Morgunblaðið - 12.06.2015, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 12.06.2015, Blaðsíða 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. JÚNÍ 2015 VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Það ríkir algjört óþol fyrir femín- isma og hvers kyns umræðu um kynjajafnrétti í Danmörku. Þær fáu konur sem á opinberum vettvangi ræða jafnrétti kynjanna verða fyrir aðkasti, hótunum og þöggunartilburð- um. Skilaboðin sem við fáum eru mjög skýr – við eigum að halda kjafti!“ seg- ir danski rithöfundurinn, bókmennta- gagnrýnandinn og samfélagsrýnirinn Leonora Christina Skov. Hún er einn fjögurra frummælenda á málþingi sem Norræna húsið efnir til í sam- vinnu við danska sendiráðið á Íslandi og Reykjavíkurborg til þess að minn- ast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna bæði í Danmörku og á Íslandi á þessu ári. Málþingið fer fram í Nor- ræna húsinu í dag kl. 17.00-18.30 og er hluti af dagskrá sem nefnist Fundur fólksins og hófst í Norræna húsinu í gær. Auk Skov flytja þær Sóley Tóm- asdóttir, forseti borgarstjórnar í Reykjavík, dr. Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Ís- lands, og Gerður Kristný rithöfundur erindi, en fundarstjóri er Charlotte Bøving, leikkona og leikstjóri. Óviðunandi fordómar „Sjálf kynntist ég ekki femínism- anum fyrr en að stúdentsprófi loknu þegar ég flutti að heiman og hélt til Kaupmannahafnar í nám,“ segir Skov, sem ólst upp í millistéttar- fjölskyldu í bænum Helsinge þar sem hún var eina barn foreldra sinna. Skov segist aðeins hafa verið sjö ára þegar hún gerði sér ljóst að hún vildi verða rithöfundur þegar hún yrði stór. Eftir stutt stopp í sálfræðinámi ákvað Skov, við litla hrifningu fjöl- skyldu sinnar, að læra bókmennta- fræði. „Þar gafst mér tækifæri á að lesa fjöldann allan af bókum eftir kon- ur og þá gerði ég mér ljóst hversu ein- hæfar þær kvenkyns fyrirmyndir sem ég hafði alist upp við voru, auk þess sem ég áttaði mig á því að þeir for- dómar og kröfur sem gerðar höfðu verið til mín sem konu væru óvið- unandi,“ segir Skov, sem kom ung út úr skápnum og hefur valið að eignast ekki börn, en fyrir þá ákvörðun sína hefur hún orðið fyrir aðkasti. „Í framhaldinu hellti ég mér út í umræðuna og jafnréttisbaráttuna með það að markmiði að bæta sam- félagið,“ segir Skov, sem m.a. rit- stýrði bókinni De røde sko – Fem- inisme nu sem út kom árið 2002. „Viðmótið sem ég mætti á þeim tíma hjá löndum mínum var að formlegu jafnrétti hefði verið náð með baráttu rauðsokkanna og ef eitthvað væri að væri það bara konum sjálfum að kenna þar sem þær vildu ekki komast til valda og kysu frekar að vera heima að sinna börnum en eigin frama. Árið 2002 var ég sannfærð um að ég gæti haft jákvæð áhrif á þjóðfélagsumræð- una í Danmörku og stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna en ég verð því mið- ur að viðurkenna að á sl. 13 árum hef- ur staðan bara versnað,“ segir Skov og er ómyrk í máli um stöðuna í heimalandi sínu. Spurð hverju hún myndi vilja breyta í dönsku samfélagi til að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna hugsar Skov sig vandlega um og svarar svo: „Ég vil festa í lög að fæðingarorlof skiptist jafnt milli kynja því ég er sannfærð um að það sé ein áhrifarík- asta leiðin til að vinna gegn 20% óút- skýrðum launamun kynjanna í Dan- mörku. Ég vil innleiða kynjakvóta jafnt í stjórnum fyrirtækja sem og í stöðum háskólakennara. Mér finnst eðlilegt að sú krafa sé gerð til opin- berra fjölmiðla sem reknir eru fyrir ríkisfé að kynjahlutfall viðmælenda og álitsgjafa sé jafnt. Síðast en ekki síst vil ég að tekið sé mun harðar á hatursfullri orðræðu