Húnavaka - 01.05.1983, Side 89
HÚNAVAKA
87
Situr þar öldungur flötum beinum og hafði stungið höndunum undir
lærin. Hann var mikilleitur í andliti, ennið hátt og hvelft, kjálkar
langir og sterklegir, hakan breið, nefið beint, augun blá og gáfuleg,
sköllóttur ofan á höfðinu, en hvíthærður og síðhærður, alskeggjaður,
en skeggið rytjulegt, hvitt á litinn. Hann sat mjög álútur, svo hakan
nam við bringuna. Hann var í nærfötum úr hvítu vaðmáli, en engri
ytri-skyrtu. Nærskyrtan var opin að framan eins og treyja. Bringan var
breið og hvelfd, loðin og hærð. Á kviðnum vottaði fyrir ístru.
Ég varpaði á hann kveðju og rétti honum höndina, en hann gegndi
ekki ávarpi mínu og leit ekki við mér. Eg gekk inn í innra húsið, og er
ég hafði tekið mér sæti, spurði ég bónda hver hann væri þessi
mikilúðlegi öldungur, er tæki ekki kveðju manna. Vilhjálmur sagði
mér að hann héti Jóhann, kallaður „beri“. Hefði hann komið að
Bakka fyrir þremur árum, um haust, í útsynningskrapaveðri, mjög
fáklæddur og illa skæddur og í oliukápu ystri klæða. Sagði hann för
sinni heitið vestur til Skagafjarðar yfir Heljardalsheiði. Bað hann
bónda um veturvist, sagðist ekki treysta sér yfir heiðina í misjöfnu
haustveðri og ekki orðinn fær um að hrekjast milli manna. Lofaði
hann greiðslu fyrir vistina, kvaðst eiga peninga hjá Karli Berndsen
kaupmanni á Hólanesi á Skagaströnd. Þetta reyndist rétt. Auk þess
lofaði hann styrk frá sonum sínum í Ameriku, átti hann af þeim
ljósmyndir og virtust það vera myndarmenn.
Vilhjálmur, sem var raungóður maður og höfðinglyndur, sá aumur
á þessum þjáða og langþreytta ferðalang, skaut yfir hann skjólshúsi.
Var hann þar um veturinn. Sumarið eftir varði hann tún og engjar.
Fór hann út á nærklæðum og æpti og hóaði á búpeninginn hárri og
sterkri rödd, voru skepnurnar mjög hræddar við hann. Um sláttinn
hjálpaði hann til við heyverk, tók jafnvel á móti heyi. Hann baðaði sig
hvern dag i ánni, sem rann við túnið, um sumarið, en á vetrum velti
hann sér allsnakinn upp úr snjó. Kvefaðist aldrei og var allhraustur.
Ég svaf í sama herbergi og karlinn um sumarið og urðum við brátt
góðir kunningjar. Naut ég afa míns Guðmundar Guðmundssonar í
Enniskoti, sem hann sagði að hefði verið góður kunningi sinn.
Um margt var hann einkennilegur í háttum. Aldrei snerti hann á
því sem aðrir áttu. Fyndi hann einhvern hlut úti við, sagði hann frá
honum og fylgdi manni þangað, sem hann lá. Ekki mátti snerta á
neinu, sem hann átti og hvergi koma við hann, stóð honum af þvi ótti.
Ekki var honum um að nefna menn eða staði réttu nafni. Þessi maður