllu óásættanlegt og í engu
samræmi við þær væntingar sem Ís-
lendingar höfðu í byrjun desember
árið 1918. Það væri miklu nær and-
anum að baki fyrsta desember að
halda upp á hundrað ára afmæli
hans með því að flytja jáeinda-
skanna til landsins og endurheimta á
þann hátt það sjálfstæði frá Dönum
sem við viljum hafa og forfeður okk-
ar börðust fyrir. Ein hliðin á þessu
er sú að það er mikilvægara fyrir ís-
lenskt mál að halda lífinu í þeim sem
tala það en að reisa hús yfir þá sem
rannsaka það. Ég dreg að vísu til
baka þá staðhæfingu hér að ofan að
þetta sé dæmi um spaugilegar af-
leiðingar þess að menn láti reynslu-
heim sinn og áhuga trufla mat á
augnablikinu og veiti þar með for-
dæmi um það hversu auðvelt það sé
að skipta um skoðun þegar við á.
Nýja skoðunin mín er að þetta sé
dæmi um dapurlegar afleiðingar
þess að forsætisráðherra hefur
áhuga á byggingum og skipulags-
málum. Ég er handviss um að meiri-
hluti landsmanna er mér sammála
um þetta og því bendi ég forsætis-
ráðherra á þann möguleika að fylgja
fordæmi mínu og skipta um skoðun
sem sagan hefur kennt okkur að
hann geti auðveldlega og flytja það
fé sem hann er í þann veginn að
setja í hús vestur á Melum yfir í
kaup á tæki til þess að hlúa að lösnu
fólki. Það væri í miklu betra sam-
ræmi við þá forgangsröðun sem
fólkið í landinu aðhyllist og ég veit
að forsætisráðherra hefur oftast
fylgt í lífi sínu og starfi og gengur
undir nafninu: konur og börn í
bátana fyrst. Ginnungagapið vestur
á Melum má alltaf nýta til þess að
jarðsetja nöldur og vondar hug-
myndir sem þessa dagana berast úr
hlöðnu steinhúsi við Austurvöll.
Eftir Kára
Stefánsson » Það væri miklu nær
andanum að baki
fyrsta desember að
halda upp á hundrað ára
afmæli hans með því að
flytja jáeindaskanna til
landsins og endur-
heimta á þann hátt það
sjálfstæði frá Dönum
sem við viljum hafa. Kári Stefánsson
Höfundur er forstjóri Íslenskrar
erfðagreiningar.
Konur og börn í bátana fyrst