Húnavaka - 01.05.1983, Síða 113
HÚNAVAKA
111
sjómennsku undir handleiðslu föður síns í daglegum viðskiptum við
vind og báru.
Magnús fræðimaður Björnsson getur þess í frásögn af Páli Hjálm-
arssyni afa Stefáns, að áður en honum var sprottin grön var hann
orðinn formaður á skipi verslunarstjórans á Skagaströnd. Innan við
tvítugt var Stefán Benediktsson á Framnesi orðinn formaður á sex-
rónum bát, sem Benedikt Benediktsson átti og gerði út. Þá er það
snemma hausts að Stefán hefur lagt sína línu, það var logn, en jós upp
norðan brimi. Þegar hann er búinn að draga hálfa línuna, þá fara
fyrstu vindhviðurnar að gára öldutoppana. Þá sker Stefán á línuna og
segir mönnum sínum að seglbúa sem fljótast. Landsiglingin var
hættuleg, en heppnaðist. Svona var alla hans sjómannstíð. Stefán var
djarfur en aðgætinn og farnaðist alltaf slysalaust. Þegar hann hafði
aldur til fór hann suður með sjó til róðra og þegar hann hafði róið tvær
vertíðar úr Grindavík var hann orðinn formaður á stærsta og best
búna skipinu, sem Einar kaupmaður í Garðhúsum átti, og það sagði
mér sveitungi minn Páll Tómasson, að báðar þær vertíðir, sem hann
réri með Stefáni hefði komið fyrir að hann væri einskipa á sjó.
Eitt vor þegar Stefán kemur af vertíð ofan úr Grindavík ræður hann
sig á síldveiðar á togarann Skallagrím með Guðmundi Jónssyni, al-
þekktum afla- og gæðamanni. Um haustið að vertíð lokinni segir
Guðmundur við Stefán: „Nú ferðu í Sjómannaskólann,“ en Stefán
segist ekki hafa til þess peninga. „Þá skaffa ég,“ sagði Guðmundur. Þá
var sá vandi leystur og Stefán fór í skólann.
Nú var sjómennsku Stefáns lokið á opnum bátum, en togarar tóku
við, fljótt varð hann stýrimaður, en síðar skipstjóri og fórst hvoru-
tveggja vel úr hendi.
Nú var Stefán löngu hættur að hafa fátæktina fyrir fylgikonu. Hann
var giftur ágætri konu, átti með henni tvær dætur og var aflasæll
skipstjóri og hafði gnægð fjár handa í milli. En fátæktin var honum
ekki gleymd. Best mundi hann hana þó úr ferðinni frá Mjóafirði til
Sauðárkróks, þegar þau litlu systkinin voru að stjáklast um skipið og
fundu reykinn af réttunum þegar skipsmenn voru að matreiða handa
sjálfum sér, en þau höfðu bara fingurna að láta upp í sig og sjúga, eins
og þau höfðu svo oft orðið að gera áður. Eitt vor þegar Stefán kom að
sunnan kom hann með stóran sexróinn bát, sem hann átti og gerði út
um sumarið og haustið. Þar fór saman góður farkostur og mikilhæfur
formaður.