Læknablaðið - 01.09.2015, Page 24
412 LÆKNAblaðið 2015/101
sjúklingum voru 25% greindir með hana.4 Húð skriðlirfusýki stafar
af undirtegund kengorma (hookworms) sem kallast Ancylostoma bra-
ziliense. Þar sem þessir kengormar eru ekki náttúruleg sníkjudýr í
mönnum heldur í hundum og köttum, skríða þeir undir efsta yfir-
borði húðarinnar en komast ekki dýpra niður. Þetta útskýrir nafn-
giftina, húðskriðlirfusýki, því að ormarnir geta hreyft sig undir
húðinni sem gerir það að verkum að útbrotin aukast eða lengjast.5-7
Þannig veldur lirfan í langflestum tilfellum ekki neinum skaða
heldur einungis óþægindum sem geta þó verið ansi hvimleið fyrir
sjúklinginn.
Þeir sem eru taldir í mestri hættu á að fá húðskriðlirfusýki eru
börn, sundfólk og verkamenn sem búa á svæðum þar sem lirfan er
landlæg. Lirfuna er helst að finna í jarðvegi eða í sandi í hitabeltis-
löndum. Ferðamenn sem ferðast til Afríku, Suðaustur-Asíu og
Karabíska hafsins eru líklegastir til að sýkjast af lirfunni en einnig
geta þeir sem ferðast til Mið- og Suður-Ameríku sýkst. Flest tilvik
greinast þó í Asíu og í Kína er talið að um 190 milljónir manna séu
sýktir en lirfan er einnig landlæg í Suðurríkjum Bandaríkjanna
og Flórída.8
Sjúklingurinn í þessu tilfelli hefur líklega komist í snertingu
við lirfuna á strönd annaðhvort í Tælandi eða Kambódíu. Þótt ekki
sé vitað um mörg tilfelli húðskriðlirfusýki á Íslandi er mikilvægt
að læknar þekki einkenni þessarar sýkingar og hafi það hugfast
þegar sjúklingar leita þeirra eftir dvöl í hitabeltislöndum.
Klínísk greining á húðskriðlirfusýki byggist á tveimur þáttum.
Í fyrsta lagi á aðaleinkenninu „creeping eruption“ og í öðru lagi
sögu um dvöl þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Skilgreiningin
á „creeping eruption“ eru för í húðinni sem eru línuleg, upphleypt,
roðakennd og hreyfanleg (mynd 2). Þetta einkenni finnst þó í fleiri
sjúkdómum sem sníkjudýr eða skordýr valda, eins og migratory
myiasis, maurakláða af völdum Sarcoptes scabiei og larva currens
af völdum Strongyloides stercoralis sem getur tekið sér bólfestu í
görnum manna. Roði birtist nokkuð fljótlega eftir að lirfan kemst
undir húðina en lirfan byrjar ekki að skríða fyrr en nokkrum dög-
um síðar og það er þá sem kláðinn gerir vart við sig. Algengt er
að kláðinn versni á nóttunni og valdi því að sjúklingur eigi erfitt
með svefn, líkt og átti sér stað í þessu tilfelli.9 Vitað er um tilfelli
þar sem kláðinn kom ekki fram fyrr en nokkrum mánuðum eftir
útsetningu.10 Lirfan getur skriðið allt frá nokkrum millimetrum á
dag til tveggja sentimetra á dag. Húðskriðlirfusýki á sér oftast stað
á neðri útlimum en í breskri rannsókn sem var birt árið 1994 voru
73,4% sjúklinga sem höfðu fengið húðskriðlirfusýki með einkenni
á neðri útlimum.11
Algengast er að húðskriðlirfusýki valdi engum skaða heldur
aðeins óþægindum líkt og í þessu tilfelli. Þó hefur verið skrifað
um nokkur tilfelli þar sem Löffler-heilkenni hefur verið lýst í
tengslum við lirfusýkinguna en þessi tilfelli eru algjör undan-
tekning.12 Löffler-heilkenni er skilgreint sem íferðir í lungum með
útlægri eosinófílíu. Aðal mismunagreiningin fyrir húðskriðlirfu-
sýki eru aðrar lirfusýkingar en sú algengasta er larva currens sem
strongyloidiasis veldur. Munurinn á milli þessara sjúkdóma er sá að
larva currens skríður mun hraðar en húðskriðlirfusýki eða allt frá 1
cm á 5 mínútum til 15 cm á einni klukkustund.
Meðferð við húðskriðlirfusýki er venjulega ivermectin eða
albendazole. Í þessu tilfelli fékk sjúklingurinn, ásamt unnusta,
þriggja daga 400 mg skammt af albendazole. Hjá flestum sjúk-
lingum hverfur kláðinn fyrst og í þessu tilviki var hann farinn
strax eftir að lyfjakúrnum lauk. Húðútbrotin tóku lengri tíma að
hverfa en venjulega er talað um að það taki um eina viku.13 Auk
þess að gefa lyf gegn sníkjudýrum er hægt að gefa andhistamínlyf
sem geta hjálpað við kláðann. Sjúklingurinn í þessu sjúkratilfelli
losnaði við öll einkenni sín eftir að meðferðinni lauk og telst því
hafa losnað við lirfusýkinguna.
Þrátt fyrir að húðskriðlirfusýking sé sjaldnast hættuleg er hún
hvimleitt fyrirbæri og getur valdið miklum óþægindum. Því er
mikilvægt fyrir lækna og ferðamenn að hafa í huga einfaldar
ráðleggingar til þess að minnka hættuna á smiti þegar ferðast er
til landa þar sem húðskriðlirfusýki er til staðar. Þar sem lirfuna er
að finna í sandi og mold er einfaldasta ráðið að forðast að ganga
berfættur utandyra, ekki síst í sandi eða á grasi. Lirfan smitast líka
með hundum og köttum og því er einnig vert að hafa í huga að
börn geta smitast við leik í sandkössum erlendis.
S J Ú k R a T i l F E l l i
Mynd 2. Upphleypt, rauðleit línuleg útbrot 10 dögum eftir upphaf einkenna.