Húnavaka - 01.05.1970, Page 70
68
HÚNAVAKA
Á fyrri hluta 19. aldar er getið um marga Húnvetninga, sem
efnuðust vel á verferðunum. Reru margir bændur sjálfir hverja ver-
tíð á Suðurlandi, og ýmsir voru formenn. Þetta voru víkingaferðir
þeirra tíma.
Aflann þurfti svo að flytja heim. Voru því farnar lestarferðir
miklar á hverju vori, skreiðarferðirnar. Héldust þær ferðir við fram
yfir 1870 og jafnvel lengur, t. d. er þess getið, að vorið 1887 voru
fluttar þannig 19 vættir af harðfiski á einn bæ í Vatnsdal. Var þetta
vetrarvertíðarhlutur tveggja vinnumanna, sem róið höfðu syðra. Þeir
sem engan áttu manninn í veri urðu að kaupa skreiðina, því að
harðfiskur var á hvers manns borði.
í sambandi við verferðirnar tókust töluverð verzlunarviðskipti.
Þegar vel fiskaðist lögðu ýmsir inn í verzlanir syðra eitthvað af fiski
og fengu þannig peninga til opinberra gjalda og annarra brýnustu
þarfa, jafnframt því sem þeir gátu keypt sér þar syðra ýmsa smávöru
til búa sinna, sem annað tveggja fékkst þá ekki í Höfða, eða þá með
miklu óhagstæðara verði.
Jafnan fóru bændur fjölmennir saman í skreiðarferðirnar, og
höfðu þá liinir dugmestu forustu, oft sömu mennirnir, ár eftir ár.
Austur-Húnvetningar fóru Stórasand eða Grímstunguheiði. Þegar
snjór var leystur úr Kvialautinni í Stóradal, töldu Svínvetningar
Sand færan, og var þá óhætt að leggja upp í skreiðarferðina.
Erfiðar voru þessar langferðir, bæði verferðirnar suður á vetrum
og lestarferðirnar, en þær voru áhrifaríkur liður í þroskaferli æsku-
mannsins og drjúg tekjulind fyrir bú sveitabóndans.
IV.
íslenzkir bændur voru það vanir langferðum, að þeim óx eigi
svo mjög í augum, þó að um allmiklar vegaleiðir væri að ræða, þegar
um kaupstaðarferðir gegndi, ef vörurnar fengjust ekki í næsta verzl-
unarstað. Helzt kom til þessa í harðindum, og urðu þá bændur
stundum að leggja á sig ótrúlegt erfiði til þess að geta aflað búum
sínum bjargar og forðað ástvinum sínum frá harðrétti og kröm.
Sem dæmi verða hér tilfærðir atburðir, sem gerðust harðindaárið
1802, en þeir sýna hvort tveggja: öryggisleysið í verzlunarefnum og
samgöngumálum, sem þjóðin átti þá við að búa og um leið áræðið
og dugnaðinn til þess að bjarga sér.