Húnavaka - 01.05.1983, Side 49
HÚNAVAKA
47
vorið 1903 frá Sauðárkrókskirkju. Meðal fermingarsystkina minna var
Sveinn Hannesson frá Elivogum, sem þjóðkunnur varð fyrir skáldskap
sinn.
— Hvaðafólk er þér minnisstœðast frá þessum árum?
— Eg kynntist ýmsu góðu fólki, en sérstaklega eru mér minnis-
stæðar tvær fjölskyldur, sem ég dvaldist lengst hjá í vistum. Það var
Kristján Gíslason kaupmaður og kona hans, Björg Eiríksdóttir frá
Blöndudalshólum. Þau áttu 5 börn hvert öðru mannvænlegra. Mér
var það mikil ánægja að fá systkinin í heimsókn eftir að ég fór að búa í
Hnausum.
Hin hjónin sem ég dvaldi hjá, voru þau Sigurður Pálsson læknir og
Þóra Gísladóttir. Þau áttu tvö börn, Láru og Pál, sem ég passaði
stundum. Sigurður læknir drukknaði í læknisferð í Ytri-Laxá árið
1910. Þá fluttist Þóra með börn sín til Reykjavíkur og komu þau
einnig í heimsókn til mín, eftir að ég fór að búa. Eg hafði mjög gott af
dvöl minni á þessum myndarheimilum, og bjó að því síðar á lífsleið-
inni.
— Hvert lá svo leiðin?
— Eg fór til Reykjavíkur 19 ára, en þar bjó þá eldri bróðir minn
Agúst og einnig foreldrar mínir. Það var lítil atvinna á Sauðárkróki
fyrir pabba, en meiri möguleikar fyrir sunnan. Ég fékk atvinnu á
Hótel ísland, við matreiðslu og seinna bauðst mér vinna á Klepps-
spítala sem aðstoðarráðskona. Þórhildur systir Bjargar á Sauðárkróki,
var yfirráðskona. Tókst með okkur mikil vinátta, sem aldrei bar
skugga á. Þórhildur var gift Magga Júl. Magnús lækni frá Klömbrum
og var hann seinni maður hennar.
— Eg hef heyrt þig minnast á ferð, sem þú fórst vorið 1912 norður í Húna-
vatnssýslu?
— Það var mjög algengt á þessum árum að fólk, sem þurfti að
ferðast milli landsfjórðunga, fékk að vera landpóstunum samferða.
Það hafði þá kosti að þeir gátu oft lánað fólki hesta og reiðtygi, því oft
var þetta lausafólk, sem átti hvorugt og var að fara í kaupavinnu eða
leita sér að vinnu. Stundum var það líka skólafólk, sem hafði dvalið í
Reykjavík að vetrinum, eða var að fara þangað utan af landi. I öðru
lagi var öllum talið vel borgið, sem voru í fylgd póstsins, því að þeir
voru flestir duglegir ferðamenn og létu hvorki veður né vatnsföll hefta
för sína. Hestar þeirra voru oftast mestu stólpagripir, ratvísir og dug-