Húnavaka - 01.05.1983, Page 117
HÚNAVAKA
115
til á Hjálpræðishernum, meðan við dvöldum í höfuðstaðnum. Við
vorum rúma tvo daga í Reykjavík, fórum í bíó og skoðuðum bæinn og
í búðarglugga, allt var uppljómað, búðargluggar, hús og götur. Þarna
voru margir bílar á ferð þjótandi um göturnar og þá var siður að þeyta
bílflautur fyrir hvert götuhorn. Bróðir minn sagði að ég yrði að vara
mig á bílunum, þeir gætu keyrt á mig, mér fannst það skrítið, ekki
voru þeir þó mannlausir.
Sjömanna „drossía“ og ófærð
Á þriðja degi fórum við með Steindóri Einarssyni til Keflavíkur, en
hann hafði þangað áætlunarferðir tvisvar í viku með sjömanna
„drossíu“. Mikið hafði þá snjóað á Suðurlandi þótt aðeins væri fyrir
miðjan nóvember. Var lagt af stað eftir hádegi. Gekk ferðin allvel
suður fyrir Hafnarfjörð, þá fór færðin heldur betur að þyngjast. Urð-
um við oft að moka okkur gegnum skafla, en tæplega á miðri Vatns-
leysuströnd varð allt stopp og útilokað að komast lengra á bíl. Sagði
bílstjórinn okkur að nú yrðum við að ganga það sem eftir væri til
Keflavíkur. Ekki var um annað að ræða úr því sem komið var, en það
var nú æðilöng leið og torsótt að berjast í ófærðinni með dótið með-
ferðis. Klukkan var orðin tólf um kvöldið er við komum til Keflavíkur,
alveg örmagna og hungraðir því ekkert höfðum við fengið frá því við
lögðum af stað frá Reykjavík. En Guðmundur hafði hringt til hús-
bónda síns áður en við fórum svo hann vissi að við vorum á leiðinni.
Húsbændur Guðmundar voru Jón Eyjólfsson skipstjóri og Guðfinna
Benediktsdóttir, en húsbændur mínir voru Þórarinn, bróðir Jóns, og
Elínrós ljósmóðir, systir Guðfinnu. Þessar systur voru frá Breiðabóli á
Svalbarðsströnd við Eyjafjörð. í sama húsi á neðri hæð bjó Eyjólfur
Þórarinsson, faðir bræðranna, og kona hans, Guðrún Egilsdóttir.
Þessir feðgar áttu mótorbátinn Stakk, sem við bræðurnir vorum ráðnir
við, og fjórði eigandinn hét Gísli Sigurðsson, systursonur Eyjólfs
gamla. Hjá þessum eigendum átti ég eftir að vera átta vertíðir.
Vatn sótt í brunna
Starf mitt um haustið til áramóta var fólgið í því að sækja mjólk út
í Leiru annan hvorn dag, var það klukkutíma gangur hvora leið.
Einnig átti ég að sækja vatn í tunnur á handvagni fyrir heimilið. Tveir
L