Húnavaka - 01.05.1983, Síða 48
46
HÚNAVAKA
leysti grænkaöi fljótt, og var dalurinn grösugur á sumrin og landgott
fyrir búfénað. Foreldrar mínir höfðu nokkrar ær í kvíum og svo höfð-
um við kýr og mun svo hafa verið á flestum heimilum. Við höfðum
alltaf nóga mjólk, skyr og smjör, einnig ber, því berjaland var frábært
á Laxárdal. Mikið var tínt af bláberjum og krækiberjum og þótti það
holl og góð fæða fyrir okkur börnin. Móðir mín hafði þann sið að
geyma nokkurn forða af berjum til vetrarins, og var það gert á þann
hátt að þau voru látin í tunnu saman við súrmjólk og þar geymdust
þau sem ný allan veturinn.
— Hvernig var með aðdrœtti úr kaupstað?
— Það voru engir vegir og vont að komast yfir að vetrinum, nema
þá helst á sleðum. Annars fóru bændur lítið í kaupstað á þeim tíma
árs, nema þá helst fyrir jólin. Faðir minn var oft tíma og tíma við róðra
á Skagaströnd vor og haust. Kom hann þá oft með nýjan fisk með sér
heim, en kornvara var stundum af skornum skammti þegar líða tók á
vetur. Við höfðum líka dálítinn silung úr ánni á sumrin, og var það
góð tilbreyting.
Yfirleitt höfðu flestir nóg að bíta og brenna, en ekkert fram yfir það.
Fjallagrös voru alltaf til á okkar heimili, en ekki man ég hvar þau voru
tínd. Þau voru til drýginda í sláturgerð, einnig soðin í mjólk og þá
notuð sem spónamatur.
Þegar ég var 12 ára hættu foreldrar mínir búskap á Vesturá og
fluttu til Sauðárkróks, en ég fór sem barnfóstra að Hvammi í Langadal
til hjónanna þar, Valgerðar Guðmundsdóttur og Frímanns Björns-
sonar. Þar var gott að vera og allir góðir við mig, en það skyggði á að
Valgerður lá í rúminu mestallt sumarið. Hún var svo flutt til Sauð-
árkróks og skorin upp og reyndist það vera sullaveiki sem að henni
gekk. Hún náði sér að fullu og varð fjörgömul. Auk þess að passa
drengina, var ég send með mat og kaffi á engjarnar. Þetta var mesta
myndarheimili. Um haustið fór ég svo til foreldra minna.
— Hvernig var með barnafrœðslu hjáykkur á Laxárdal?
— Við nutum góðrar kennslu. Kennarinn hét Halldór Halldórsson
frá Móbergi, síðar kaupmaður á Blönduósi. Hann var kennari í
Engihlíðarhreppi um þær mundir, sem ég var skólaskyld og fram að
þeim tima er ég fór til Sauðárkróks.
— Voru ekki viðbrigði að flytjast úr dalnum í kaupstað?
— Eg kunni strax vel við mig á Króknum. Þar gekk ég í barna-
skólann og höfðum við góðan kennara þar einnig. Ég var svo fermd