Húnavaka - 01.05.1970, Page 129
HÚNAVAKA
127
er Gísli kom heim erindisleysu. Var prestur fár við og hélt hægt
myndi að sækja vatnið. En í þessu ber að Elísabetu, systur hans, hafði
hún hlýtt á orðaskipti prests og vinnumanns. Tók hún málstað Gísla
bróður síns, en prestur vék eigi af þeirri skoðun, að fært mundi að
ná í vatnið. Snarast Elísabet þá inn í bæ, brá sér í karlmannsföt og
sveipaði ullarhyrnu um höfuð sér. Fór hún nú með Gísla að leita að
vökinni, en fennt var yfir hana. Höfðu þau með sér reku og föturnar.
Er þau höfðu fundið vökina, sagði Elísabet Gísla, að hann skyldi
standa á hægri barmi vakarinnar og hafa gát á vindáttinni. Mokaði
Elísabet upp vökina og deif fötunum í ána og færði vatnið upp í
skjólurnar. Kvaðst hún mundi bera föturnar, en hann skyldi hafa
rekuna og gæta áttarinnar. En með því að Gísli var sjóndapur, þá sá
hann eigi vel fyrir sér í hríðinni og hefur eigi sett á sig áttina sem
skyldi, því að nú tók hann öfuga stefnu og fór undan veðrinu. Héldu
þau yfir ána og villtust. Fóru þau suðvestur frá Hofi um Hofsland
og Skeggjastaða og niður flóann fyrir ofan bæinn Bakka. En eins og
oft vill verða, þá munu þau hafa gengið í hring á víðáttunni, enda
var þá flóinn allur uppbólginn og ísilagður milli þúfna. Þó varð
þetta hringsól þeim til gæfu, því að annars liefðu þau haldið beint
áfram niður á sjávarbakka, en þeir eru liáir við sjó fram, og á vetrar-
tíð með snjóhengjum í sjó niður. Fljótlega á göngu þeirra á víðáttu
flóans, skynjaði Elísabet, að þau voru rammvillt og sleppti þá vatns-
fötunum, enda fundust föturnar síðar rétt fyrir ofan Bakka. Um
síðir réð Elísabet því, að þau Gísli héldu beint í veðrið, en heldur
hafði veðrið lægt og rofaði aðeins til endrum og eins í himinhvolfið.
En þessa var full þörf, því að tekið var að dimma. Kom þar ferð
þeirra, að þau komu þar, er sáust áburðarhlöss á túni, er sýndi, að
þau voru í grennd við einhvern bæ. Líka fannst Elísabetu ljósi
bregða fyrir í sortanum, sem í glugga væri. Komu þau nú að skafli
og er þau gengu hann, þá hröpuðu þau niður af tóftarbroti. Var
það hús, er áreftið hafði verið tekið af um haustið. Elísabet var orðin
magnþrota í þessu harðviðri, enda komin langt á leið. Fannst henni
fósturhreyfingarnar all miklar, er hún settist niður í tóftarbrotið.
Henni leizt heldur eigi á, ef hún ætti að ala barn sitt þar undir
heiðum himni norðursins á klakabrynju vetrarskrúðans. Skipaði
hún Gísla að freista þess að ganga á ljósið, er hún þóttist hafa séð
og fá hjálp. Og með því að veðrið hafði lægt og hríðin orðið minni,
þá náði hann bænum, er voru Skeggjastaðir. Guðaði Gísli á glugga