og hótunum, því að eins og staðan er í dag eru lögin gagnslaus,“ segir Skov, en þar talar hún af eigin reynslu. Líkt og margar aðrar konur sem haft hafa sig í frammi í jafnréttisumræðunni í Dan- mörku hefur hún orðið fyrir hótunum og einnig lent í eltihrelli. Hótað lífláti og nauðgunum „En lögreglan virðist ekkert geta gert til að vernda borgarana fyrir slíku ofbeldi nema hreinlega líf liggi við,“ segir Skov og rifjar upp að seint á síðasta ári hafi henni ásamt öðrum konum sem verið hafa áberandi í þjóð- félagsumræðunni verið boðið að taka þátt í sjónvarpsverkefni á vegum DR2 þar sem beina átti sjónum að þeim hótunum sem þær hafi fengið. „Mér var ásamt fleiri konum boðið að lesa upp í sjónvarpi brot af þeim hót- unarbréfum sem mér hafa borist. Þetta eru bréf þar sem mér er m.a. hótað lífláti og nauðgunum,“ segir Skov og tekur fram að hún hafi af- þakkað boðið. „Mér fannst þetta ekki góð hugmynd og í ljós kom að þó að tilgangurinn hafi kannski verið góður reyndist útkoman skelfileg. Sem dæmi birtu dagblöð í framhaldi af út- sendingunum flennistórar myndir af umræddum konum þar sem hótan- irnar sem beinst höfðu gegn þeim voru prentaðar yfir andlit þeirra með mjög ósmekklegum hætti,“ segir Skov og viðurkennir fúslega að erfitt hafi reynst að halda baráttuþrekinu undir stöðugum hótunum um ofbeldi. „Verst finnst mér þó að bækur mín- ar hafa fengið ómaklega útreið, enda virðist sjálfsagt að gefa út veiðileyfi á þær örfáu konur sem hafa sig í frammi í jafnréttisumræðunni. Þær eru gerðar að grýlum sem hljóti að hata alla karla,“ segir Skov og rifjar upp að útgefendur hennar hafi marg- sinnis hvatt hana til að hafa sig ekki mikið í frammi í jafnréttisumræðunni til þess að eyðileggja ekki sölumögu- leika bóka hennar og draga úr líkum á neikvæðri gagnrýni. „Fyrir þremur árum, eftir að hafa verið áberandi í umræðunni í um ára- tug, valdi ég loks að halda kjafti og lokaði m.a. Facebook-síðunni minni. Og viti menn. Nýjasta bók mín fékk mun jákvæðari gagnrýni en fyrri bækur mínar, þó að ég geti fullyrt að hún standi þeim ekki framar,“ segir Skov og tekur fram að hún sé ekki eini kvenkyns rithöfundurinn sem séð hafi þann kost vænstan að halda kjafti. Bendir hún á að Hanne Vibeke Holst, sem sé mikill femínisti og verið hafi virk í jafnréttisumræðunni, hafi ekki tjáð sig um þau málefni síðan hún fékk vægast sagt neikvæð við- brögð við grein sinni sem birtist í danska dagblaðinu Politiken árið 2004 og fjallaði um kynjamisrétti í dönsku rappi. Í greininni gagnrýndi Holst m.a. orðfæri rappara sem gætu ekki talað um konur öðruvísi en að kalla þær „hórur“ og „tíkur“ auk þess sem hún velti upp þeirri spurningu hvort mikil fjölgun hópnauðgana væri bein afleiðing af klámvæðing- unni. Réttindi geta tapast „Ég hef valið að eignast ekki börn og því má segja að bækurnar mínar séu börnin mín. Mér sárnar þegar þær eru ekki metnar að verðleikum heldur rakkaðar niður af karlkyns gagnrýnendum sem virðast hand- valdir af ritstjórum viðkomandi fjöl- miðla til að níða af mér skóinn vegna skoðana minna á jafnréttismálum. Þessir rýnar gera sig seka um að fara í manninn og ekki boltann, því að yf- irleitt eyða þeir mestu púðri ritdóma sinna í að rakka mig niður sem per- sónu í stað þess að greina bækur mínar á faglegum forsendum,“ segir Skov og bendir á að nýjasta bók hennar, sem kom út eftir að hún fór að halda kjafti, hafi hins vegar nær undantekningarlaust verið gagnrýnd af konum og hlotið glimrandi góðar viðtökur. „Enn sem komið er hef ég valið að halda kjafti og taka ekki þátt í jafn- réttisumræðunni í heimalandi mínu, þó að ég sakni þess oft og finnist sorglegt að ég, ásamt fjölda annarra kvenna, velji að halda kjafti um jafn þjóðfélagslega mikilvægt mál og jafnrétti kynjanna. Það hryggir mig að sjá að staða jafnréttismála fer versnandi í Danmörku. Konur þurftu að berjast með kjafti og klóm fyrir auknum réttindum á borð við kosn- ingaréttinn á sínum tíma. En réttindi geta auðveldlega tapast ef við erum ekki stöðugt á verði,“ segir Skov. „Við eigum að halda kjafti!