Húnavaka - 01.05.1983, Side 174
172
HÚNAVAKA
fluttu þá systkinin burt af jörðinni. Skömmu síðar lagðist svo jörðin í
eyði. Þetta var á kreppuárunum og Hrafnabjörg fremsti bærinn í
dalnum. Voru þetta ekki örlög þeirra flestra, fremstu bæjanna? En
Hrafnabjarga biðu önnur öllu óvenjulegri örlög, það að verða endur-
reist af myndarskap löngu seinna. Það gerði Gústav, bróðir Jósafats,
skrifstofustjóri í Reykjavík, og sýnir það betur en nokkuð annað tryggð
þeirra systkina við æskuheimilið og dalinn.
Jósafat stundaði nám við Laugarvatnsskóla í tvo vetur 1933-35, en
næstu árin stundaði hann ýmsa algenga vinnu, þar sem best bauðst.
Árið 1944 hinn 8. apríl kvæntist hann, eftirlifandi konu sinni, Ingi-
björgu Pétursdóttur frá Lækjarbakka á Skagaströnd, prýðiskonu, og
bjuggu þau meðal annars á Skagaströnd fyrstu árin. Nú virtist lífið
brosa við ungu hjónunum. „En fallvalt er flest í heimi, fátt það sem
treysta má“. Árið 1946 veiktist Jósafat af lömunarveiki og eftir langa
og erfiða sjúkdómslegu var annar fótur hans lamaður upp í mjöðm. —
Enginn nema sá sem reynt hefur getur sett sig í hans spor þá, slíkt var
áfallið. Ungur fjölskyldumaður, efnalítill með lamaðan fót, á þeim
tíma sem almennar tryggingar eru rétt aðeins að hefja göngu sína.
En þau gáfust ekki upp ungu hjónin. Þau settust að á Blönduósi,
þar sem þau bjuggu svo upp frá því. Ingibjörg gerðist ráðskona á
sjúkrahúsinu og hann fór að geta unnið nokkuð eftir að hann fékk
umbúðir um lamaða fótinn. Vann hann við húsamálun, hárskurð og
fleira. Þannig var barist en aldrei gefist upp. Laust fyrir 1960 kom það
í minn hlut að sjá um skólamál hér í sveitinni, meðal annars að ráða
kennara í farkennslu eins og þá var hér. Leitaði ég þá fljótlega til
Jósafats, sem þá hafði í nokkur ár fengist við kennslu barna á
Blönduósi. Varð það úr að hann tók að sér kennsluna og hélt því starfi
þar til Húnavallaskóli tók til starfa 1970. Fljótlega upp úr því fékk
hann fast starf á skrifstofu K.H. á Blönduósi, þar sem hann vann til
hinsta dags. Má því segja að síðari ár ævi hans hafi orðið bærilegri en
á horfðist um skeið. Hann lést á Héraðshælinu á Blönduósi mjög
snögglega hinn 6. apríl sl.
Þau Jósafat og Ingibjörg eignuðust fjögur mannvænleg börn, sem
öll eru uppkomin og til góðra starfa, en þau eru: Jón Ingi rafmagns-
verkfræðingur kvæntur Öldu Sigurmarsdóttur, Sigvaldi Hrafn skrif-
stofumaður kvæntur Guðfinnu Eggertsdóttur, Jónína Guðrún hús-
móðir gift Bjarna Arthúrssyni og Pétur símvirki ókvæntur. Barna-
börnin eru orðin sex.