Húnavaka - 01.05.1970, Side 22
20
HÚNAVAKA
of þung í klyf og því hafi menn látið sér nægja að slíta af: henni
vængina, þeir hengdir á kla’kka og síðan hefur ekkert til þeirra
spurzt. En miðjan varð eftir, vonandi drýgir enginn þá synd að
selja hana og flytja á brott, þó að farartækin nú séu þess rnegnug að
halda á henni hvert sem vera skal. —
Eftir siðaskiptin féllu eigur klaustranna til konungs og svo var
um eignir Þingeyraklausturs, en umboðsmenn konungsjarða sátu
um langa hríð á Þingeyrum. Einn útlendur lögmaður, Láritz Gott-
rup, sat á Þingeyrum frá 1685—1721, kemur hann mjög við sögu
staðarins á þeim árum. Talið hefur verið að 70—80 manns hafi þá
verið í heimili á Þingeyrum. Gottrup lögmaður lét mikið að sér
kveða, byggði upp staðinn, svo að sagt var, að á öllu íslandi væri
ekki til neinn bær, sem væri eins veglegur og Þingeyrastaður. Er
sú sögn eftir sr. Ólafi Gíslasyni, sem var dóttursonur Gottrups og
ólst þar upp, en hann lýsir Þingeyraklaustri í grein sem kom út
í Ársriti hins íslenzka fræðafélags I. ár 1916. Hann lýsir þar kirkjn
og bæ, minnist meðal annars á gömlu tröðina, sem lá frá bænum
út á túnsporð, tröð, sem var svo breið, að 6—8 hestar gátu gengið
þar samsíða og hlaðnir torfveggir beggja vegna. Þessi tröð hélzt
gegnum aldirnar, fyrir nokkrum árum horfði ég eftir henni með
tárin í augunum.
Oft hef ég furðað mig á því, góðir Húnvetningar, hve sýslubúar
hafa haft lítil tengsli við Þingeyrar og fjölda Húnvetninga hef ég
hitt, sem aldrei hafa komið þangað. Hvergi er þó fegurra um að lit-
ast, þegar bjart er yfir byggðinni, víðáttan óvenju mikil og heillandi.
Staðurinn miðsvæðis, ef báðar sýslurnar eru teknar sem heild. Því
hefur verið tilvalið að halda þar sýslumót, — sléttar grundir og víðir
vellir til íþrótta og kappreiða. Mér hefði fundizt eðlilegt að litið
væri heim til Þingeyra svipað og Skagfirðingar líta til Hóla, en slíkt
hefur ekki tíðkazt. — Ef til vill kemur það til af því, að Þingeyrar
hafa verið í einkaeign um langa hríð, eða frá því að Björn Ólsen
keypti jörðina 1812. Ekki verður svo minnzt á Björn Ólsen að konu
hans sé ekki getið, Guðrúnar Runólfsdóttur, sem var annáluð gæða-
kona og mikill skörungur. Eftir 126 ár lifa enn sagnir um hana í
sýslunni, um hjálpsemi hennar og nærgætni við alla sem voru minni
máttar. Enda stendur á minnisvarða hennar í gamla kirkjugarðin-
um: „Hér hvílir Guðrún Runólfsdóttir — góðgerðasöm gáfukona."
— Fá orð í fullri meiningu og fögur eftirmæli. —