Húnavaka - 01.05.1983, Page 137
HÚNAVAKA
135
Við Bjarkarlund er áð um stund. Þorskafjörður, burðarstaður Matt-
híasar, hverfur sjónum á brattri brún Þorskafjarðarheiðar. Sól skín í
heiði og fær ferðalanga til að gleyma vondum vegi, enda útsýn mikil
og fögur hér uppi.
Brátt hallar niður í Langadal, Isafjörður kemur í Ijós, inn með
Arngerðareyri, fram hjá Laugabóli. Yfir Hestkleif að Botni í Mjóa-
firði, út að Ögri, fyrir Skötufjörð, inn Hestfjörð. Þar er ný brú, en
enginn vegur. Jeppi kippir okkur yfir ána. Það er þegar kvöldsett. Við
Fjarðarhorn í Seyðisfirði er slegið tjöldum.
Árla er skriðið úr svefnpokunum og góðu veðri fagnað þann 9.
ágúst. Klukkan 9 er haldið af stað, fyrir Álftafjörð um Súðavík. Gerður
er stuttur stans við kirkjuna innst í þorpinu. í henni vann Kjartan sitt
fermingarheit. En fátt fleira dvelur í Súðavík. Hjá Neðri-Arnardal
kemur ísafjörður ísjónmál. A ísafirði tekur Guðmundur Marinósson á
móti okkur.
Um tiuleytið er sest að rjúkandi kaffiborði með miklu og margvís-
legu meðlæti. En báturinn bíður við bryggju. Hinn ágæti gestgjafi
kvaddur, hafurtask allt á skip borið og landfestar leystar.
I glampandi sólskini er haldið út fjörðinn, Hnífsdalur á bakborða,
þá Óshlíð, Bolungarvík og Stigahlíð. Og áfram yfir Djúpið siglir Pétur
refaskytta og náttúruunnandi, farkostinum. Fyrir Grunnavík, þar er
Staður og Gathamar inn með Staðarhlið. Út sér með Grænuhlíð og
upp á Sléttu. Þar var eitt sinn búið stórt. Stefnan er tekin á Veiði-
leysufjörð. Lásfjall og Marðareyrarfjall á bakborða, Kvíarnúpur á
stjórnborða.
Litlu innan við eyðibýlið Steinólfsstaði er rennt upp að landi og
lagst. Ferðalangar tína hafurtask sitt í léttbátinn og róa í land, Pétur
kvaddur og þökkuð fylgdin. Hann mun bíða okkar í Hestfirði klukkan
13 hinn 16. ágúst.
Nú er klukkan 15 og enn er sama dásamlega veðrið. Hér hefst
ævintýrið, lausir við umheiminn, útvarpslausir, aðeins með nauðsyn-
legar vistir. Gist verður í sæluhúsum.
Við njótum kyrrðarinnar hér við fjarðarbotninn um stund, fáum
okkur bita og lagfærum búnað okkar. En ekkert droll, að Búðum í
Hlöðuvík er ætlað að ná í kvöld. Byrðar eru axlaðar og haldið á
brattann. Ekki sér héðan í Hlöðuvíkurskarð. Fyrst er undirlendis-
ræma, lyngi vaxnar mómýrar, síðan allbrött brekka upp með Lón-
horninu.