Húnavaka - 01.05.1970, Síða 92
SIGURÐUR ÞORBJARNARSON, Geitaskarði:
Kvennaskólinn á Blönduósi
90 ára
Á síðastliðnu hausti varð Kvennaskólinn á Blönduósi 90 ára. Var
þá settur í 91. skipti, en hann tók til starfa í október árið 1879.
Eðlilegt hefði mátt telja, að þessa merkisafmælis hefði verið
minnst á viðeigandi og verðugan hátt, en skólaráð ákvað, að ekki
skyldi, að þessu sinni, gerður dagamunur, m. a. af því að af'mælishóf,
sem liæfði tækifærinu, hvað allan myndarskap snerti, hefði kostað
verulegt fé. Svo var einnig á það litið, að skammt er í aldarafmælið,
og því verður án efa fagnað af viðeigandi rausn.
Þótt ekki sé þess kostur í greinarstúf að gefa verulega innsýn í
sögu, starf og þróun stofnunar slíkrar sem Kvennaskólinn á Blöndu-
ósi er, þykir mér þó hlýða, í tilefni þessara tímamóta, að rifja upp
helztu atriðin, er snerta stofnun hans og þróun gegnum árin.
Af nákvæmni verður það ekki gert, enda þess ekki þörf, þar sem
til eru, og sennilega í margra höndum, tvö ágæt afmælisrit, annað
útgefið 1939 í tilefni af sextíu ára afmæli hans, liitt útgefið 1954 á
sjötíu og fimm ára afmælinu.
í þessum ritum báðum er að finna greinargóðar og ábyggilegar
upplýsingar um sögu skólans og starf. Má ótvírætt af þeim sjá, að for-
göngumenn um stofnun hans, svo og þeir, er leiddu hann gegnum
byrjunarörðugleikana, hafa orðið að eiga í ríkum mæli bjartsýni,
baráttuþrek og kjark, svo mörgum hindrunum, sem ryðja varð úr
vegi, áður en liægt var að telja þennan nýgræðing sæmilega á legg
kominn.
Það eru þessir brautryðjendur, sem mér finnst mestrar aðdáunar
verðir, þegar litið er til upphafs skólamálsins. Og ég vil með nokkrum
orðum lýsa þeim jarðvegi, sem það er upp úr sprottið.
Segja má, að það sé fyrst á síðari hluta 19. aldar, sem til rofar að
ráði hér á landi í aldalöngu myrkri fáfræði, örbirgðar og stöðnunar.