Húnavaka - 01.05.1983, Page 57
MAGNÚS BJÖRNSSON, Syðra-Hóli:
Þáttur um Kirkjubæjarhjón
Halldóru Einarsdóttur og Jón Jónsson
Síðsumardag, þann 6. september 1957, kvaddi merk og mikilhæf
kona jarðvistina og þetta líf. Þá skein sól á tinda í norðlenskum
byggðum, yljaði búandmönnum og veitti þeim brautargengi við að
hirða síðasta heyfeng sinn eftir hagstætt og gjöfult sumar.
Þessi kona sem muna mátti tímana tvenna í eigin ævi og alþjóðar,
komin á tíræðisaldur, hlaut það hnoss að leiðarlokum, að sá er sólina
skapaði signdi geislastöfum heimkomu hennar á önnur tilverustig.
Hún var alin upp í íslenskum dalabyggðum, bóndakona í sveit fram
um sextugsaldur og átti löngum eins og stéttarsystur hennar allt sitt
undir sól og regni. Að lokum var hún langa stund eins konar gestur á
kaupstaðarmöl og enti þar aldur sinn.
Það var mikill veigur í þeirri kynslóð, er sleit barnsskóm sínum við
bjartsýni og sigurgleði íslenskrar þjóðar, er þáttaskilin urðu í sögu
hennar þjóðhátíðarárið 1874. Hún gekk ung og sterk út í hina miklu
eldraun harðinda og hrakfalla tímabilsins 1880-1887. Þá var ekki legið
á silki eða dansað á rósum, er almenningur mátti hafa sig allan við að
halda lífi og heilum sönsum.
Nú eru sem óðast að hverfa leifar þessarar kynslóðar, er fékk þol,
þrek og seiglu íslenskrar alþýðu í vöggugjöf og hertist í mannraunum
og átökum við erfið og óblíð lífskjör. Kynslóðin sú, er lifði meiri
byltingar og breytingar á þjóðlífsháttum, lífsvenjum og hugsunar-
hætti, en nokkur önnur í íslandssögu og lagði í lófa framtíðar dýrmætt
og vandgeymt gull fornrar menningar og skilaði lífgrösum þess hugs-
unarháttar, er best reyndist til bjargar hverjum einstaklingi og allri
þjóð að hver maður sé sinnar eigin gæfu smiður og skylt að gera ekki
minni kröfur til sjálfs sín en annarra.
Halldóra frá Kirkjubæ hvarf af sjónarsviðinu eftir langan vinnu-
dag. Hið mikla þrek, er henni var gefið til líkama og sálar, fjaraði út og