Húnavaka - 01.05.1970, Síða 101
HÚNAVAKA
99
Þessir fjórir menn hafa samtals 71 ár verið formenn skólaráðsins,
og er meira en líklegt, að þáttur þeirra í mótun, uppbyggingu og
starfi skólans sé gildur.
Sennilegt er, að þröngur fjárhagur skólans hafi lengst af verið erfið-
asti þrándur í götu þessara og annarra framámanna hans.
Því mun það hafa valdið nokkrum vonbrigðum, er Skagfirðingar
segja skilið við skólann í þann mund, er ráðizt var í flutning hans frá
Ytri Ey til Blönduóss og byggingu skólahússins þar.
Skagfirðingar höfðu staðið að rekstri hans frá 1883, en Húnvetn-
ingar höfðu á móti styrkt bændaskólann á Hólum.
Sagan endurtekur sig svo 1952. Þá hætti Vestur-Húnavatnssýsla
aðild að skólanum, en þá stóðu fyrir dyrum miklar og fjárfrekar
framkvæmdir. í þann mund var ríkið orðið eignaraðili og þátttak-
andi í rekstri, svo að viðbótarbagginn varð ekki eins tilfinnanlegur,
þótt verulega munaði um hann.
Enn valda fjármálin vanda. Áður er frá því sagt að stinga þurfi við
fótum við framkvæmdirnar. Orsökin er sú, að sýslusjóður hefir í
fleiri horn að líta hvað fjárfestingu snertir. En fullan hug mun skóla-
ráð hafa á því að þoka málum áfram, strax og aðstæður leyfa.
Stöðnun er alls staðar óæskileg, en hvergi verri þó en þar sem
unnið er að uppfræðslu og uppeldi.
Sá er munur á tilveru menntastofnunar og mannsævi, að þar sem
árin færa manninum hrörnun og afturför, úr því þroskaskeiði lýkur,
þá flytja þau skólanum æsku, — hann verður ætíð að vera jafn gamall
árinu, sem er að líða, og ætíð jafnfær um að sinna þeim kröfum, sem
nýr tími gerir.
Og það er einmitt þetta, sem mér virðist ganga eins og rauður
þráður gegnum sögu skólans.
Það var þetta, sem fólkið er að framan er nefnt, og allt hitt líka,
sem ekki var nefnt, hefir reynt að gera, — að halda honum ungum.
Eg fæ ekki betur séð en það hafi tekizt.
Gegnum 90 ára starf hefir hann verið hlutverki sínu vaxinn hverju
sinni. Nú er hann hefur göngu sína inn á síðasta tug sinnar fyrstu
aldar, er hann e. t. v. um flest starfhæfari og betur búinn en oftast
áður. Og á þessum tímamótum veit ég það vera ósk allra þeirra, er
veg hans vilja, að jafnframt því að eiga traustar rætur í fortíðinni, þá
finni framtíðin hann jafnan búinn til samfylgdar.