Húnavaka - 01.05.1983, Side 87
BJÖRN MAGNÚSSON:
Jóhann beri
Þegar ég var drengur, nokkru fyrir síðustu aldamót, heyrði ég oft
talað um Jóhann bera. Hann flakkaði sveit úr sveit og á milli lands-
fjórðunga, altekinn eirðarleysi. Stundum fréttist af honum suður í
Borgarfirði eða vestur í Dölum, suður í Árnes- og Rangárvallasýslum,
austur í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjar- og Múlasýslum.
Hann hafði búið búi sínu á Vigdísarstöðum í Línakradal, verið
giftur og átt tvo sonu, búið við góð efni, verkmaður góður og hagur á
hvað sem hann lagði hönd að. Glæsimenni og hinn mesti atgervis-
maður.
En svo varð hann herjaður af geigvænlegri hugsýki og skildi við
konu og börn og flæktist að heiman. Talið var að ástir í meinum hafi
raskað sálarró hans. Honum var komið til Jósefs Skaftasen í Hnausum,
sem þá var fjórðungslæknir og var hann þar um tíma, en fékk engan
bata. Þegar sýnt var að hverju fór um hagi hans, seldi konan jörðina og
réðst til Ameríku með sonu þeirra tvo, er þóttu efnilegir drengir.
Undarlegur þótti Jóhann í háttum, settist upp á bæjum án þess að
biðja um gistingu. Gengi inn í bæina óboðinn, heilsaði ekki eða yrti á
heimilismenn, gengi að auðu rúmi ef til var, legðist upp í það og lét þar
fyrirberast. Þægi ekki mat nema af húsfreyjunni og yrði hún þó að
bragða á honum fyrst svo að hann sæi. Hann óttaðist að maturinn
kynni að vera eitraður. Borðaði stundum á við tvo fyrsta daginn, en
síðan minna, svæfi aldrei í baðstofu, færi út þegar fólk fór að hátta og
lægi í gripahúsi, auðum fjósbás eða garða, eða úti að sumrinu þegar
gott var veður. Væri honum gefin flík og hann færi í henni heilli út að
kvöldi, var hún kannski rifin að morgni.
Margir trúðu því að hann flygist á við drauga á nóttunni og væri
svona útleikinn eftir þá. Aldrei vildi hann hlýða á húslestra, sem þá
var títt að lesa á hverju kvöldi að vetrinum.
Það bar við á bæ nokkrum um vetur, að menn voru komnir inn frá
hirðingu síðla dags. Portbyggt var á bænum. Stofa og „maskínuhús“