Húnavaka - 01.05.1983, Síða 59
HÚNAVAKA
57
því iðjusemi var þá talin með helstu dyggðum og unglingum ekki leyfð
mörg hjáskot. Þar þurfti Halldóra ekki áminninga né hvatningar við.
Hún var þegar frá barnæsku frábærlega vinnuhneigð.
Hún var með foreldrum sínum fram um tvítugsaldur og fluttist með
þeim vestur í Húnavatnsþing 1884 að Efri-Mýrum og síðan að Þor-
brandsstöðum, þar bjuggu þau Einar og Margrét til þess er Einar féll
frá 2. júní 1891. Þá var hann 77 ára gamall. Á undan Einari bjó á
Þorbrandsstöðum, Ólafur Ólafsson, skagfirskur maður og flutti nú að
Njálsstöðum. Bústýra hans var ekkja, er Guðbjörg hét Klemensdóttir.
Hún hafði verið gift manni þeim, er Jón hét Gunnarsson og bjuggu á
Syðstu-Grund í Blönduhlíð. Samvistir þeirra urðu skammar, Jón dó
eftir fárra ára hjónaband og áttu þau tvo syni barnunga, Jón og
Gunnar. Ekkjan baslaði fyrst við búskap, var síðan í húsmennsku uns
hún gerðist bústýra Ólafs. Synir Guðbjargar ólust upp með móður
sinni og voru fulltíða menn á Þorbrandsstöðum, vaskir menn og
skynsamir. Þarf ekki mörgum orðum frá því að segja, að þeir urðu
báðir tengdasynir Einars og Margrétar á Þorbrandsstöðum, Jón fékk
Halldóru, en Gunnar Guðríðar.
Jón og Halldóra hófu búskap á Sæunnarstöðum í Hallárdal og
höfðu til umráða hálfa jörðina. Þau settu saman með lítil efni og ekki
var hægt að segja að búskapur þeirra byrjaði með miklum fyrirheit-
um. Fyrsta ár búskapar þeirra var lokaár harðindanna miklu 1887. Þá
var almennt heyleysi og fjárfellir mikill um vorið. Reyndi þá mjög á
þrek og þol frumbýlinganna, því heylaus urðu þau sem flestir aðrir, en
fyrir einstaka elju og harðfylgi tókst þeim að bjarga skepnum sínum
flestum lifandi út úr fimbulhrinum veðra og snjóa þessa einstæða vors.
Frá Sæunnarstöðum fluttu þau vorið 1890 að Ytra-Hóli og eftir
þriggja ára búskap þar að Kirkjubæ í Norðurárdal. Þar bjuggu þau
síðan um þrjátíu ára skeið við risnu svo mikla, myndarskap og rausn-
arbrag að víðkunnugt var.
Hjónin í Kirkjubæ bjuggu á gamla vísu. Forsjá og fyrirhyggja sátu
þar í fyrirrúmi, oftast gnótt í búi heyja og matar, sem löngum þótti
einkenna farsæla búmenn, engu teflt í tvísýnu, aldrei lagt á tæpt vað í
neinu eða treyst á slembilukku bralls og brasks. Búið var aldrei stórt,
en það var arðsamt, mikið unnið allan ársins hring og elja og iðjusemi
frábær. Kirkjubæjarhjón kunnu ekki að sitja auðum höndum. En þótt
mikið væri unnið og verk félli sjaldan úr hendi, var ávallt tími til að
koma þeim til hjálpar, er vegna óhappa eða sjúkdóma komust í þröng