Húnavaka - 01.05.1970, Page 153
HÚNAVAKA
151
þar uppskorið ávexti góðsemi sinnar við hinn unga, munaðarlausa
dreng.
Þegar Júlíus var orðinn fulltíða maður, hóf hann félagsbúskap með
fóstra sínum og unnu þeir þannig um margra ára skeið saman í
mikilli eindrægni og samhug. Þeir bjuggu á ýmsum stöðum, bæði í
Svínavatnshreppi, t. d. á Grund og í Torfalækjarhreppi, lengst í
Meðalheimi, þar sem þeir voru allmörg ár. Búskapur þeirra var alltaf
rekinn með miklum snyrtibrag og var búfénaður þeirra jafnan vel
með farinn og afurðagóður. Eftir að Pétur andaðist árið 1946, brá
Júlíus fljótlega búi og fluttist frá Meðalheimi. Var hann eftir það á
ýmsum stöðum, svo sem Steinnesi, Öxl, Leysingjastöðum allmörg ár,
og síðast átti hann heimili á Geithömrum í Svínadal. Hafði hann
lengst af nokkuð af skepnum undir sinni hendi, heyjaði fyrir þær
á sumrin og hirti að vetrinum. Hafði hann mikið yndi af skepnum,
bæði sauðfé og hestum og kunni alveg sérstaklega vel með þær að
fara. Hygg ég, að nú í seinni tíð hafi ekki margir fyrirfundist, sem
stóðu honum á sporði hvað snertir fjármennsku og skepnuhirðingu
yfirleitt. Hann var hestamaður góður, laginn við að temja og átti
lengst af góða reiðhesta, enda lét hann sér ævinlega mjög annt um þá.
Mun honum liafa fallið þungt að skiljast við skepnur sínar, þegar
heilsan tók að bila og hann gat ekki lengur sjálfur sinnt um þær.
En Júlíus var ekki aðeins skepnuvinur mikill, en hann var líka
mannvinur og óvenju vinsæll hvar sem hann kynntist. Sem húsbóndi
átti hann hlýhug þeirra, sem hjá honum unnu og bar hag þeirra og
velferð fyrir brjósti. Ekki sízt átti það við um gömlu konurnar, þær
Helgu Guðmundsdóttur og Hólmfríði Erlendsdóttur, sem svo lengi
voru á heimili Júlíusar og Péturs. Mikil gestrisni ríkti þar ávallt
og var ekki víða öllu skemmtilegra að koma né hlýrra og glaðværara
viðmót. Minnist ég margra ánægjulegra stunda á heimili þeirra og
svo mun vera um ótal fleiri vini hans og nágranna. Hann var hinn
vandaðasti maður í öllum greinum. Aldrei heyrðist hann tala illa
um nokkurn mann eða leggja nokkrum misjafnt til. Ef til vill fannst
honum, að liann hefði ekki ástæðu til þess, svo vel sem hann var
kynntur meðal þeirra, sem hann hafði einhver samskipti við. Ég held
líka, að hann hafi aldrei neina óvildarmenn átt. Hann var prúður
í allri framkomu, áreiðanlegur í orðum og viðskiptum og hjálp-
samur og greiðvikinn eftir því sem í hans valdi stóð. Nutu þess ýms-
ir vinir hans og ættingjar.