Húnavaka - 01.05.1983, Page 60
58
HÚNAVAKA
eða stóðu höllum fæti. Þá var oft skjótt og mannlega við brugðið. Og
ekki síður að sinna gestum, er að garði bar og þeir voru margir.
Gestrisni þeirra hjóna var frábær.
Lengi búskapar síns í Kirkjubæ bjuggu þau við þröng húsakynni, en
enginn virtist verða þrengslanna var. Frá húsbændunum stafaði ylur
sannrar og fölskvalausrar gestrisni og tíminn leið án þess að eftir væri
tekið við skemmtilegar viðræður og hnyttin og gáfuleg tilsvör. Á
umræðuefni var aldrei þurrð. Skrafað var um daginn og veginn,
fornan og nýjan skáldskap og farið með vísur og erindi, rifjaðar upp og
ræddar gamlar sagnir og metnar og gagnrýndar, hetjur og hvers-
dagsmenn í íslendingasögum. Svo gat húsbóndinn brugðið því fyrir
sig að ræða um „stafróf náttúruvísindanna“ og ekki síst stjörnufræði,
væri gesturinn ekki skynlaus á þá hluti og vildi umræðu.
Mjög voru þau samhent hjónin og þó býsna ólík um margt. Hall-
dóra var víkingur, skyldust kvenhetjum sögualdar, forn í skapi og forn
í máli, stórlynd og sterk í hverri raun og gædd fágætu þreki og
starfsorku og viljakrafti svo miklum, að allt varð undan að láta, enda
voru vinnuafköst hennar dæmafá, eigi aðeins meðan hún var á léttasta
skeiði, heldur allt fram á elliár. Undir stálbrynju sinni átti hún hjarta
trölltryggt og „viðkvæmt og varmt þó varirnar flytu ekki í gælum“.
Það vissu nágrannar hennar, vinir og þeir mörgu, er hún rétti hjálp-
arhönd í erfiðleikum og andstreymi.
Jón var að eðlisfari fíngerður maður og draumlyndur. Innst með
honum bjó listamannseðli, er hversdagslega bar lítið á, en samfara því
var hann gæddur rósemi og frábærri seiglu. Hann tók engin virki eða
vígi með áhlaupi, fór að engu óðslega og vannst þó vel, því hann var
bæði velvirkur og drjúgvirkur. Hann var hlédrægur og frábitinn því
að trana sér fram, sóttist ekki eftir vegtyllum eða vinfengi fyrirmanna
og var þó vinsæll maður. Fáir sáu honum bregða eða missa stjórn á
skapi sínu, en minnugur var hann þess, er til hans var gert, hvort sem
var vel eða illa. Hann var fljóttekinn en gleymdi aldrei gömlum vini og
þeir sem þekktu hann best virtu hann mest. Handtak hans var hlýtt og
mjúkt og maður fann að á bak við það stóð góður maður.
Bæði voru þau hjónin hagmælt vel og köstuðu oft fram tækifæris-
stökum. Þau höfðu miklar mætur á gömlum kveðskap og kunnu firnin
öll af vísum og kveðlingum. Gamlar sagnir og gamlar minningar voru
þeim hugstæðar. Þau sögðu bæði vel frá, hvort á sinn hátt og var um
skemmtilega tilbreytni að ræða, er þau skiptust á. Halldóra fór lítið