Húnavaka - 01.05.1970, Page 139
HÚNAVAKA
137
Þegar ég hóf hestasöluna, voru það alveg sérstakar reglur, sem ég
setti mér. Ég hugsaði mér að stilla verðinu jafnan í hóf, segja eins
satt og rétt um hvern hest og mér væri unnt, og gera eins lítið og hægt
væri af hestaskiptum. Strax og ég fór að fara með hesta, fann ég
töluverðan þrýsting af því, að menn vildu hafa við mig hestakaup,
láta mig hafa hesta, sem þeim á einhvern hátt líkaði ekki við, og
vildu þá gefa í milli í von um að fá betri hest. Aldrei, nema einu
sinni, féll ég fyrir þeirri freistingu. Það var aðeins fyrir það, að mér
leizt strax svo gæðalega á hestinn, sem mér var boðinn. Mér fannst
sem ég sæi hann strax út sem upplagt gæðingsefni. Maðurinn sagði
mér, að hann hefði fengið þennan fola árið áður úr Skagafirði og
ætlað að nota hann til dráttar. Fljótlega hefði farið að bera á fælni í
honum, en lítið hefði hann reynt hann til reiðar. Ég gerði kaupin,
lét stólpagrip í staðinn, sem hann valdi sjálfur úr hópnum, og fékk
töluvert á milli.
Ég hélt síðan inn Árskógsströnd til Akureyrar og reið á Skjóna
við og við, smáspöl í einu. Ég fann strax, að hér var vaðandi töltari.
Er ekki að orðlengja það, að ég lét hann síðastan allra hestanna og sá
eftir lionum, því að hann var þá orðinn æstur fjörhestur með höfuðið
í fanginu á mér. Ég seldi hann sem reiðhest og tók vara fyrir því, að
hann yrði látinn fyrir drátt. Síðar frétti ég, að Skjóni hefði verið
seldur sem reiðhestur til Reykjavíkur og verið þar vel metinn.
Ég á margar góðar endurminningar af skiptum mínum við folana,
sem ég tamdi og seldi síðan. Oft tók ég það nærri mér að þurfa að láta
þá. Stundum frétti ég það eftir á, að sumum liestum hefði leiðst mjög
á nýja staðnum, og oft lögðu þeir til stroks, en oftast lagaðist þetta
með tímanum. Þó vissi ég um þrjá hesta, sem alls ekki undu sér. Tvo
hesta, sem þannig voru, keypti ég til þess að lofa þeim að komast heim
til sín aftur, en hvorugan þeirra hafði ég samt selt. Þegar heim kom
keyptu fyrri eigendur þá aftur.
Ég læt svo útrætt urn öll þessi mál. Ég held, að ég hafi yfirleitt
kynnt mig fremur vel, bæði sem kaupandi hér í sýslu og seljandi í
öðrum sýslum og á því aðeins góðar endurminningar um þau. En
mörg var erfiðisstundin og oft mikil áhætta. Þó eru það hreinar lín-
ur, að hrossauppeldið, og salan á þeim, fleyttu mér bezt yfir örðug-
asta hjallann í mínum búskap.
Fyrir nokkru er mest öll lífhrossasala innanlands lögð niður, nema
einstaka sporthestar eru seldir og keyptir, mest til Reykjavíkur. í