Húnavaka - 01.05.1983, Page 88
86
HÚNAVAKA
undir lofti, en baðstofa yfir, þar sem heimilisfólk sat við vinnu sína.
Konur kembdu og spunnu ull. Karlar unnu úr hrosshári reipi og
gjarðir og einn sat nærri ljósi og las sögu og aðrir hlýddu til. Heyrðist
þá gengið upp stigann og hleranum lyft og upp á loftið kemur maður
mjög hár vexti og mikill um herðar. Hann er ljós á hár og skegg,
bjartur yfirlitum og fríður sýnum. Ennið hátt og hvelft og augun blá
undir miklum brúnum. Hann er góðmannlegur en mjög þungbúinn
og raunalegur, eins og hann búi yfir leyndri sorg, sem hann verður að
bera einn en getur ekki trúað öðrum fyrir. Hann heilsar ekki, en litast
flóttalega um í baðstofunni og gengur að auðu rúmi og sest þar og
varpar mæðulega öndinni. Hann er illa til fara og yst fata í gulri
olíukápu. Slitnir leðurskór á fótum.
Hér er kominn Jóhann beri og er auðkenndur og hefur komið hér
fyrr. Húsfreyja þekkir kenjar hans, ber honum mat og mundu ekki éta
meira tveir menn. Hann gerir matnum góð skil og hrauð diskana.
Þakkaði ekki fyrir matinn, sem þó var almennur siður gesta. Húsfreyja
bar honum þurra sokka og skó; þáði hann hvorutveggja og ræddi ekki
um. Síðan hallaði hann sér útaf í rúminu og héldu menn að hann hefði
sofnað.
Nú leið að þeim tíma er lesa skyldi húslestur. Vinnumennirnir, tveir
ungir menn og allknáir, höfðu ráðgast um að nú skyldi Jóhann verða
að hlýða á lestur. Höfðu þeir látið kistu allþunga á hlerann og sest á
hana.
Bóndinn hóf nú húslesturinn. Er þá sem Jóhann hrökkvi upp með
andfælum, rís upp snögglega og snarast fram á gólfið og að hleranum,
þrífur í axlir vinnumannanna og varpar þeim frá sér, ýtir kistunni til
hliðar, opnar hlerann og þýtur niður stigann. Þetta gerðist í svo skjótri
svipan að varla varð auga á fest. Vinnumennirnir stauluðust á fætur
allsneyptir.
Þessi saga barst bæ frá bæ. Fýsti enga að glettast við Jóhann eftir
þetta. Enginn vissi afl hans, en talið var að hann væri heljarmenni að
burðum.
Mér var forvitni að sjá þennan dularfulla förumann og loks bar
fundum okkar saman norður í Svarfaðardal sumarið 1906. Eg hafði
ráðist að Bakka til Vilhjálms bónda Einarssonar til vor- og sumar-
verka.
Vilhjálmur leiddi mig til baðstofu eftir dimmum göngum, og er inn
kemur á gólfið verður mér litið til hægri í rúm, sem stóð undir hliðinni.