Húnavaka - 01.05.1983, Page 119
HÚNAVAKA
117
Eftir að ég var farinn að kynnast, færði ég það í tal við Elínrósu, að
gaman væri að fara á dansskemmtun. Flestar skemmtanir voru þá á
vegum stúkunnar, sem var mjög fjölmenn í Keflavík. En þar fékk
enginn aðgang sem ekki var félagi, svo Elínrós ráðlagði mér að ganga
bara í stúkuna og gerði ég það. Þá kom heldur betur babb í bátinn.
Fermingarfötin mín voru orðin alltof lítil á mig og Elínrós sagðist ekki
láta mig fara í þeim á skemmtun. Hún fékk því lánuð föt handa mér í
næsta húsi, af pilti sem var eitthvað eldri en ég, fóru þau mér ágætlega.
Þessi föt fékk ég lánuð í hvert skipti sem ég fór á skemmtun. Að-
gangseyrir var ein króna og hana gaf Elínrós mér í hvert skipti, hún
sagði að þetta væri aukalega fyrir snúningana sem ég færi fyrir sig. Fór
ég oft á þessar stúkuskemmtanir fram að áramótum. Þær byrjuðu
venjulega með ýmsum skemmtiatriðum, svo sem leikþáttum og upp-
lestri, síðan var dansað á eftir. Einnig sótti ég að jafnaði stúkufundi á
sunnudögum. En eftir að vertíð byrjaði var lítið um skemmtanir, enda
höfðu menn þá um annað að hugsa.
Þegar kom fram í byrjun mars, færði Elínrós það í tal við mig, að nú
skyldi ég segja mig úr stúkunni, því ef ég bragðaði vín með félögum
mínum að norðan um lokin, þá væri gott að vera laus úr henni. Eg
gæti þá gengið í hana aftur næsta haust, ef ég yrði þá í Keflavík.
Skrifaði hún fyrir mig úrsögn sem ég fór með heim til æðstatemplars,
en aldrei gekk ég í stúku eftir það.
Sumir gerðu sér dagamun
Loksins rann upp hinn langþráði lokadagur 11. maí. Gerðu þá
sumir sér svolítinn dagamun, en ekki hefði komið að sök þótt ég hefði
orðið kyrr í stúkunni. Eins og ég hef áður sagt þá var ég ráðinn fyrir
250 krónur yfir vertíðina, en Þórarinn greiddi mér 360 krónur með því
skilyrði að ég kæmi til sín aftur næsta haust og þá skyldi ég fá fullt
kaup 500 krónur, og gekk ég að því. En ekki er ég grunlaus um að
Elínrós hafi átt einhvern þátt í því, að ég fékk meira kaup en ég var
ráðinn fyrir. Mér fannst ég alltaf njóta þess hjá þeim systrum, að ég var
að norðan eins og þær. En mikið varð ég glaður að fá þetta kaup, og
vera ráðinn næsta vetur og það fyrir fullt kaup, þá aðeins sextán ára.
Við fórum á lokadag með mótorbát til Reykjavíkur. Þar var dvalið í
rúma tvo daga á meðan verið var að kanna ferðir. Við vorum ellefu
vertíðarmenn sem ætluðum norður, flestir úr Nesjum og af Skaga-