Húnavaka - 01.05.1983, Síða 91
HÚNAVAKA
89
át hann fiskinn með roði og beinum. Varð mér starsýnt á hann þegar
hann tók harðfiskinn hægri hendi, þá vinstri hafði hann alltaf undir
lærinu, stakk honum undir jaxlana, sem allir voru heilir og sátu í
sterkum kjálkum, og kvörnin malaði og munnvatnskirtlarnir spýttu og
fiskurinn varð undan að láta þó harður væri undir tönn. Hníf notaði
hann aldrei, er hann át, og ekki skeið, hrærði hræringinn og mjólkina
saman og saup síðan. Nú þurfti húsfreyjan ekki að bragða á matnum.
Hjónin áttu tveggja ára stúlku, sem Jóhann hafði mikla elsku á.
(Hann var mjög barngóður). Þegar honum hafði verið færður matur,
kallaði hann á telpuna, tók um úlnlið hennar og lét hana káfa á
átmatnum, siðan dreif hann hönd hennar ofan í skálina. Sagði hann
að óhætt væri að éta það sem blessaður engillinn hefði farið höndum
um. Telpan hafði gaman af þessu og var óðara komin að rúmi hans
þegar honum hafði verið færður matur, til þess að rísla í honum.
Ljómaði þá andlit öldungsins, sem annars var ætíð svo raunalegt, af
glöðu brosi.
Sumarið leið að hausti. Ég hafði fengið þá ósk mína uppfyllta að sjá
Jóhann bera og kynnast honum og ég hafði ekki orðið fyrir vonbrigð-
um. Ég réðst að Bakka næsta sumar, en nú brá mér heldur í brún. Nú
lá Jóhann í rúminu og tók ekki höfuðið frá koddanum, orðinn mjög
óhreinn, því enginn mátti á honum snerta til að þrífa hann. Át og
drakk lítið, dróst út á nóttunni til þess að ganga örna sinna. Hann svaf
lítið framan af nóttu, barmaði sér og linnti ekki á fyrirbænum, altek-
inn örvæntingu um sálarheill sína. Utmálaði fyrir sér ógnir Helvítis og
taldi sér þar vísan samastað. Ég kenndi innilega í brjósti um vesalings
karlinn og leið illa að horfa upp á eymd hans og hlusta á einræður
hans, markaðar af ólýsandi sálarkvöl. Mér flaug í hug ljóð Þorsteins
Erlingssonar: „Ó kirkjunnar hornsteinn, þú Helvítisbál, þú hræðsl-
unnar uppsprettan djúpa, hve hæglega beygirðu bugaða sál, til botns
hverja andstyggð að súpa“. Ég fylltist beiskju út af því, hvernig kirkjan
hræddi trúaðar, einfaldar sálir í neyð þeirra og kröm, í staðinn fyrir að
hugga, gleðja og styrkja.
Ég sagði Jóhanni að ekkert Helvíti væri til, það væri tilbúið af
mönnunum og á móti lögmáli guðs, sem væri kærleikurinn. Jóhann
sannfærðist ekki af mínum röksemdum og tók ég þá upp annað lag. Eg
sagði honum að ef hann færi til Helvítis, færi ég þangað líka, allt
heimilisfólkið, allir íslendingar og allt mannkynið. Þá væri honum
ekki vandara en öðrum. En ekki lét hann sér segjast að heldur. Eg var
L