Húnavaka - 01.05.1983, Side 118
116
HÚNAVAKA
voru brunnar þá í Keflavík, vatninu var dælt úr þeim í fötur sem voru
losaðar í tunnurnar. Þurfti ég að sækja á hverjum degi því holóttar
voru götur þá í Keflavík og vildi vatnið leita úr tunnunum á leiðinni
heim. Ég þurfti líka að læra að hnýta á öngla, setja upp línu, hnýta net
og bæta, eða undirbúa vertíðina sem kallað var, einnig varð líka að
koltjörubika bæði línu og bólfæri, fyrir utan ýmsa aðra snúninga.
Vertíðin byrjaði strax eftir áramót, þá hófust róðrar með línu, voru
þá fimm menn á sjónum og var Guðmundur einn af þeim. En sex
menn voru í landi við beitingu og fiskaðgerð, og var ég einn þeirra.
Línuvertíðin stóð yfir þar til í byrjun mars, þá hófst netavertíðin, stóð
hún til aprílloka, þá var aftur róið með linu. Á netavertíðinni voru tíu
menn á sjó og þar á meðal var ég, svo gerðum við allir að aflanum
þegar að landi kom. Báturinn okkar lagði upp afla sinn við svokallaða
Edinborgarbryggju, sem var austarlega í plássinu. Það var mjög slæm
bryggja, bæði brött og mjó. Þessa fyrstu vertíð mína í Keflavík, 1919,
var mikill snjóavetur og var því oft snjóþungt á bryggjunni og þeirri
leið, sem við urðum að fara með fiskinn á handvagni upp á planið þar
sem gert var að aflanum. Við urðum stundum að vera fimm menn
með vagninn þessa leið. Ekki man ég eftir neinum vörubíl þá í Kefla-
vík, en eitthvað voru notaðir hestvagnar og þar voru tveir eða þrír
fólksbílar. Ekki flaut Stakkur að bryggju nema hálffallið væri að, þó
var hann ekki nema 12-14 tonn. Varð þá að skipa upp afla á árabáti,
sem var mjög seinlegt og erfitt verk. Þegar búið var að gera að aflanum
var farið með lifrina á handvagni eða sleða langa leið í bræðsluna,
síðan langa leið í aðra átt með hrognin.
Aðgangseyrir ein króna
Oft var ég þreyttur og svefnlítill þegar miklar annir voru, fyrir
fimmtán ára ungling var þetta þrældómur. Það hjálpaði mér að ég
hafði alltaf nóg að borða og góðan mat, það hugsaði Elínrós vel um.
Ekki hefðu allar húsmæður gert það sem hún gerði, að vaka eftir mér á
kvöldin, þegar hún var ekki að sitja yfir konum, til að ná tjörunni af
höndunum á mér og þvo mér í framan. Hún sagði að engin mynd væri
á þvottinum hjá mér, ég væri hálfsofandi af þreytu, það gæti grafið í
mér ef ég þrifi hendurnar ekki vel.