“  Danski rithöfundurinn og samfélagsrýnirinn Leonora Christina Skov segir algjört óþol fyrir fem- ínisma ríkja í heimalandi sínu  Konur sem þátt taki í umræðunni verði fyrir aðkasti og hótunum Morgunblaðið/Styrmir Kári Áhyggjuefni „Það hryggir mig að sjá að staða jafnréttismála fer versnandi í Danmörku,“ segir Leonora Christina Skov. „Ég hef aldrei skrifað femíníska bók – ekkert frekar en ég hef skrifað lesbíska bók,“ segir Leon- ora Christina Skov og tekur fram að hún beini yfirleitt ekki sjónum sínum að þjóðfélagsvandamálum í bókum sínum. „Ég hef miklu meiri áhuga á siðferðilegum klípum og persónulegum vandamálum,“ seg- ir Skov, sem sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu árið 2003 sem nefnist Rygsvømmeren. Síðan hafa fjórar skáldsögur bæst við, þ.e. Champagnepigen (2007), Silhuet af en synder (2010), Førsteelskeren (2012) og Hvor intet bryder vinden (2015) auk þess sem Skov skrifaði barna- bókina Glashuset (2008) og endurskrifaði Lísu í Undralandi (2006) með sínu nefi. Jafnframt ritstýrði hún De røde sko – Fem- inisme nu (2002) og gaf út Ske- letter i skabet – en kritisk intro- duktion til queer teori, postfeminisme og dekonstruktion (2005) sem byggir á meist- araritgerð hennar í bókmennta- fræði. „Sumir gagnrýnendur hafa fall- ið í þá gryfju að lesa allar bækur mínar með femínískum gler- augum. Þannig að þegar ég í Førsteelskeren skrifaði um mis- heppnaðan og útbrunninn rithöf- und sem var ekki sérlega geðfelld- ur drógu rýnar þá ályktun að það væri vegna þess að ég hataði alla karlmenn,“ segir Skov og bendir á að hún hafi líka skrifað um vondar konur, en þá sé hún aldrei ásökuð um að hata allar konur. „Eitt uppáhaldsumfjöllunarefni mitt er vondar mæður. Ein slík móðir birtist í Silhuet af en syn- der, sem skrifuð er í gotneskum stíl,“ segir Skov, en í bókinni er sögð saga Nellu og þeirra fjöl- skylduleyndarmála sem íbúar kastalans Liljenholm á Suður- Sjálandi burðast með á þriðja ára- tug síðustu aldar. „Meginmarkmið mitt í Første- elskeren var að gagnrýna bóka- bransann og þá ofurhrifningu sem þar ríkir á höfundum sem skrifa sjálfsævisögulegar bækur. Aðal- persóna bókarinnar, Nat Kaminski, er útbrunninn sem höfundur eftir að hafa um árabil bara skrifað sjálfsævisögulegar bækur.“ Spurð um nýjustu bók sína, Hvor intet bryder vinden, sem ger- ist í samtímanum, segir Skov um glæpasögu að ræða sem sé inn- blásin af bókum Agöthu Christie. „Í bókinni býðst sjö dönskum lista- og fræðimönnum ókeypis vinnuaðstaða um eins mánaðar skeið á óbyggðri eyju sem nefnist Stormø. Þar eru þau algjörlega sambandslaus við umheiminn og komast ekki burt fyrr en að um- sömdum tíma liðnum. En þegar einn úr hópnum hverfur í skóg- inum og annar finnst myrtur átta þeir sem eftir eru sig á því að ekki er allt með felldu,“ segir Skov. Spurð hvort hún sé farin að leggja drög að næstu bók víkur Skov sér undan svari en segir svo: „Á einhverjum tímapunkti langar mig að skrifa um þá þöggunar- tilburði sem ríkja í samfélaginu í dag þegar kemur að jafnréttis- umræðunni, en ég efast um að það verði alveg strax.“ Siðferðislegar klípur heilla HRÍFST AF GOTNESKUM STÍL OG VONDUM MÆÐRUM

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.