Húnavaka - 01.05.1971, Blaðsíða 138
136
HÚNAVAKA
okkar. Sigurjón Jóhannesson á Laxamýri lánaði pabba kálflausa kú,
veturinn næsta þar á eftir, en hún var í lítilli nyt. Fengum við sinn
mjólkurbollann hvert. Ég blandaði mjólkurskammtinn minn með
miklu vatni og lét salt í, fann þá eigi til hungurs. Að sumrinu,
þegar fært var frá ánum, höfðum við næga mjólk, smjör og jafnvel
osta.
Þar sem að bú foreldra minna var lítið, en faðir minn átti góðan
dráttarhest, keyrði hann vörurn fyrir nágranna sína frá Húsavík.
Það var bæði löng og erfið leið, að minnsta kosti 6 tíma ferð og
yfir tvö vatnsföll að fara, Laxá og Skjálfandafljót. Var föður mínum
þetta starf mikil teknabót.
Árið 1896 fluttum við vestur að Skeggjastöðum á Skagaströnd.
Þar bjó síðar Árni Árnason frá Höfðahólum, kunnur maður. Átti
hann fyrir konu Ingibjörgu systur mína. Ári síðar fluttum við í
Réttarholt í Höfðakaupstað, gamlan torfbæ og hrörlegan. Þar dó
faðir minn og þá fór móðir mín sem bústýra til bróður míns.
Haustið 1900 hafði ég ákveðið að fara suður og læra sjómanns-
fræði, lét ég niður farangur minn og var ekkert að vanbúnaði. Árni
Árnason, er þá var fluttur að Höfðahólum, bað mig þá að fara til
séra Áma á Sauðárkróki, sem ég gerði. Þar var vinnukona, Helga
Þorbergsdóttir, frá Dúki í Sæmundarhlíð, f. 30. apríl 1884, er síðar
varð kona mín. Var þar með lokið fyrri ákvörðun minni að læra sjó-
mannafræði. Við giftum okkur 1902, þá til heimilis að Höfðahól-
um. Það gerði séra Magnús Runólfur Jónsson, prestur á Hofi á
Skagaströnd.
Við settumst að á Sauðárkróki, þar sem ég komst á samning um
að læra skósmíði og útskrifaðist þremur árum síðar í þeirri iðn. En
ég vann ávallt ýmiss störf, er til féllu, þegar tími leyfði. Ég tók
einnig þátt í verkalýðsmálum, en þá var verkalýðsfélag á Sauðár-
króki, stofnað 6. apríl 1903, og 50 árum síðar, er það minntist 50
ára afmælis síns, 6. apríl 1953, gerði það mig að heiðursfélaga. Það
er annars athyglisvert, að sama ár, 10. des. 1953, gerir verkalýðsfélag
Skagastrandar mig að heiðursfélaga á 20 ára afmæli sínu, en það
var stofnað 10. des. 1933 á heimili mínu, Garði, í Höfðakaupstað.
Og 10 árum síðar, á 30 ára afmæli verkalýðsfélags Skagastrandar,
er mér færð að gjöf bók með skrautrituðu þakkarávarpi fyrir unnin
störf í þágu verkalýðs.
Og svo bætir Jóhannes við, brosandi: