Húnavaka - 01.05.1970, Page 169
HÚNAVAKA
167
að vinna og hún var svo vel gerð kona, að hún lét sig ekki mestu
skipta daglaunin að kveldi, né hvar lifað var, heldur hvernig lifað
var. Hún hefði sjálfsagt verið sammála skáldinu St. G. St.:
„Hvar sem mest var þörf á þér
þar var bezt að vera“.
Heilskyggnum mönnum finnst heimskulegt að sækjast mest eftir
fé og metorðum eða meta manngildi fólks eftir auði og stöðu. Allt
slíkt var líka fjarlægt þessari góðu konu. Hún lifði kyrrlátu, grand-
vöru lífi og kappkostaði að gera þann stað merkan, er hún lifði á
hverju sinni. Hún átti vináttu allra, er nutu verka hennar, og það
hefur áreiðanlega verið henni dýrmætasti sjóðurinn.
Um árabil var ég Steinunni samtíða á Þingeyrum um jólaleytið;
kynntist ég þá bezt mannkostum hennar, og eins og fyrr segir, mat
ég hana meira eftir því sem kynni urðu nánari. Við áttum margar
góðar stundir saman hjá vinum okkar á Þingeyrum, sem ánægjulegt
er að minnast. Ég veit, að fólkið á Þingeyrum, því þar var allt gert
til að gera gleðileg jól, hefur saknað Steinunnar um síðustu jól, þegar
hennar var ekki lengur von um hátíðirnar, og þaðan hafa henni
borizt hlýjar kveðjur.
Útför Steinunnar var gerð frá Þingeyrum. Fjölmenni var við út-
förina. Var það glöggur vottur þess hve vinsæl hún var. Margir höfðu
orð á því, að þar væri kvödd góð merkiskona.
I Guðs friði, Steinunn mín, og þökk fyrir vináttu þína við mig og
mína.
Reykjavík, 15. febrúar 1970.