Húnavaka - 01.05.1983, Page 121
HÚNAVAKA
119
morguninn áður en lagt var af stað. Næturgreiðinn kostaði aðeins 3
krónur á mann. Við vigtuðum allir pokana um morguninn, sá léttasti
var 5 kg, en sá þyngsti var 23 kg. Minn poki var 16 kg og það fannst
mér þung byrði að bera dag eftir dag, eins og gangfærið var.
Feginn þegar ég sá Norðurland
Enn seig halarófan af stað og nú var Holtavörðuheiði framundan,
það var talinn tæpur tveggja tíma gangur fram að heiðarsporði, en við
vorum eitthvað á fjórða tíma. Nú var ég mjög hress og bar minn poka
eftir þetta. Það var sígandi bratt og seinlegt að komast upp á heiðina,
alltaf var sama ófærðin og varla sá í dökkan díl. Við áðum stutta stund
í sæluhúsinu og héldum síðan ferðinni áfram. Mikið varð ég feginn
þegar loks tók að halla norður af heiðinni og maður sá Norðurland.
Þegar kom í Hrútafjörð skiptum við okkur á þrjá bæi til gistingar,
vorum við fimm í Hrútatungu, en hinir skiptu sér á tvo næstu bæi
utar. Alltaf hafði verið stillt og gott veður síðan við fórum að sunnan,
en þessa nótt í Hrútafirði gerði asahláku með sunnan stormi. Ekki
lagaðist gangfærið við það, nú urðum við að ösla í aur og krapi.
Næsta dag var haldið út Hrútafjörð og yfir hálsinn að Staðarbakka.
Þar fengum við okkur ferjaða yfir Miðfjarðará, en svo var haldið yfir
Miðfjarðarháls að Galtanesi, sem er nokkuð framarlega í Víðidal, og
þar gistum við allir. Næsta dag vorum við ferjaðir yfir Víðidalsá, síðan
haldið út Víðidal og Þingið að Stóru-Giljá, þar sem við gistum. Eg vil
geta þess, að næturgisting kostaði hvergi nema tvær krónur á mann,
eftir að við komum norður fyrir Holtavörðuheiði, og var það lítið fyrir
alla þá þjónustu sem við fengum. Næsta morgun skildi Grímur Laxdal
við okkur, en við þessir tíu fórum út á Skagaströnd og Kálfshamarsnes,
og ég út að Hvammkoti, þar með var lokið þessari löngu ferð, sem tók
okkur sex daga frá Reykjavík.
Nú var lokið fyrstu suðurferð minni á vertíð á Suðurlandi. Það
fannst mér merkilegt, að þegar heim kom að Hvammkoti, var ekki ein
einasta nögl eftir á tánum á mér. Ekki hafði ég hugmynd um hvenær
þær losnuðu af, ég fann aldrei neitt til í fótunum enda voru tærnar
oftast dofnar af kulda og aldrei blæddi úr þeim. Þó hygg ég að
neglurnar hafi losnað í aurnum og krapavaðlinum, blessaðar stúlk-
urnar hafa bara tínt þær úr sokkunum mínum. Hvort fleiri hafa orðið